Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra
Hvað gerðist hjá bankanum?
Verðbólgan í Bandaríkjunum hefur verið þrálátari en peningayfirvöld gerðu ráð fyrir og mældist nýlega 6%. Spennan á vinnumarkaði hefur verið mikil og víða skortur á vinnuafli eftir Covid-19. Orsök falls SV-bankans má að einhverju leyti rekja til mikilla hækkana á stýrivöxtum bandaríska seðlabankans. Í byrjun árs benti margt til þess að tökum hefði verið náð í glímunni við verðbólguna. Tölur um verðbólgu í Bandaríkjunum sem birtust fyrir um mánuði gáfu hins vegar til kynna að enn væri verk að vinna og við það breyttust væntingar sem leiddi til verðfalls á markaði. Eins og venjan er þegar slíkt gerist fóru markaðsaðilar að líta í kringum sig að leita uppi veikleika í kerfinu. Þegar farið var að rýna í hvað lægi að baki því að SV-bankinn birtist með óvænta fjármögnunarþörf kom í ljós að bankinn reyndist afar berskjaldaður fyrir vaxtaáhættu. SV-bankinn var þar með kominn í gin ljónsins og um miðja síðustu viku fór að breiðast út orðrómur á samfélagsmiðlum um lausafjárvandræði bankans eftir brunasölu á ríkisbréfum. SV-bankinn hafði vaxið afar hratt á síðustu árum en hann er með höfuðstöðvar í Kísildalnum og voru helstu viðskiptamenn hans sterkefnaðir einstaklingar úr tæknigeiranum og margir þeirra með verulegar innstæður. Þegar orðrómur fór að breiðast úr á samskiptamiðlum um vandræði bankans varð hann fyrir gamaldags bankaáhlaupi þar sem viðskiptavinir hans tóku út innstæður fyrir á fimmta tug milljarða. Áhlaupið var það öflugt að stjórnvöld þurftu að bregðast skjótt við og taka yfir bankann.Viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum
Um síðustu helgi var mikill handagangur í öskjunni innan stjórnarráðs Bandaríkjanna. Það var greinilegt að yfirvöld voru ekki róleg yfir ástandinu enda þurfti að taka tillit til margra þátta. Á sama tíma mátu menn það svo að ekki kæmi til greina að bjarga bankanum. Það var þó einnig ofarlega í huga manna að vandræði vegna vaxtaáhættu væri líklega víða að finna í bankakerfinu og þörf væri á stuðningsaðgerðum til að koma í veg fyrir frekari áhlaup. Um helgina var því ákveðið að Bandaríkjaforseti kæmi strax á mánudaginn fram með fjögurra liða áætlun. Áætlunin fólst í því að ekkert þak yrði á tryggðum innstæðum. Bönkunum tveimur yrði ekki bjargað með skattfé, en tryggingarsjóður innstæðna tæki að sér að tryggja allar innstæður. Stjórnvöld myndu komast til botns í því sem gerðist og menn yrðu látnir sæta ábyrgð. Regluverki yrði breytt og bandaríski seðlabankinn myndi opna fyrir greiðari lausafjárfyrirgreiðslu til að koma í veg fyrir brunaútsölur. Þessi ráð virðast hafa dugað til að róa markaðinn í bili þótt enn verði vart við titring á mörkuðum og nú er horft til staðbundinna banka. Með þessari aðgerð var lögð þung byrði á innstæðutryggingar í Bandaríkjunum. Leikurinn að finna veikasta hlekkinn hófst hinum megin Atlantsála og fannst hann í formi Credit Suisse, sem lengi hafði legið undir ámæli. Í Sviss voru sjónarmið um freistnivanda ekki að trufla menn í björgunaraðgerðum í vikunni og horfðu líklega til kerfisáhættu.Áhrifin á peningastefnuna og á heimsvísu
Í seðlabönkum er stundum sagt að verðstöðugleiki og fjármálastöðugleiki vegi salt. Þessi atburðarás SV-bankans kann að þýða að það muni hægjast á vaxtahækkunarferlinu, þar sem stjórnvöld vilja fullvissa sig um að það ógni ekki fjármálastöðugleika í landinu. Þetta getur þýtt að ef ekki losnar um spennu á vinnumarkaði, þá verður verðbólga í Bandaríkjunum langvinnari en ella og óvissa meiri. Áhrifin á heimshagkerfið eru þau sömu enda hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkað hratt í kjölfarið. Það er jafnframt gjarnan sagt að seðlabankar hækki vexti þar til eitthvað gefur eftir. Það má þegar sjá merki þess bæði á fjármálamörkuðum og í raunhagkerfinu, t.d. tæknigeiranum, að væntanlega leynast einhver vandamál undir yfirborðinu.Á síðasta aldarfjórðungi hafa hagkerfi heimsins að mestu búið við lágvaxtaumhverfi og greitt aðgengi að lánsfé og því afar illa búin undir það aðhald sem seðlabankar hafa þurft að beita undanfarið til að ná tökum á verðbólgunni. Auk vaxtalækkana hafa björgunarúrræðin frá aldamótum jafnframt falist í því að kasta peningum að vandanum með svokallaðri magnbundinni íhlutun. Nú eru góð ráð dýr þar sem þessi úrræði eru ekki í boði á verðbólgutímum. Bandaríkin voru fyrr á ferðinni með vaxtahækkanir og því líklegt að eitthvað muni jafnframt gefa eftir í öðrum löndum, t.d. á evrusvæðinu þar sem vextir voru hækkaðir í vikunni og þar sem er líklega að finna staðbundna veikleika.
Staða mála á Íslandi
Þær aðgerðir sem Bandaríkjaforseti kynnti á mánudaginn eru Íslendingum því miður vel kunnar. Á árinu 2008 leituðu markaðir uppi veikustu hlekkina og fundu þá í íslensku bönkunum. Þá voru svipuð sjónarmið uppi varðandi lausnir hér á árinu 2008. Hér var þak numið af innlendum innstæðutryggingum, skattfé var ekki notað til að bjarga bönkunum, farið var í rannsókn á því sem hér gerðist og löggjöf um fjármálamarkaði var breytt til að koma í veg fyrir að áfall sem þetta endurtæki sig.Munurinn hér var hins vegar sá að íslensk stjórnvöld horfðu fram á kerfisáfall. Vegna þess að byggja þurfti kerfið upp úr öskustónni var mögulegt að ganga í verulegar kerfisbreytingar og búum við því við bankaumhverfi sem byggist m.a.á öflugu þjóðhagsvarúðarumhverfi. Framkvæmd peningastefnunnar hefur verið með öðrum hætti hér enda magnbundin íhlutun afar takmörkuð.
Í kjölfar bankaáfallsins hér hefur verið byggt upp afar öflugt fjármálakerfi, en þó er mikilvægt er að bankarnir stígi varlega til jarðar þar sem búast má við að lánsfé verði af skornum skammti á helstu mörkuðum á næstu misserum. Áhrifin hér heima fyrir af þessari uppákomu á bandaríska markaðnum eru þau að ef það ríkir áfram mikil óvissa, þá hækkar kostnaður við alla fjármögnun. Að sama skapi þarf að hafa í huga að það ríki sem skilar mestu til íslenska þjónustujafnaðarins eru Bandaríkin, þannig að viðskiptakjör gætu versnað í kjölfarið. Þá er enn verið að hækka vexti í Evrópu og má búast við að einhver frekari vandamál skjóti þar upp kollinum. Hins vegar er staða íslenska hagkerfisins sterk enda kröftugur hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, miklar útflutningstekjur, lækkandi skuldir ríkissjóðs og frumjöfnuður ríkisfjármála næst von bráðar. Verðbólgan á Íslandi er þó enn lífseigari og kröftugri en æskilegt væri. Þess þá heldur eru verðbólguvæntingar of háar. Verðbólgan verður stærsta viðfangsefni hagstjórnarinnar næstu misseri.