Tímamót í tónlistarlífi þjóðarinnar
„Tónlistin lýsir því sem verður ekki með orðum tjáð og ógerlegt er að þegja yfir“, sagði franski rithöfundurinn Victor Hugo. Ég tek undir þessa fullyrðingu og tel jafnframt að tónlist sé ein besta heilsurækt sem völ er á. Hið blómlega tónlistarlíf Íslands hefur fært okkur ríkan menningararf sem á sér fastan sess í hjörtum okkar allra. Tónlist er ekki bara einn veigamesti hlutinn af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem hvert tónlistarverkefni skapar mörg afleidd störf. Því er ánægjulegt að greina frá því að ríkisstjórn Íslands samþykkti í vikunni frumvarp mitt til tónlistarlaga. Þetta er í fyrsta sinn sem lögð eru fram heildarlög um tónlist á Íslandi. Frumvarpið er byggt á tillögum starfshóps sem skipaður var á degi íslenskrar tónlistar, hinn 1. desember 2020. Hlutverk hópsins var að rýna umhverfi tónlistargeirans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tónlistar væri best skipulagt, leggja drög að tónlistarstefnu og skilgreina hlutverk og ramma Tónlistarmiðstöðvar, sem ráðgert var að setja á laggirnar. Það er því mikið fagnaðarefni að frumvarpið hafi litið dagsins ljós.
Markmið laga þessara er að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar á Íslandi með því að marka heildarramma fyrir málefni tónlistar og búa henni hagstæð skilyrði. Frumvarpið tekur einnig mið af drögum að tónlistarstefnu 2023-2030 sem voru kláruð samhliða samningu frumvarpsins. Við samningu frumvarpsins var litið til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar einsettum við okkur að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný og fleiri tækifæri fyrir íslenskt listafólk. Greitt aðgengi að menningunni er mikilvægur þáttur þessa því það skiptir miklu máli að við öll getum notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi.
Ný Tónlistarmiðstöð
Í frumvarpinu er kveðið á um nýja Tónlistarmiðstöð. Tónlistarmiðstöð sem er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan. Þá verður lögð áhersla á að teikna upp nútímalegt og hvetjandi umhverfi fyrir íslenskt tónlistarlíf. Markmiðið er að miðstöðin verði raunverulegur miðpunktur tónlistargeirans og tengipunktur við stjórnvöld. Mikilvægt er að markmið, hlutverk og skipulag miðstöðvarinnar sé skýrt frá upphafi og endurspegli fjölbreytni tónlistarlífsins. Tónlistarmiðstöð sinnir þremur kjarnasviðum. Fyrsta kjarnasviðið, Inntón, kemur til með að annast fræðslu og styðja við tónlistartengd verkefni og uppbyggingu tónlistariðnaðar. Kjarnasviðið Útón veitir útflutningsráðgjöf og styður við útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Útón byggist á því góða starfi sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar hefur sinnt frá árinu 2006; að efla útflutning á íslenskri tónlist og skapa sóknarfæri fyrir íslenska tónlist á erlendum mörkuðum. Loks verður það hlutverk Tónverks að sjá um skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka, meðal annars með því að halda úti nótnaveitu, þ.e. rafrænum nótnagrunni. Að lokum má nefna að hinni nýju tónlistarmiðstöð er sömuleiðis ætlað að annast umsýslu nýs tónlistarsjóðs.
Nýr tónlistarsjóður og tónlistarráð
Lagt er til að settur verði á fót nýr tónlistarsjóður en hann sameinar þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Sjóðurinn mun taka við hlutverki Tónlistarsjóðs, Hljóðritasjóðs og Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni aukin.
Í frumvarpinu er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, Tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.
Þakkir
Blómlegur tónlistariðnaður er forsenda þess að utanumhald tónlistarverkefna haldist á Íslandi og upp byggist sterkt tónlistarumhverfi. Umhverfi tónlistar á Íslandi er frjótt og er það öflugu tónlistarfólki og fagfólki innan tónlistar að þakka. Hlutverk stjórnvalda er að hlúa að tónlistargeiranum og rækta, með því að styðja við bakið á listafólki og huga um leið að því að jarðvegurinn geti nært grasrótina og vöxt sprota sem og annarra fyrirtækja. Ég vil þakka formanni vinnuhópsins, Jakobi Frímanni Magnússyni, sérstaklega fyrir að leiða þessa vinnu ásamt þeim Valgerði Guðrúnu Halldórsdóttur, Bryndísi Jónatansdóttur, Braga Valdimar Skúlasyni, Gunnari Hrafnssyni, Eiði Arnarssyni og Arnfríði Sólrúnu Valdemarsdóttur. Með frumvarpinu eru stigin stór skref í stuðningi við frekari uppbyggingu þessarar listgreinar, sem er okkur svo mikilvæg og kær.