Hátíð hönnunar og arkitektúrs
Þessi mikli fjölbreytileiki færir okkur einnig heim sanninn um það hvernig íslensk hönnun og arkitektúr eru mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýst getur okkar samfélagi á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir. Þar hefur starfsfólk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, og ótal samstarfsaðilar þeirra, unnið þrekvirki við að þróa spennandi hátíð sem höfðar til víðs hóps og hefur sannarlega átt stóran hlut í því að koma íslenskri hönnun rækilega á kortið – svo eftir er tekið.
Á þessu kjörtímabili verða málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í góðri samvinnu við hagaðila. Markmið þeirrar vinnu er skýrt; við ætlum að hrinda nýrri hönnunarstefnu fyrir Ísland í framkvæmd með aðgerðum sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Hinni nýju stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.
Meðal lykilaðgerða eru að setja lög um hönnun og arkitektúr, efla Hönnunarsjóð, bæta aðgengi nýskapandi hönnunarverkefna að samkeppnissjóðum, endurskoða menningarstefnu í mannvirkjagerð og að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Strax í ár var Hönnunarsjóður efldur og nemur umfang sjóðsins nú 80 m.kr. Þessu fé er úthlutað úr sjóðnum til að stuðla að því að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun og stuðla að auknum útflutningi á íslenskri hönnun með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.
Það eru stór efnahagsleg tækifæri fólgin í því að styðja skipulega við skapandi greinar líkt og hönnun og arkitektúr. Nægir þar að líta til Danmerkur þar sem umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í hagkerfinu undanfarin ár. Má þar til að mynda nefna að tískuvarningur er fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur.
Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir sköpunarkrafti, fagmennsku og elju íslenska hönnunarsamfélagsins. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að efla íslenska hönnun og arkitektúr enn frekar, sem fag- og atvinnugrein, útflutningsgrein og mikilvæga aðferðafræði – sem mun á endanum leiða til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið. Ég þakka aðstandendunum HönnunarMars fyrir þeirra metnaðarfulla starf og undirbúning og óska öllum gestum hönnunarsamfélagsins hér á landi gleðilegrar hátíðar.