Hoppa yfir valmynd
25. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Með örri tækniþróun hefur fjölmiðlaveitum sem miðla myndefni eftir pöntun, svokölluðum streymisveitum, fjölgað til muna á síðustu árum. Stórar alþjóðlegar streymisveitur eru ráðandi á markaðnum og búa þær við þann kost að geta verið staðsettar í einu ríki evrópska efnahagssvæðisins (EES-ríki) en beint efni sínu til annarra EES-ríkja. Mikil umræða hefur verið um framlag slíkra alþjóðlegra streymisveitna til þeirra landa þar sem þjónusta af þeim er keypt, svonefnt menningarframlag. Slíkt framlag getur verið af ýmsum toga, t.d. með gjaldtöku, skattlagningu eða skilyrði um fjárfestingu innan viðkomandi lands. Á sama tíma hefur OECD verið að beita sér fyrir samræmdri nálgun hvað viðkemur gjaldtöku á stafrænu efni sem fer yfir landamæri.

Til er verkfæri fyrir EES-ríki, svo kölluð AVMSD-tilskipun, til að fá þær erlendu streymisveitur, sem staðsettar eru í lögsögu annars ríkis en miðla efni sem beint er að íslenskum neytendum, til að gefa til baka til samfélagsins hluta af þeirri veltu sem aflað er hér á landi. Í tilskipuninni kemur fram að ef aðildarríki krefja fjölmiðlaveitur innan lögsögu þess um fjárframlög til framleiðslu á evrópsku efni, þ.m.t. með beinni fjárfestingu í efni og með framlagi til landsbundinna sjóða, opnar tilskipunin á þann möguleika að skylda erlendar streymisveitur til að greiða tiltekna prósentu í t.a.m. Kvikmyndasjóð – og efla þannig íslenska kvikmyndagerð.

Ýmis lönd í Evrópu horfa nú til þess að nýta sér tilskipunina til þess að efla innlenda kvikmyndagerð. Til dæmis liggur frumvarp fyrir þjóðþingi Danmerkur sem leggur til að streymisveitur sem beina efni að dönskum neytendum skuli greiða 6% menningarframlag sem nýtist Kvikmyndasjóði Danmerkur og öðrum tengdum menningarverkefnum. Norðmenn leggja til tvær leiðir. Sú fyrri, sem er jafnframt sú sem vonir standa til að verði heimiluð, er sú að gera kröfu um beina fjárfestingu í norsku efni að tiltekinni upphæð eða prósentu og ef streymisþjónustan fjárfestir ekki fyrir viðmiðunarupphæðinni þá skal hún greiða mismuninn í sjóð sem er sambærilegur Kvikmyndasjóði. Varaleiðin er sú að gera aðeins kröfu um beina fjárfestingu.

Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á að efla umhverfi menningar og skapandi greina á Íslandi. Í því samhengi er vert að nefna að framlög til menningarmála hafa aukist verulega, eða úr 10,7 milljörðum árið 2017 í 17,7 milljarða miðað við fjárlagafrumvarp ársins 2023. Það er rúmlega 65% hækkun! Við þessar tölur bætast endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar en í ár er áætlað að þær nemi um 3,3 milljörðum króna.

Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að innleiða menningarframlag af streymisveitum svipað því sem unnið er í samanburðarríkjum okkar. Slíkt framlag er einn liður í því að styrkja umgjörð menningar hér á landi og veita greininni aukinn slagkraft til þess að vaxa til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta