Til hamingju!
18 ára meðganga
Verkefnið hefur átt sér nokkurn aðdraganda en ákvörðun um framlag til að byggja húsið var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og nú forsætisráðherra, fyrstu skóflustunguna á lóðinni við Arngrímsgötu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á árunum 2016-2018 fór síðan fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri. Ég tók við þessu mikilvæga kefli sem menningarmálaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samningum um byggingu þess og hófust framkvæmdir í kjölfarið.Það er virkilega ánægjulegt að nú, tæpum fjórum árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mikilvægu byggingu en það er löngu tímabært að verðugt hús sé reist til að varðveita handritin okkar. Þau eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem ekki aðeins er dýrmætur fyrir okkur heldur hluti af bókmenntasögu heimsins. Stjórnvöld eru staðráðin í að viðhalda og miðla þessum menningararfi okkar og kynna börnin okkar fyrir þeim sem og komandi kynslóðir.
Tungumálið í öndvegi
Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili yfir 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætlun ýtt úr vör undir heitinu „Áfram íslenska“.Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherranefnd um íslenska tungu sett á laggirnar sem ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu.