Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Anastasia og Borysko

Ár er liðið í dag síðan veruleikinn breyttist hjá systkinunum Anastasiu, átta ára og Borysko, tíu ára. Fyrir rétt rúmu ári sóttu þau grunnskólann sinn í Kænugarði, áhyggjulaus um framtíðina, eins og börn á þessum aldri eiga skilið. Það mesta sem var að plaga þau var að Anastasia var nánast búin að ná fullum tökum á Für Elise og píanótíminn var næsta dag og Borysko var ekki sáttur við sitt lið í ensku deildinni. Hann batt vonir við leik helgarinnar sem fram undan var. Hinn 24. febrúar breyttist líf fjölskyldu þeirra að eilífu. Móðir þeirra flúði með þau en faðir þeirra berst nú í stríðinu.

Vonbrigði í Kreml

Árásarstríð Vladimírs Pútíns í Úkraínu átti að sýna heiminum sterka stöðu herveldis Rússlands og hversu öflugt hagkerfið væri, þrátt fyrir fall Sovétríkjanna árið 1991. Liður í að styrkja rússneska heimsveldið var að ná aftur Úkraínu. Ræður Pútíns síðustu ár hafa einkennst af þessum heimsveldisdraumum hans og gagnrýni á útþenslustefnu Bandaríkjanna. Þróun stríðsins í Úkraínu hefur verið niðurlægjandi fyrir Pútín að sama skapi og ljóst að Kreml hafði ekki búist við svona kröftugum stuðningi vestrænna þjóða. Allir helstu sérfræðingar töldu að Rússar yrðu komnir inn í Kænugarð á þremur dögum. Það varð hins vegar ekki raunin og segja má að Rússar hafi misreiknað sig hrapallega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröftug mótspyrna Úkraínumanna neyddi Rússa á endanum til að hörfa frá stórum landsvæðum en stríðið geisar nú í suður- og suðausturhluta landsins. Volodimír Selenskí forseti Úkraínu ítrekaði, á öryggisráðstefnunni í München í síðustu viku, að það væri enginn annar valkostur í boði en fullnaðarsigur.

Stuðningur við Úkraínu mikilvægur gildum okkar

Vegna innrásarinnar blasir nýr veruleiki við Evrópuþjóðum í öryggis- og varnarmálum. Málaflokkurinn hafði fengið lítið vægi í opinberri umræðu og samdráttur í framlögum marga Evrópuríkja til varnarmála hafði verið talsverður. Að sama skapi hafa lykilríki verið háð Rússlandi um orkuöflun. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa verið fordæmalaus og stuðningur við Úkraínu verulegur. Velvild og dyggur stuðningur bandarískra stjórnvalda skipta höfuðmáli um gang stríðsins. Evrópa er enn og aftur algjörlega háð stefnu Bandaríkjanna í varnarmálum. Varnarmálayfirvöld í Bandaríkjunum endurmeta hergögn og birgðir og gera ráð fyrir að útgjöld til varnarmála aukist vegna þess kostnaðar sem fylgir landhernaði.

Vesturlönd voru ítrekað vöruð við þessari þróun

Vesturlönd voru margoft vöruð við stjórnarháttum Pútíns. Eftir að Rússar yfirtóku Krímskaga var gripið til aðgerða. Því miður töldu Vesturlönd að efnahagsrefsiaðgerðirnar myndu duga til að koma í veg fyrir frekari átök, en þær voru veikar og dugðu skammt. Bók blaðakonunnar Önnu Politkovskayu um Rússland Pútíns sem var gefin út árið 2004, fjallar mjög ítarlega um einræðisstjórnhætti Pútíns. Bók Önnu fékk verðskuldaða athygli en í kjölfarið var Anna myrt 7. október, 2006 á afmælisdegi Pútíns. Hann fékk tilkynninguna um morðið þegar þau Angela Merkel, kanslari Þýskalands, funduðu í Kreml. Haft hefur verið eftir Merkel að Pútin hafi viljandi látið hvísla þessu að sér í þeim tilgangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu samhengi, eins og baráttu fjárfestisins Bills Browders fyrir réttlæti vegna Sergeis Magnitskys, en sá síðarnefndi var náinn samstarfsmaður Browders og lést í fangelsi í Rússlandi. Í framhaldinu samþykkti bandaríska þingið Magnitsky-lögin, en þau fela í sér fjárhagslegar refsiaðgerðir gagnvart rússneskum viðskiptajöfrum. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vesturlönd voru vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rússlandi Pútíns.

Þjóðaröryggisstefna Íslands byggist á traustum stoðum

Ísland hefur tekið þátt af fullum þunga í aðgerðum bandalagsríkjanna og stutt myndarlega við Úkraínu með ýmsum móti, meðal annars með móttöku flóttafólks sem hingað hefur leitað í öruggt skjól. Í amstri hversdagsins vill það kannski gleymast að sú samfélagsgerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýðræði og mannréttindum, er ekki sjálfsögð. Innrás Rússa er grimmileg áminning um það. Framsýnar ákvarðanir íslenskra stjórnmálamanna, um að taka sér stöðu með lýðræðisríkjum með því að gera Ísland að stofnríki Atlantshafsbandalagsins árið 1949 og undirrita tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin 1951, voru heilladrjúg skref fyrir íslenska hagsmuni. Þau mynda enn hryggjarstykkið í utanríkisstefnu okkar. Íslendingar eiga áfram að taka virkan þátt í varnar- og öryggissamstarfi með bandalagsþjóðum sínum og standa vörð um þau gildi sem við reisum samfélag okkar á. Þjóðaröryggisstefna Íslands frá árinu 2016 hefur þjónað okkur vel. Megináherslan er sem fyrr á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin ásamt aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum og nánu samstarfi Norðurlandanna. Landfræðileg staða Íslands heldur áfram að skipta sköpum í Norður-Atlantshafinu og við eigum að halda áfram að styrkja þjóðaröryggisstefnuna.

Lokaorð

Þúsundir barna á borð við Anastasiu og Borysko hafa leitað skjóls um allan heim. Við eigum að vera stolt af því að hafa veitt yfir 2500 konum og börnum skjól frá þessu grimmilega árásarstríði Pútíns. Við eigum að halda áfram að leggja okkar af mörkum til að lina þjáningar þeirra sem eru á flótta. Gera má ráð fyrir að stríðið verði langvinnt og það reyni á þrautseigju Vesturlanda. Höfum ætíð í heiðri frelsi og lýðræði en stríðið snýst um þau gildi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta