Hoppa yfir valmynd
17. september 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Áfram gakk!

Í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er lögð áhersla á að skapa menningarstarfi, viðskiptalífi og ferðaþjónustu umhverfi sem stuðlar að velsæld og verðmætasköpun fyrir samfélagið. Það eru mörg sóknarfæri í samlegð þessara þriggja stoða en alls er framlag þeirra um 40% til landsframleiðslu. Tugþúsundir starfa við greinarnar sem fléttast saman með ýmsu móti en ekki síst auka aðdráttarafl Íslands og auðga samfélagið okkar. Við viljum hámarka þau áhrif á sama tíma og við stöndum vörð um sérstöðu hverrar greinar. Virk samkeppni, traustur fjármálamarkaður og markviss neytendavernd er forsenda heilbrigðs atvinnulífs og styður við samkeppnishæfni Íslands. Í fjárlögum fyrir árið 2023 eru áætlaðir rúmir 28,8 milljarðar til málefnasviða ráðuneytisins og er það aukning um 6% milli ára. Þá hafa framlögin hækkað um tæpa 10 milljarða frá árinu 2017.

 

Menningarsókn og íslenskan í forgrunni

Á síðasta kjörtímabili var lagt af stað í þá vegferð að stórefla menningu og listir. Á síðustu árum hafa framlög til málaflokksins aukist verulega eða úr 10,7 milljörðum árið 2017 í 17,7 milljarða með þessu fjárlagafrumvarpi. Unnið hefur verið að stefnumótun til framtíðar á sviðum skapandi greina í góðri samvinnu við grasrótina. Og við erum hvergi nærri hætt.

Meðal áhersluverkefna komandi árs er stofnun tónlistarmiðstöðvar ásamt gerð tónlistarstefnu, hönnunarstefnu, myndlistarstefnu og eflingu sviðslista. Áfram er unnið eftir framsækinni kvikmyndastefnu til 2030. Nýlega voru endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hækkaðar úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni og fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um kvikmyndasjóð. Rúmum milljarði hefur þegar verið varið í nýja kvikmyndastefnu á síðustu tveimur árum. Þá er lögð áhersla á varðveislu, aðgengi og miðlun menningararfs þjóðarinnar með því að styðja við höfuðsöfnin okkar og blómlegt safnastarf um allt land.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að hlúa vel að tungumálinu okkar en ekki síður táknmálinu. Markmiðið er að tryggja íslenskunni sess í stafrænum heimi með áframhaldandi fjárfestingu í máltækni.

 

Ferðaþjónustan drifkraftur verðmætasköpunar

Þeir fjármunir sem voru settir í stuðningsaðgerðir stjórnvalda í faraldrinum lögðu grunn að kröftugri viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan hefur að nýju náð að verða burðarás í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar, stuðlað að stöðugra gengi krónunnar og auknum lífsgæðum fólksins í landinu. Okkar hlutverk er að tryggja að svo verði áfram. Helstu áskoranir og tækifæri á næsta ári felast í gerð aðgerðaáætlunar á grunni framtíðarsýnar íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 með sjálfbærni að leiðarljósi og í góðri samvinnu við greinina og heimafólk.

 

Höfundur er menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta