60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða
Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórnmálasambandi í ár en löndin tóku upp formlegt stjórnmálasamband 10. október 1962. Á þessum sextíu árum hafa ríkin þróað náið samstarf á ýmsum sviðum, svo sem í mennta- og menningarmálum, vísindum og málefnum norðurslóða. Þannig hefur Suður-Kórea verið áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu síðan árið 2013 og verið virkur þátttakandi á þeim vettvangi. Nýlega var stofnuð Kóreudeild við Háskóla Íslands sem er afrakstur fundar míns með Sang-Kon, þáverandi menntamálaráðherra og varaforsætisráðherra Suður-Kóreu í Seúl, árið 2018.
Væntingar eru um að deildin muni vaxa og síðar taka til menningarlegra þátta til viðbótar tungumálinu. Samningar til dæmis á sviði tvísköttunar og fríverslunar eru í gildi milli landanna en árið 2020 nam umfang inn- og útflutnings milli Íslands og Suður-Kóreu um 8 milljörðum króna. Suðurkóresk fyrirtæki hafa fjárfest í íslenskum fyrirtækjum á umliðnum árum, má þar nefna kaup Kóreubúa á tölvuleikjafyrirtækinu CCP og stóra fjárfestingu í lyfjafyrirtækinu Alvotech.
Tímamót eins og 60 ára stjórnmálasamband eru merkileg og vel til þess fallin að líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar. Fyrr í haust kom sérstök sendinefnd á vegum suðurkóreskra stjórnvalda heimsókn til Íslands í tilefni af þessum merkisáfanga. Í þessari viku mun ég svo leiða íslenska viðskiptasendinefnd í Suður-Kóreu, með sérstakri áherslu á menningu og skapandi greinar, en Kóreubúar hafa náð langt í því að flytja út menningu sína. K-Pop-tónlist, margverðlaunaðar sjónvarpsþáttaraðir, óskarsverðlaunabíómyndir og annað afþreyingarefni hefur farið sem eldur í sinu um heimsbyggðina með tilheyrandi virðisauka og útflutningstekjum fyrir suðurkóreskt samfélag.
Suður-Kórea á einnig sérstakan stað í hjarta mér af persónulegri ástæðum en ég var svo heppin að búa þar á árunum 1993-1994 þegar ég nam stjórnmála- og hagsögu Suður-Kóreu við Ewha-kvennaháskólann í Seúl. Það var einstakt að fá að kynnast þessari fjarlægu vinaþjóð okkar með þeim hætti, en þrátt fyrir að vera langt í burtu á landakortinu eru ýmis líkindi með Íslandi og Suður-Kóreu. Bæði ríkin glímdu við mikla fátækt í kringum sjálfstæði sitt sem þau fengu um sviptað leyti, Ísland 1944 og Suður-Kórea 1945. Síðan þá hafa bæði lönd náð langt og geta í dag státað af einum bestu lífskjörum í veröldinni. Landfræðileg lega ríkjanna er mikilvæg og bæði eiga þau í sértöku sambandi við Bandaríkin, meðal annars á sviði varnarmála. Áhersla á menningu og sérstaklega almennt læsi hefur lengi verið mikil. Ég tel að það hafi skipt öllu máli í þeim þjóðfélags- og efnahagslegu framförum sem ríkin hafa náð. Ekki má gleyma að því að löndin deila gildum frelsis, lýðræðis og opinna alþjóðaviðskipta – en Kóreuskaginn, með skiptingu sinni í norður og suður, geymir best þann lærdóm hversu mikilvægt slíkt stjórnarfar er.
Ég er bjartsýn á framtíðarsamskipti ríkjanna og ég tel að löndin tvö geti dýpkað samstarf sitt og vináttu enn frekar, með hagsbótum fyrir þegna sína.