Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Eitt af því skemmtilega við að starfa í stjórnmálum er að sjá afrakstur verka sinna fyrir samfélagið. Sú vegferð getur tekið á sig ýmsar myndir og verið mislöng. Síðastliðin vika var viðburðarík í þessu samhengi, en mikilvægir áfangar náðust fyrir málefni tónlistar, myndlistar, hönnunar og arkitektúrs.

Á Alþingi mælti ég fyrir frumvarpi að tónlistarlögum og þingsályktunartillögu um tónlistarstefnu fyrir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heildarlög um tónlist í landinu og fyrstu opinberu stefnu í málefnum tónlistar á Íslandi. Ný heildarlög um tónlist og tónlistarstefna marka ákveðin vatnaskil fyrir tónlistarlífið í landinu en fram undan eru nokkuð róttækar breytingar til þess að efla stuðningskerfi tónlistar á Íslandi og styðja við íslenskt tónlistarfólk í verkum sínum, bæði hérlendis og erlendis. Þannig verður ný tónlistarmiðstöð sett á laggirnar en henni er ætlað að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þá mun nýr tónlistarsjóður sameina þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar í einn sameiginlegan sjóð með það að markmiði að einfalda styrkjaumhverfi íslensks tónlistarlífs og auka skilvirkni þess.

Í þinginu mælti ég einnig fyrir nýrri myndlistarstefnu til ársins 2030 sem byggist á fjórum meginmarkmiðum sem hvert og eitt stuðli að umbótum og jákvæðum breytingum svo að framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika. Meginmarkmiðin eru að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess. Í stefnunni er einnig að finna fjölþættar aðgerðir til þess að ná settum markmiðum.

Síðastliðinn föstudag kynnti ég svo nýja stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs til ársins 2030. Leiðir að meginmarkmiðum stefnunnar tengjast fimm áherslusviðum sem nánar er fjallað um í stefnuskjalinu; verðmætasköpun, menntun framsækinna kynslóða, hagnýtingu hönnunar sem breytingaafls, sjálfbærri innviðauppbyggingu og kynningu á íslenskri hönnun og arkitektúr.

Að baki öllu fyrrnefndu liggur mikil og góð samvinna við fjölda samstarfsaðila, og hag- og fagaðila í viðkomandi greinum. Í eyrum sumra kunna orð eins og stefna og stefnumótun að hljóma eins og froðukenndir frasar, en staðreyndin er engu að síður sú að hér er kominn sameiginlegur leiðarvísir til framtíðar, sem allir eru sammála um og nú er hægt að hrinda í framkvæmd. Fjármunir hafa nú þegar verið tryggðir til þess að hefja þá vinnu. Stjórnvöldum er alvara með því að sækja fram fyrir skapandi greinar. Mikið af undirbúningsvinnunni er nú að baki, við tekur að bretta upp ermar og halda áfram að framkvæma.vvvv

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta