Árangur fyrir íslenskuna okkar
Í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er kveðið á um að auglýsingar sem höfða eigi til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku. Neytendastofa hefur tekið til meðferðar átta mál vegna tungumáls í auglýsingum sem eiga að höfða til íslenskra neytenda frá árinu 2005, og er eitt mál til skoðunar hjá stofnuninni. Í öllum tilfellum var auglýsingunum breytt vegna athugasemda stofnunarinnar.
Ákvæði sem þetta skiptir máli og það er ánægjulegt að sjá fyrirtæki taka þessi tilmæli Neytendastofu til sín – en betur má ef duga skal. Íslensk tunga stendur á krossgötum móts við bjarta framtíð eða menningarlegt stórtjón ef ekki er staðið vel að málefnum hennar. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið með ýmsum hætti, en heildarframlag stjórnvalda nam rúmum 10 milljörðum króna á síðasta kjörtímabili til slíkra verkefna. Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi í júní 2019 og aðgerðaáætlun sem henni fylgdi. Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð. Aukinheldur hefur fjármunum verið forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Þannig var til að mynda íslensk bókaútgáfa efld með stuðningskerfi fyrir íslenska bókaútgáfu sem felur í sér endurgreiðslu allt að 25% útgáfukostnaðar íslenskra bóka með frábærum árangri.
Verkefnið er samt sem áður stórt og kallar á að við sem samfélag tökum þá ákvörðun að gera okkar eigin tungumáli hátt undir höfði. Ég skynja að vitundarvakning undanfarinna ára sé farin að skila árangri. Það gladdi mig að sjá Icelandair tilkynna nýverið um breytt fyrirkomulag við að ávarpa farþega um borð í vélum sínum með því að ávarpa fyrst á íslensku og svo á ensku. Þannig fá hin fleygu orð „góðir farþegar, velkomin heim‘{lsquo} að hljóma strax við lendingu í Keflavík, sem mörgum finnst notalegt að heyra.
Annar áfangi á þessari vegferð náðist í vikunni þegar stjórn ISAVIA samþykkti bókun þess efnis að íslenska verði framvegis í forgrunni tungumála við endurnýjun merkingakerfis í flugstöð Leifs Eiríkssonar en hingað til hafa merkingar verið fyrst á ensku og svo íslensku.
Ofantalið skiptir máli og er ég þakklát hverjum þeim sem leggur sitt af mörkum til þess að gera tungumálinu okkar hærra undir höfði. Ég mun halda áfram að hvetja bæði fólk og fyrirtæki til þess að huga að tungumálinu okkar. Þrátt fyrir að íslenska sé ekki útbreidd í alþjóðlegum samanburði þá er hún er lykillinn að menningu okkar og sjálfsmynd.