Hoppa yfir valmynd
10. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Kastljós kvikmyndaheimsins beinast nú að Íslandi þegar Evrópsku kvikmyndaverðlaunin (e. European Film Awards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mikill heiður fyrir Ísland að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu sem vettvangur verðlaunanna en hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu en íslenska ríkið og Reykjavíkurborg halda hátíðina í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaakademíuna.

Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rósin í hnappagat íslenskrar kvikmyndamenningar sem hefur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gestir verða viðstaddir hana, þar af um 700 erlendir gestir frá yfir 40 löndum auk yfir 100 blaðamanna og áhrifavalda sem munu gera hátíðinni skil.

Á umliðnum árum hafa stór skref verið tekin til þess að efla íslenska kvikmyndagerð. Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan fyrir Ísland, Kvikmyndastefna til ársins 2030 - Listgrein á tímamótum, var kynnt fyrir tveimur árum sem markaði ákveðin vatnaskil. Í henni eru útlistuð ýmis markmið og fjölþættar aðgerðir til þess að efla umgjörð kvikmyndagerðar hér á landi, til að mynda í menntamálum, betri samkeppnisstöðu, aukinni sjálfbærni og markvissu alþjóðlegu kynningarstarfi.

Mikill metnaður hefur verið lagður í framfylgd stefnunnar á skömmum tíma. Þannig fékk Kvikmyndasjóður aukainnspýtingu upp á tæpan milljarð króna vegna heimsfaraldursins. Í gær var tilkynnt um áætlaða viðbótarfjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breytingar í ríkisfjármálaáætlun frá því í sumar. Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð á Íslandi hefur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en framlag til endurgreiðslna í kvikmyndagerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 milljarða króna, sem er veruleg hækkun. Fjármunir til kvikmyndamenntunar á framhaldsskólastigi voru auknir og langþráðu kvikmyndanámi á háskólastigi komið á laggirnar svo dæmi séu tekin.

Allt þetta skiptir máli fyrir þann öfluga hóp fólks sem hefur helgað sig íslenskri kvikmyndagerð, en án hans væri kvikmyndaiðnaðurinn fátæklegur hér á landi. Íslensk kvikmyndamenning er orðin samofin þjóðarsálinni og menningu landsins. Sá ríki vilji stjórnvalda til þess að sækja um að halda Evrópsku kvikmyndaverðlaunin hér á landi var meðal annars með ofangreint í huga, að tileinka hátíðina grasrótinni í íslenskri kvikmyndagerð og undirstrika það, með veglegum kastljósum, hversu framarlega Ísland stendur í heimi kvikmyndanna. Ég óska öllum til hamingju með hátíð dagsins, sem verður landi, þjóð og menningu til sóma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta