Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs
Á þessu kjörtímabili verða málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í góðri samvinnu við hagaðila. Markmið þeirrar vinnu er skýrt; við ætlum að kynna stefnu og aðgerðir sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Ný hönnunarstefna verður mótuð og kynnt en henni er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun. Meðal lykilaðgerða eru setning laga um hönnun og arkitektúr, efling Hönnunarsjóðs, bætt aðgengi nýskapandi hönnunarverkefna að samkeppnissjóðum, endurskoðun menningarstefnu í mannvirkjagerð og að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Í ár munu framlög til Hönnunarsjóðs hækka um 30 milljónir króna og umfang sjóðsins því aukast í 80 m.kr. Sjóðurinn úthlutar styrkjum til margvíslegra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs en hlutverk hans er að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun og að stuðla að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.
Fyrir tilstilli framlaga sjóðsins hefur mörgum spennandi nýskapandi verkefnum verið hrint í framkvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snúast af krafti, en samtals hafa 386 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum frá upphafi. Stuðningur úr Hönnunarsjóði er mikilvæg lyftistöng og viðurkenning, og oft fyrsta skref að einhverju stærra.
Það eru stór efnahagsleg tækifæri fólgin í því að styðja við skapandi greinar líkt og hönnun og arkitektúr með skipulögðum hætti. Nægir þar að líta til Danmerkur þar sem umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í hagkerfinu undanfarin ár. Tugir þúsunda starfa eru innan slíkra greina þar í landi og hefur vöxtur í útflutningi þeirra verið um 4,8% árlega síðan 2011. Árið 2020 fóru útflutningsverðmæti skapandi greina yfir 14 milljarða evra en tískuvarningur er til að mynda fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur.
Hönnun og arkitektúr snerta daglegt líf okkar á ótal vegu og flest höfum við skoðanir á hönnun og arkitektúr í einhverju formi. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að leggja áherslu á að efla íslenska hönnun og arkitektúr, sem fag- og atvinnugrein, útflutningsgrein og mikilvæga aðferðafræði – sem mun á endanum leiða til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið. Með hækkun framlaga í Hönnunarsjóð er stigið skref á þessari vegferð, slagkraftur sjóðsins mun aukast og vonir standa til þess að áhrifa hans gæti enn víðar.