Hoppa yfir valmynd
20. maí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mikil tækifæri í gervigreind en ákall á umgjörð

Mikið vatn hef­ur runnið til sjáv­ar frá upp­hafi fyrstu iðnbylt­ing­ar­inn­ar sem hófst í Bretlandi um 1760. All­ar iðnbylt­ing­arn­ar fjór­ar eiga það sam­merkt að hafa ein­kennst af bylt­ing­ar­kennd­um tækninýj­ung­um sem höfðu mik­il áhrif á sam­fé­lög hvers tíma. Má þar til dæm­is nefna gufu­vél­ina, raf­magnið, sprengi­hreyf­il­inn, tölv­una og nú gervi­greind­ina. Sam­eig­in­leg­ur þráður þess­ara nýj­unga er auk­in hag­nýt­ing í at­vinnu­líf­inu sem skilaði sér í auk­inni skil­virkni, af­köst­um og fram­leiðni sem á end­an­um leiddi til bættra lífs­kjara. Sam­hliða hef­ur tækn­in leyst fleiri vinn­andi hend­ur og hófa af hólmi með þeim af­leiðing­um að jafn­vel heilu starfs­stétt­irn­ar hurfu af sjón­ar­sviðinu. Hag­fræðing­ur­inn Joseph Schum­peter lýsti þessu sem skap­andi eyðilegg­ingu. Iðnbylt­ing­arn­ar höfðu ekki aðeins áhrif á vinnu­markaðinn, held­ur hafa þeim einnig fylgt stór­tæk­ar sam­fé­lags­leg­ar breyt­ing­ar og fé­lags­legt umrót sem birt­ist til dæm­is í mikl­um fólks­flutn­ing­um frá sveit­um til borga, auk­inni stétta­skipt­ingu og breyt­ingu á eigna- og tekju­skipt­ingu. En hverju má eiga von á í kjöl­far fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar? Ný­verið hef­ur kast­ljósið beinst í aukn­um mæli að gervi­greind (e. artificial in­telli­gence) og þeim tæki­fær­um og áskor­un­um sem henni fylgja. Það sem ein­kenn­ir þróun sjálf­virkni­væðing­ar­inn­ar og gervi­greind­ar­inn­ar um­fram tækni­breyt­ing­ar fyrri iðnbylt­inga er sá mikli hraði sem þær þró­ast á.

Hvað er gervi­greind?

Hug­takið gervi­greind leit fyrst dags­ins ljós á ráðstefnu við Dart­mouth-há­skóla í Banda­ríkj­un­um sum­arið 1956 þegar þegar að fólk frá mis­mun­andi fræðasviðum kom sam­an til að ræða hugs­an­lega mögu­leika tölvuþekk­ing­ar. Í sinni ein­föld­ustu mynd er gervi­greind ein af grein­um tölv­un­ar­fræðinn­ar sem sam­ein­ar tölv­un­ar­fræði og gagna­söfn til að finna mynstur, draga álykt­an­ir og leysa vanda­mál. Um er ræða tækni sem ger­ir það að verk­um að vél­ar eru fær­ar um að vinna verk­efni sem alla jafna krefjast mann­legr­ar greind­ar. Þetta er eins og að kenna tölv­um að hugsa og læra á eig­in spýt­ur. Þróun gervi­greind­ar­inn­ar gekk nokkuð hægt fyr­ir sig fyrstu ára­tug­ina eft­ir Dart­mouth-ráðstefn­una en segja má að gervi­greind­in hafi stolið kast­ljósi heim­spress­unn­ar árið 1997 þegar of­ur­tölv­an Djúp­blá frá tækn­iris­an­um IBM sigraði Íslands­vin­inn og heims­meist­ar­ann Garry Kasparov í skák­ein­vígi. Á tutt­ug­ustu öld­inni má segja að þróun og fram­far­ir í gervi­greind hafi verið í veld­is­vexti, til að mynda í gervi­greind sem bygg­ist á svo­kölluðum tauga­net­um, sem eiga að end­ur­spegla hvernig manns­heil­inn starfar. Gervi­greind­in er mikið notuð við að finna mynstur og greina þróun í stór­um gagna­söfn­um, til dæm­is finna bestu leit­arniður­stöður, meta greiðslu­getu fólks, greina lík­ur á bil­un­um í vél­um og meta hvaða vör­ur og þjón­usta henta viðskipta­vin­um út frá hegðun þeirra. Þá þekkja marg­ir orðið þær stöll­ur Siri hjá Apple og Al­exu hjá Google sem við mann­fólkið nýt­um til þess að fá svör við ýms­um spurn­ing­um og ósk­um sem við bein­um til þeirra og hvernig þær vin­kon­ur læra af sam­tal­inu við okk­ur.

Tækni er þarf­ur þjónn en hættu­leg­ur hús­bóndi

Á und­an­förn­um mánuðum hef­ur umræða um gervi­greind náð nýj­um hæðum í kjöl­far þess að banda­ríska tæknifyr­ir­tækið Open AI (Opin gervi­greind) setti gervi­greind­ar-mállíkanið Chat­g­pt í loftið í nóv­em­ber sl. Um er að ræða mállík­an sem byggt er á gríðar­stór­um gagna­söfn­um sem nýt­ast til þess að rita vits­muna­leg­an texta um allt sem hug­ur­inn girn­ist að spyrja um og vita. Hug­búnaður­inn fékk gríðarlega góðar viðtök­ur hjá al­menn­ingi en um 100 millj­ón­ir manns notuðu hann á inn­an við tveim­ur mánuðum. Á þeim tíma hafa not­end­ur nýtt líkanið til að láta skrifa fyr­ir sig rit­gerðir og hjóna­vígsluræður, ljóð og tölvu­kóða, fjár­fest­ing­ar­ráðgjöf sem og að mála mál­verk svo eitt­hvað sé nefnt. Þessi miklu þátta­skil hafa hrundið af stað umræðu um þróun gervi­greind­ar­inn­ar og hvert hún stefni á þess­um mikla hraða með til­heyr­andi áhrif­um á sam­fé­lagið. Hef­ur þró­un­in meðal ann­ars valdið bæði von og ótta. Ótta um að tækn­inni fleygi svo hratt fram að ekki sé hægt að hafa stjórn á henni. End­ur­speglaðist þetta meðal ann­ars ný­verið í opnu bréfi frá alþjóðlegu stofn­un­inni Lífið í framtíðinni (e. Fut­ure of Life Institu­te), þar sem hvatt var til sex mánaða hlés í þróun full­komn­ustu gerða gervi­greind­ar. Var bréfið und­ir­ritað af ýms­um leiðtog­um í tækni­heim­in­um, þar á meðal Elon Musk. Í því var ýms­um siðferðis­leg­um álita­efn­um velt upp, þar á meðal hvort við eig­um á hættu að missa stjórn á siðmenn­ingu okk­ar, hvort ókjörn­um tækni­frömuðum eigi að vera fal­in jafn­mik­il völd og fel­ast í þróun á slík­um gervi­greind­ar­lík­un­um.

Áhættuþætt­ir og lausn­ir: Vinnu­markaður­inn, fals­frétt­ir og vél­væðing hug­ans

Það er nauðsyn­legt og eðli­legt að hafa áhyggj­ur af þróun tækni eins og þess­ar­ar. Það er hins veg­ar eng­um vafa und­ir­orpið að gervi­greind­in hef­ur nýst mann­fólk­inu til hægðar­auka. Þannig get­ur hún greint og unnið í gegn­um mikið magn af gögn­um hratt og ná­kvæm­lega, hjálpað okk­ur að tak­ast á við flók­in verk­efni eins og þýðingu á milli tungu­mála, opnað ýmsa nýja mögu­leika á sviði heil­brigðisþjón­ustu og hafa tals­menn vís­ind­anna fært rök fyr­ir því að gervi­greind­in geti leyst stór vanda­mál með þróun nýrra lyfja, hönn­un nýrra efna til að berj­ast gegn lofts­lags­breyt­ing­um og fleira. Hins veg­ar er ljóst að vinnu­markaður­inn mun taka mikl­um breyt­ing­um. Fjár­fest­inga­bank­inn Goldm­an Sachs spá­ir því að hag­vöxt­ur á heimsvísu muni aukast um 7% á 10 ára tíma­bili vegna auk­inn­ar fram­leiðni. Að sama skapi munu um 300 millj­ón­ir starfa verða sjálf­virkni­vædd. Ótt­inn við að vél­arn­ar steli störf­um er margra alda gam­all. Hingað til hef­ur ný tækni leitt af sér ný störf í stað þeirra sem hafa verið af­lögð. Það rím­ar meðal ann­ars við orð Sams Alt­mans, stofn­anda fyrr­nefnda tæknifyr­ir­tæk­is­ins Open AI, sem hann lét falla fyr­ir banda­rískri þing­nefnd í vik­unni. Íslensk stjórn­völd og at­vinnu­lífið þurfa að kort­leggja vel hvernig vinnu­markaður­inn muni breyt­ast og bjóða upp á mennt­un sem styður við þessa þróun. Ann­ar áhættuþátt­ur er aukið magn fals­frétta og upp­lýs­inga­óreiðu og áhrif þess á lýðræðis­leg­an fram­gang þjóðríkja. Þess­ar áhyggj­ur eru skilj­an­leg­ar og því mun reyna enn meir á gagn­rýna hugs­un. Mennta­kerfið okk­ar þarf að vera einkar öfl­ugt til að mæta þess­ari áskor­un og aldrei fyrr hef­ur reynt eins mikið á lesskiln­ing og álykt­un­ar­hæfni ungs fólks. Auk­in áhersla á þessa þætti náms mun vera lyk­il­atriði í því hvernig gervi­greind­in er nýtt. Mik­il­vægi rit­stýrða fjöl­miðla er einnig að aukast vegna þess­ar­ar þró­un­ar og því brýnt að fjöl­miðlastefna stjórn­valda nái fram að ganga á haustþingi. Að lok­um hef­ur því verið velt upp hvort gervi­greind­in sé hrein­lega að taka yfir og við séum kom­in í vís­inda­skáld­skap líkt og hef­ur birst okk­ur í sjón­varps­efni á borð við Mat­rix og Black Mirr­or.

Tækni er best þegar hún sam­ein­ar fólk

Sam Altman, stofn­andi og for­stjóri Open AI, lagði áherslu á mik­il­vægi þess að taka þyrfti yf­ir­vegaða umræðu um gervi­greind og reglu­setn­ingu henni tengda fyr­ir banda­rískri þing­nefnd nú í vik­unni. Þar er ég sam­mála hon­um enda eru ýmis álita­efni sem stjórn­völd um heim all­an þurfa að ávarpa í sam­ein­ingu og snúa meðal ann­ars að áhyggj­um af hlut­drægni, friðhelgi einka­lífs og hug­verka­rétt­ind­um. Gervi­greind­in verður meðal ann­ars eitt af aðal­fund­ar­efn­um á leiðtoga­fundi G7-ríkj­anna, helstu iðnríkja heims, sem fram fer um helg­ina og mun skipta máli um fram­haldið. Þar má bú­ast við ákalli um ein­hverja reglu­setn­ingu á gervi­greind, til dæm­is í lík­ingu við tak­mark­an­ir varðandi kjarn­orku­mál. Það ber þó að hafa í huga að erfitt verður að koma bönd­um á þróun á þessu sviði og ef Vest­ur­lönd setja tak­mark­an­ir hjá sér er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að aðrir og mis­vandaðir þjóðhöfðingj­ar sæki fram á þessu sviði enda eru litl­ar aðgangs­hindr­an­ir að tækn­inni.

For­skot fyr­ir ís­lensk­una

Íslensk stjórn­völd eru meðvituð um mik­il­vægi þess að huga að um­gjörð gervi­greind­ar í víðum skiln­ingi, sem birt­ist meðal ann­ars í stefnu Íslands um gervi­greind sem kynnt var árið 2021. Stefn­an er ekki síður mik­il­vægt inn­legg til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál en þar er meðal ann­ars fjallað um gervi­greind í allra þágu, siðferðis­leg­ar áskor­an­ir, sam­keppn­is­hæft at­vinnu­líf og mennt­un í takt við þarf­irn­ar. Ég tel mik­il­vægt að Ísland sé þátt­tak­andi og ger­andi í þróun tækn­inn­ar en það skipt­ir öllu máli fyr­ir ís­lenska hags­muni að svo sé. Með þetta í huga fór ég ásamt for­seta Íslands til Banda­ríkj­anna í fyrra til fund­ar við helstu tæknifyr­ir­tæki heims til þess að tala máli tungu­máls­ins okk­ar, ís­lensk­unn­ar, og vinna að því að hún yrði gerð gjald­geng í snjall­tækj­um. Afrakst­ur þeirr­ar ferðar hef­ur verið von­um fram­ar en fyrr á þessu ári til­kynnti ein­mitt Open AI að ís­lenska hefði verið val­in fyrst tungu­mála, utan ensku, í nýj­ustu út­gáfu af gervi­greind­ar-mállíkan­inu GPT-4. For­senda þess voru þeir tækni­legu innviðir sem ís­lensk stjórn­völd hafa fjár­fest í og smíðað á grund­velli mál­tækni­áætl­un­ar stjórn­valda, sem er einkar fram­sýn.

Það er al­veg ljóst í mín­um huga að þróun gervi­greind­ar­inn­ar og hvernig henni mun vinda fram er eitt stærsta verk­efni okk­ar kyn­slóða til að leysa á far­sæl­an hátt. Á þeirri veg­ferð er mik­il­vægt að hafa í huga að mann­kynið stjórni tækn­inni en ekki öf­ugt og að hún verði nýtt til þess að vinna sam­fé­lög­um gagn frem­ur en ógagn. Í því eru enda­laus tæki­færi fólg­in til að bæta lífs­kjör fólks í heim­in­um.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta