Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland
Mikil ókyrrð hefur verið á alþjóðamörkuðum síðustu ár. Verðbólga á heimsvísu hefur ekki mælst jafnhá í fjóra áratugi. Meginorsakir hennar eru heimsfaraldurinn og röskun á aðfangakeðju vegna hans, stríðið í Úkraínu og orkukreppan í Evrópu. Að auki lítur út fyrir áframhaldandi pólitíska spennu milli Bandaríkjanna og Kína. Stýrivextir halda áfram að hækka og líkurnar aukast verulega á að efnahagsniðursveifla hefjist á heimsvísu. Tími ódýrs lánsfjármagns er liðinn í bili. Einhver glæta er þó að birtast eftir að verðbólga er farin að hjaðna í Bandaríkjunum.
Minnkandi alþjóðaviðskipti
Miklar breytingar virðast vera í farvatninu í alþjóðahagkerfinu, sem snúa einkum að minnkandi alþjóðaviðskiptum og fjárfestingu. Í þessu umhverfi er sérstaklega mikilvægt að stefna í ríkisfjármálum sé traust og að þau séu sjálfbær hjá ríkjum. Fyrrverandi forsætisráðherra, Liz Truss, og fjármálaráðherra Bretlands, Kwasi Kwarteng, fundu heldur betur fyrir því að hafa ekki hugað að trúverðugri ríkisfjármálastefnu. Frá því að „Litlu-fjárlögin“ voru kynnt af þáverandi forystu Íhaldsflokksins leið ekki nema um vika þar til þau neyddust til að segja af sér. En hvað þýða þessir sviptivindar alþjóðafjármálakerfisins og hver er þýðing þeirra hér á landi?
Lygileg atburðarás í Bretlandi
Í kjölfar þess að ,,Litlu-fjárlögin“ voru kynnt fór af stað mjög hröð atburðarás á fjármálamörkuðum. Veðköll hófust vegna afleiðuskuldbindinga lífeyrissjóðakerfisins í breskum skuldabréfum. Það leiddi til þess að Seðlabanki Englands þurfti að auka laust fé í umferð til að hægt væri að mæta veðköllunum. Ríkisfjármálaáætlunin tapaði samstundis öllum trúverðugleika og í framhaldinu urðu stjórnarskipti. Nýr fjármálaráðherra, James Hunt, hefur kynnt fjármálaáætlun sem miðar að því að skuldalækkun sé í augsýn og skattar voru meðal annars hækkaðir á þá tekjumestu. Undið var ofan af fyrri áætlunum á mettíma. Tiltrú og traust hefur minnkað vegna þessarar framgöngu í ríkisfjármálum.
Ríkisútgjöld aukast í Evrópu og Ítalía áfram í hættu
Seðlabankar heimsins hafa verið að hækka stýrivexti og samhliða hefur fjármögnunarkostnaður verið að aukast. Að sama skapi sjáum við ekki fyrir endann á stríðinu í Úkraínu og orkukreppu margra Evrópuríkja. Þýskaland hefur þegar riðið á vaðið til að styðja betur við fyrirtækin og heimilin í landinu vegna hækkandi orkuverðs og settu rúma 200 milljarða evra til þess. Fjármálaráðherra Þýskalands, Christian Lindner, hafnaði því að aðgerðapakkinn væri verðbólguhvetjandi en engu að síður hefur verðbólga ekki mælst hærri í 70 ár og ávöxtunarkrafa þýskra ríkisskulda hækkað. Annað ríki í Evrópu, Ítalía, er enn viðkvæmara fyrir þrengingum. Ítalía er háð rússnesku gasi og hefur lítið svigrúm í ríkisfjármálunum í ljósi mikilla skulda og hækkandi vaxtagreiðslna til að koma til móts við hækkandi orkuverð. Ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréfin hefur verið að hækka verulega. Ófyrirsjáanleiki í orkuöflun í Evrópu veldur því að fjárfestar gera ráð fyrir að erfiðara verði að koma böndum á verðbólguna.
Taugaveiklaðir markaðir
Við sjáum ekki fyrir endann á vaxtahækkunum seðlabanka og því mun myndast álag á helstu fjármálamörkuðum. Vegna þessa er búið að herða tökin á öllum mörkuðum og lausafjárstaða þjóða og fyrirtækja hefur versnað. Það má færa sannfærandi rök fyrir því að við munum sjá miklar verðbreytingar á mörkuðum og meiri óstöðugleika á næsta ári. Gjá myndast meðal þjóða sem hafa trúverðug ríkisfjármál og sjálfbæran greiðslujöfnuð annars vegar og hins vegar þeirra þar sem grunnstoðir hagkerfa eru veikar líkt og á Ítalíu, í Tyrklandi og Argentínu. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað vexti hraðar en aðrir seðlabankar að undanskildum Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir að gengi Bandaríkjadals hefur hækkað verulega eða um rúm 17% frá ársbyrjun. Bandaríkin hafa því verið að flytja verðbólguna til annarra ríkja og því hafa aðrar þjóðir þurft að hækka vexti hraðar en ella.
Fjárlög ríkissjóðs Íslands 2023 sýna afkomubata
Hagvaxtarhorfur hafa styrkst á Íslandi og hagvöxtur er óvíða meiri og mælist 7,3% á 3. ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofunnar. Hann er drifinn áfram af miklum vexti í útflutningi, sérstaklega í ferðaþjónustu, og kröftugri einkaneyslu. Hlutur hins opinbera er að minnka í fjárfestingum og vöxtur samneyslu er hóflegur. Þrátt fyrir aukin útgjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu ríkisfjármálanna og hvika ekki frá því meginmarkmiði að lækka skuldir á næstu árum. Í ár hefur dregið hratt úr miklum hallarekstri ríkissjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á fjárhag heimila og fyrirtækja. Efnahagsbatinn hefur leitt til mikillar tekjuaukningar ríkissjóðs og þess að skuldahlutföll hins opinbera eru mun lægri en gert var ráð fyrir. Þessi efnahagsbati er kröftugur og því hefur myndast spenna í þjóðarbúinu. Fjármál hins opinbera þurfa að róa í sömu átt og stefna Seðlabanka Íslands. Halli á rekstri ríkissjóðs verður því tæplega 3% af landsframleiðslu. Útlit er fyrir að skuldahlutföll verði að sama skapi nær óbreytt frá samþykktri fjármálaáætlun frá því í sumar, eða um 33% af VLF. Það er alveg ljóst í mínum huga að afar brýnt er að ríkissjóður nái tökum á þessum halla á næstu árum. Ísland er í kjöraðstöðu til að sýna fram á sjálfbær ríkisfjármál vegna afkomubata og framtíðarhorfur eru því bjartar.Gera má ráð fyrir að þróunin verði sú að ríki séu í auknum mæli að fást við vaxandi ríkisútgjöld, erfiðari baráttu við verðbólgu og að hinir alþjóðlegu fjármálamarkaðir muni veita aðhald vegna þeirra þrenginga sem eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við eigum að taka þessa atburðarás alvarlega, þar sem kröfur um trúverðuga ríkisfjármálastefnu eru að aukast ásamt því að alþjóðaviðskipti eru að dragast saman. Smærri ríki þurfa því að vanda sig enn frekar. Horfur íslensks efnahags eru bjartar, hagvöxtur er mikill og byggist á aukinni verðmætasköpun. Að sama skapi halda skuldir áfram að lækka og er skuldastaða ríkissjóðs ein sú besta í Evrópu. Þrátt fyrir þessa stöðu ber okkur að vera ætíð á tánum til þess að auka kaupmátt og velferð í landinu.