Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Til hamingju!

Tímamót í menningarsögu þjóðarinnar eru í dag þegar að Hús íslenskunnar verður vígt formlega og endanlegt nafn þess opinberað. Húsið á að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum: tungu, bókmenntum og sögu. Þar verða jafnframt varðveitt frumgögn um íslenska menningu, þ.e. handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í byggingunni eru ýmis sérhönnuð rými, svo sem fyrir varðveislu, rannsóknir og sýningu á fornum íslenskum skinnhandritum, vinnustofur kennara og fræðimanna, lesaðstaða fyrir nemendur, fyrirlestra- og kennslusalir og bókasafn með lesaðstöðu.

18 ára meðganga

Verkefnið hefur átt sér nokkurn aðdraganda en ákvörðun um framlag til að byggja húsið var tekin á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönnunarsamkeppni um útlit hússins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og nú forsætisráðherra, fyrstu skóflustunguna á lóðinni við Arngrímsgötu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á árunum 2016-2018 fór síðan fram ítarleg endurskoðun og rýni á hönnun hússins með það fyrir augum að ná fram hagkvæmni í byggingu og rekstri. Ég tók við þessu mikilvæga kefli sem menningarmálaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samningum um byggingu þess og hófust framkvæmdir í kjölfarið.

Það er virkilega ánægjulegt að nú, tæpum fjórum árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mikilvægu byggingu en það er löngu tímabært að verðugt hús sé reist til að varðveita handritin okkar. Þau eru einar merkustu gersemar þjóðarinnar og geyma sagnaarf sem ekki aðeins er dýrmætur fyrir okkur heldur hluti af bókmenntasögu heimsins. Stjórnvöld eru staðráðin í að viðhalda og miðla þessum menningararfi okkar og kynna börnin okkar fyrir þeim sem og komandi kynslóðir.

Tungumálið í öndvegi

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili yfir 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætlun ýtt úr vör undir heitinu „Áfram íslenska“.

Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherranefnd um íslenska tungu sett á laggirnar sem ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu.

Forskot fyrir íslenskuna

Við erum farin að sjá uppskeruna birtast okkur með ýmsum hætti. Langar mig sérstaklega að nefna nýleg stórtíðindi þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI kynnti að íslenska hefði verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyrir tungumálið okkar en um er að ræða stærsta gervigreindarnet heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Var þetta afrakstur ferðar minnar ásamt forseta Íslands og íslenskri sendinefnd þar sem við heimsóttum alþjóðleg tæknifyrirtæki til að tala máli íslenskunnar. Fyrirtækin geta nýtt þær tæknilausnir sem íslensk stjórnvöld hafa fjárfest í á undanförnum árum en um 60 sérfræðingar hafa unnið af miklum metnaði til þess að koma þessum tæknilausnum á koppinn og gera íslenskuna í stakk búna til þess að hægt sé að nýta hana í snjalltækjum.

Fleiri handrit heim

Við eigum að auka veg og virðingu menningararfsins, að sýna handritin, ræða þau og rannsaka. Um 700 handrit eru í vörslu á söfnum í Danmörku, en sáttmáli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Danmerkur. Ég tel að fleiri íslensk handrit eigi að koma til Íslands frá Danmörku og hef unnið að auknu samstarfi ríkjanna á þessu sviði. Þannig mun Árnasafn við Kaupmannahafnarháskóla taka þátt í nýrri handritasýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með langtímaláni á handritum. Þá ætla löndin tvö að efna til átaks til að styrkja rannsóknir, stafræna endurgerð og miðlun á fornum íslenskum handritum með sérstakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Hús þjóðar

Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður opið hús í Húsi íslenskunnar þar sem gestir geta skoðað bygginguna áður en starfsemi hefst í henni. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna þar sem íslensk tunga verður í aðalhlutverki. Til marks um mikinn áhuga á húsinu bárust tillögur frá 3.400 þátttakendum í nafnasamkeppni fyrir húsið. Ég vil þakka öllum þeim stóra og fjölbreytta hópi sem hefur komið að þessu verkefni í gegnum tíðina og ég óska íslensku þjóðinni til hamingju með húsið sitt – en af því getum við öll verið stolt. Með tilkomu þess verður menningararfi okkar tryggt gott og öruggt þak yfir höfuðið og tungumálinu okkar fært það langþráða lögheimili sem það á svo sannarlega skilið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta