Vörður í viku íslenskunnar
„Íslenskan er sameiningartákn okkar,“ sagði frú Vigdís Finnbogadóttir í hugvekju sinni í viku íslenskunnar þar sem ráðherranefnd um íslensku var kynnt til leiks, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt á degi íslenskrar tungu og þjóðargjöfin afhent við hátíðlega athöfn. Íslensk tunga er dýrmæt auðlind sem á stóran þátt í að móta okkar sterka samfélag og stendur nú frammi fyrir miklum tækni- og samfélagsbreytingum. Við finnum flest að íslensk tunga mætir vaxandi áskorunum vegna aukinnar samkeppni við efni og miðlun á ensku.
Áfram íslenska
Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið með ýmsum hætti. Sú vinna hefur grundvallast meðal annars á þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi en hún var samþykkt á Alþingi 2019. Í kjölfarið fylgdi aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2022 undir yfirskriftinni „Áfram íslenska“. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili rúmum 10 milljörðum kr.Verkefnið er samt sem áður viðvarandi og kallar á að við sem samfélag tökum þá ákvörðun að gera okkar eigin tungumáli hátt undir höfði.
Ráðherranefnd um íslensku
Í upphafi viku íslenskunnar raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar. Í henni eiga fast sæti forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta og vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins. Við ætlum að sækja fram og styrkja stöðu íslenskunnar til framtíðar, því ef við gerum það ekki, gerir það enginn fyrir okkur.
Íslenskan er okkar allra – Málþing um íslenska tungu
Á málþingi um málefni íslenskunnar voru stjórnvöld brýnd til áframhaldandi aðgerða í þágu íslenskunnar. Þar komu fram margar góðar hugmyndir og gagnlegar vangaveltur – meðal annars frá fulltrúum yngri kynslóða sem meðal annars töluðu ötullega fyrir bættu aðgengi að bæði mynd- og lesefni á íslensku fyrir sinn aldur og áhugasvið. Skýrt ákall mátti finna í erindum á málþinginu að huga þyrfti betur að íslenskukennslu fyrir fullorðna, þá sér í lagi talþjálfun og jafnframt auka almennt umburðarlyndi fyrir íslensku sem töluð er með hreim. Eða líkt og frú Vigdís Finnbogadóttir áréttaði í sinni hugvekju á málþinginu – við erum öll með hreim, öll tölum við tungumálið með okkar eigin blæbrigðum. Fyrir málþingið var falleg stund þegar börn á leikskólanum Sæborgu færðu frú Vigdísi fallega bók um tungumál sem þau bjuggu til.
Dúndur diskó Bragi Valdimar fékk verðlaun Jónasar
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru veitt á degi íslenskrar tungu. Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og textasmiður, hlaut verðlaunin en þau eru veitt árlega þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu hlaut að þessu sinni verkefnið Tungumálatöfrar sem býður upp á upp á málörvandi umhverfi í gegnum skapandi kennsluaðferðir fyrir fjöltyngd börn.
Þjóðargjöfin – 550 eintök af heildarútgáfu Íslendingasagnanna
Þjóðargjöfin er táknræn viðleitni til þess að leita ávallt nýrra leiða til þess að kveikja áhuga og ástríðu fyrir íslenskri menningu. Glæsileg útgáfa Íslendingasagnanna er kjörgripur sem nú er aðgengilegur nýjum kynslóðum. Þetta eru alvörusögur – eins og flestir vita, sögur um fólk sem skapaði sér nýtt líf og tækifæri í þessu landi, hetjusögur, skáldasögur, ástarsögur, útlagasögur og vitanlega hellingur af ættfræði, átökum og auðvitað pólitík. Saga forlag hafði veg og vanda af fimm binda hátíðarútgáfu sagnanna, sem út kom í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins.
Næstu skref
Stjórnvöld eru staðráðin í að halda áfram að efla íslenskuna og verður ný þingsályktunartillaga og uppfærð aðgerðaáætlun þess efnis lögð fram á komandi vorþingi. Í þeim verður meðal annars boðað stóraukið aðgengi að íslenskukennslu, vitundarvakning um mikilvægi þess að íslenskan verði í fyrsta sæti í almannarými og áframhaldandi þróun máltæknilausna sem nýtast fólki á öllum aldri bæði í leik og starfi. Aðeins örfá dæmi um hagnýtingu þessara máltæknilausa eru rauntímatextun sjónvarpsefnis, þýðingarvélar á milli íslensku og ensku eða talgervilsraddir fyrir blinda og sjónskerta. Við viljum geta talað við tækið okkar á íslensku.Það er sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags að tryggja að móðurmálið standi tímans tönn og verði á vörum okkar um aldur og ævi – því íslenskan er okkar allra.