Brúin milli heimsálfanna
Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að hver sá sem hefur yfirráð yfir Íslandi heldur á byssu miðaðri á England, Ameríku og Kanada. Þannig kjarnaði hann hernaðarlegt mikilvægi Íslands út frá landfræðilegri legu þess. Þessi skoðun hefur staðist tímans tönn og skipar landfræðileg lega landsins enn mikilvægan þátt í varnar- og öryggismálum í heimshlutanum.
Á undanförnum áratugum hefur Íslendingum tekist að nýta legu landsins sér sjálfum sem og erlendum ferðalöngum enn frekar til framdráttar. Nýverið kynnti ég mér starfsemi ISAVIA á Keflavíkurflugvelli, mannvirki sem hefur þjónað sívaxandi öryggis- og efnahagslegum tilgangi fyrir Ísland.
Það hefur talsvert vatn runnið til sjávar frá því Flugstöð Leifs Eiríkssonar var opnuð árið 1987, þá 23 þúsund fermetrar að stærð sem um fóru 750 þúsund farþegar. Frá opnun hennar hafa umsvif alþjóðaflugs aukist verulega samhliða því að íslensk flugfélög hafa nýtt sér landfræðilega legu landsins til þess að byggja upp viðskiptalíkön sín. Tengimiðstöðin Keflavík þjónar nú milljónum farþega sem ferðast yfir hafið með viðkomu í Leifsstöð, en í ár í gert ráð fyrir að 7,8 milljónir fari um flugvöllinn. Þétt net áfangastaða og aukin flugtíðni til og frá Keflavík hefur opnað Íslendingum nýja möguleika í leik og starfi. Þannig er flogið til 75 áfangastaða frá Keflavík. Til samanburðar eru 127 skráðir frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.
Greiðar samgöngur líkt og þessar og nálægð við lykilmarkaði þar sem kaupmáttur er sterkur skipta samkeppnishæfni landa miklu máli og skapa skilyrði fyrir góðan árangur í utanríkisverslun. Íslenskt efnahagslíf hefur ekki farið varhluta af þessu, nægir þar að nefna að ferðaþjónusta hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið að þeirri atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Fjölmörg tækifæri fylgja því að styðja áfram við alþjóðaflugið og skapa ný tækifæri, til að mynda með auknu fraktflugi til, frá og í gegnum Ísland.
Stjórnvöld gera sér grein fyrir þýðingu þess að hlúa vel að alþjóðaflugi. Stórar fjárfestingar í flugvallarinnviðum undirstrika það. Þannig standa umfangsmiklar framkvæmdir yfir á Keflavíkurflugvelli en umfang þeirra mun nema um 100 milljörðum króna. Þá er unnið að stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur fjármunum verið varið í styðja flugfélög til að þróa og markaðssetja beint flug til Akureyrar og Egilsstaða sem skilað hefur góðum árangri og mun skipta máli fyrir atvinnulíf og íbúa þeirra svæða.
Það hefur þjónað hagsmunum landsins vel að vera brúin milli Evrópu og Norður-Ameríku. Við þurfum að halda áfram að nýta þau tækifæri sem landfræðileg lega landsins skapar okkur og byggja þannig undir enn betri lífskjör á landinu okkar.