Ómetanlegt starf í þágu þjóðar
Eitt af því sem íslenskt samfélag getur verið hvað stoltast af eru björgunarsveitir landsins. Allt frá því að fyrsta björgunarsveitin var stofnuð árið 1918 í Vestmannaeyjum í kjölfar tíðra sjóslysa hefur mikið vatn runnið til sjávar í starfsemi sveitanna, en nú rúmri öld síðar starfa um 100 sveitir á landinu. Það er óeigingjarnt starf sem þær þúsundir einstaklinga sem manna björgunarsveitirnar inna af hendi en það er sannkölluð dyggð að henda öllu frá sér þegar kallið kemur og halda af stað í allra veðra von til þess að tryggja öryggi annarrar manneskju.
Allt þetta fólk er tilbúið að leggja mikið sjálfboðastarf á sig til þess að láta gott af sér leiða, stuðla að auknu öryggi og bæta samfélagið á Íslandi. Aðstæðurnar sem björgunarsveitarfólk stendur frammi fyrir eru oftar en ekki krefjandi og reyna bæði á líkama og sál. Á þetta erum við reglulega minnt þegar okkur berast til dæmis fréttir af vonskuveðrum sem ganga yfir landið með tilheyrandi áskorunum, nú síðast í kringum hátíðirnar.
Björgunarsveitirnar eru sannkölluð grunnstoð í sambýli okkar Íslendinga við óblíð náttúruöflin sem móta líf okkar hér norður í Atlantshafi. Sagan geymir mörg dæmi þess. Það sem vekur gjarnan athygli erlendis þegar talið berst að björgunarstarfi er sú staðreynd að þetta öfluga björgunarkerfi er byggt upp af sjálfboðaliðum. Fagmennskan, þekkingin og reynslan sem björgunarsveitirnar sýna í störfum sínum eru jafngóð ef ekki betri í samanburði við þrautþjálfaðar atvinnubjörgunarsveitir erlendis.
Erlendir ferðamenn sem hafa þurft á aðstoð björgunarsveita að halda hér á landi hafa einmitt lýst hrifningu sinni á þeim. Veruleikinn hefur vissulega breyst með tilkomu þess mikla fjölda ferðamanna sem heimsækir landið á ári hverju. Þrátt fyrir að útköll vegna ferðamanna séu hlutfallslega fá miðað við þann mikla fjölda ferðamanna sem kemur til landsins hefur verkefnum vegna erlendra ferðamanna vissulega fjölgað undanfarinn áratug. Á umliðnum árum hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg, í samstarfi við stjórnvöld og atvinnulífið, hrundið af stað mikilvægum fræðsluverkefnum sem miða að því að fyrirbyggja slys og auka þannig öryggi. Má þar helst nefna verkefnið Safetravel sem miðlar upplýsingum um aðstæður til ferðalaga á fimm tungumálum. Jafnframt eru um 1.000 upplýsingaskjáir um allt land sem ætlað er að koma upplýsingum til skila. Sem ráðherra ferðamála mun ég leggja áframhaldandi áherslu á fyrirbyggjandi öryggisfræðslu fyrir ferðamenn til þess að draga úr líkum þess að kalla þurfi út björgunarsveitir.
Að lokum við ég þakka öllu því framúrskarandi fólki sem tekur þátt í starfi björgunarsveitanna. Ykkur á þjóðin mikið að þakka. Ég vil jafnframt hvetja alla til þess að leggja sveitunum lið nú um áramótin en það sem gerir starf þeirra svo sérstakt umfram allt er hugsjónin um öruggara samfélag; ómetanlegt starf í þágu þjóðar. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir árið sem er að líða.