Uppbygging um allt land
101 umsókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýnir fram á þá miklu hugmyndaauðgi og kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu og þann metnað sem heimamenn í hverjum landshluta fyrir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Margir Íslendingar urðu þess einmitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tímum heimsfaraldursins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur skipt sköpum við að styðja við uppbyggingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokkur vel heppnuð verkefni eru uppbygging „svífandi“ sjálfberandi göngustíga úr áli í Hveradölum sem lágmarka snertingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Útsýnispallurinn á Bolafjalli er annað frábært verkefni sem vert er að nefna, en pallurinn hangir utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn Jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands. Innviðauppbygging við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verkefni þar sem hugað er að öryggi og náttúruvernd með ráðgjöf fagfólks.
Í úthlutun gærdagsins fengu 28 verkefni í öllum landshlutum styrk. Hæsta styrkinn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verkefnið Baugur Bjólfs á Seyðisfirði, en um er að ræða hringlaga útsýnispall sem situr á fjallsbrún með einstöku útsýni yfir Seyðisfjörð. Þá hlaut Stuðlagil næsthæsta styrkinn, að upphæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu öryggi og náttúruvernd við þennan afar vinsæla ferðamannastað. Þá fékk útsýnispallur við Reynisfjall 72 m.kr. styrk sem eykur öryggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjallsins.
Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, og getur skapað miklar gjaldeyristekjur á tiltölulega skömmum tíma. Við þurfum því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsynlegir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönnum sem hingað koma. Styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, meira öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni og tryggjum framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.