Mikil tækifæri í gervigreind en ákall á umgjörð
Hvað er gervigreind?
Hugtakið gervigreind leit fyrst dagsins ljós á ráðstefnu við Dartmouth-háskóla í Bandaríkjunum sumarið 1956 þegar þegar að fólk frá mismunandi fræðasviðum kom saman til að ræða hugsanlega möguleika tölvuþekkingar. Í sinni einföldustu mynd er gervigreind ein af greinum tölvunarfræðinnar sem sameinar tölvunarfræði og gagnasöfn til að finna mynstur, draga ályktanir og leysa vandamál. Um er ræða tækni sem gerir það að verkum að vélar eru færar um að vinna verkefni sem alla jafna krefjast mannlegrar greindar. Þetta er eins og að kenna tölvum að hugsa og læra á eigin spýtur. Þróun gervigreindarinnar gekk nokkuð hægt fyrir sig fyrstu áratugina eftir Dartmouth-ráðstefnuna en segja má að gervigreindin hafi stolið kastljósi heimspressunnar árið 1997 þegar ofurtölvan Djúpblá frá tæknirisanum IBM sigraði Íslandsvininn og heimsmeistarann Garry Kasparov í skákeinvígi. Á tuttugustu öldinni má segja að þróun og framfarir í gervigreind hafi verið í veldisvexti, til að mynda í gervigreind sem byggist á svokölluðum tauganetum, sem eiga að endurspegla hvernig mannsheilinn starfar. Gervigreindin er mikið notuð við að finna mynstur og greina þróun í stórum gagnasöfnum, til dæmis finna bestu leitarniðurstöður, meta greiðslugetu fólks, greina líkur á bilunum í vélum og meta hvaða vörur og þjónusta henta viðskiptavinum út frá hegðun þeirra. Þá þekkja margir orðið þær stöllur Siri hjá Apple og Alexu hjá Google sem við mannfólkið nýtum til þess að fá svör við ýmsum spurningum og óskum sem við beinum til þeirra og hvernig þær vinkonur læra af samtalinu við okkur.Tækni er þarfur þjónn en hættulegur húsbóndi
Á undanförnum mánuðum hefur umræða um gervigreind náð nýjum hæðum í kjölfar þess að bandaríska tæknifyrirtækið Open AI (Opin gervigreind) setti gervigreindar-mállíkanið Chatgpt í loftið í nóvember sl. Um er að ræða mállíkan sem byggt er á gríðarstórum gagnasöfnum sem nýtast til þess að rita vitsmunalegan texta um allt sem hugurinn girnist að spyrja um og vita. Hugbúnaðurinn fékk gríðarlega góðar viðtökur hjá almenningi en um 100 milljónir manns notuðu hann á innan við tveimur mánuðum. Á þeim tíma hafa notendur nýtt líkanið til að láta skrifa fyrir sig ritgerðir og hjónavígsluræður, ljóð og tölvukóða, fjárfestingarráðgjöf sem og að mála málverk svo eitthvað sé nefnt. Þessi miklu þáttaskil hafa hrundið af stað umræðu um þróun gervigreindarinnar og hvert hún stefni á þessum mikla hraða með tilheyrandi áhrifum á samfélagið. Hefur þróunin meðal annars valdið bæði von og ótta. Ótta um að tækninni fleygi svo hratt fram að ekki sé hægt að hafa stjórn á henni. Endurspeglaðist þetta meðal annars nýverið í opnu bréfi frá alþjóðlegu stofnuninni Lífið í framtíðinni (e. Future of Life Institute), þar sem hvatt var til sex mánaða hlés í þróun fullkomnustu gerða gervigreindar. Var bréfið undirritað af ýmsum leiðtogum í tækniheiminum, þar á meðal Elon Musk. Í því var ýmsum siðferðislegum álitaefnum velt upp, þar á meðal hvort við eigum á hættu að missa stjórn á siðmenningu okkar, hvort ókjörnum tæknifrömuðum eigi að vera falin jafnmikil völd og felast í þróun á slíkum gervigreindarlíkunum.Áhættuþættir og lausnir: Vinnumarkaðurinn, falsfréttir og vélvæðing hugans
Það er nauðsynlegt og eðlilegt að hafa áhyggjur af þróun tækni eins og þessarar. Það er hins vegar engum vafa undirorpið að gervigreindin hefur nýst mannfólkinu til hægðarauka. Þannig getur hún greint og unnið í gegnum mikið magn af gögnum hratt og nákvæmlega, hjálpað okkur að takast á við flókin verkefni eins og þýðingu á milli tungumála, opnað ýmsa nýja möguleika á sviði heilbrigðisþjónustu og hafa talsmenn vísindanna fært rök fyrir því að gervigreindin geti leyst stór vandamál með þróun nýrra lyfja, hönnun nýrra efna til að berjast gegn loftslagsbreytingum og fleira. Hins vegar er ljóst að vinnumarkaðurinn mun taka miklum breytingum. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs spáir því að hagvöxtur á heimsvísu muni aukast um 7% á 10 ára tímabili vegna aukinnar framleiðni. Að sama skapi munu um 300 milljónir starfa verða sjálfvirknivædd. Óttinn við að vélarnar steli störfum er margra alda gamall. Hingað til hefur ný tækni leitt af sér ný störf í stað þeirra sem hafa verið aflögð. Það rímar meðal annars við orð Sams Altmans, stofnanda fyrrnefnda tæknifyrirtækisins Open AI, sem hann lét falla fyrir bandarískri þingnefnd í vikunni. Íslensk stjórnvöld og atvinnulífið þurfa að kortleggja vel hvernig vinnumarkaðurinn muni breytast og bjóða upp á menntun sem styður við þessa þróun. Annar áhættuþáttur er aukið magn falsfrétta og upplýsingaóreiðu og áhrif þess á lýðræðislegan framgang þjóðríkja. Þessar áhyggjur eru skiljanlegar og því mun reyna enn meir á gagnrýna hugsun. Menntakerfið okkar þarf að vera einkar öflugt til að mæta þessari áskorun og aldrei fyrr hefur reynt eins mikið á lesskilning og ályktunarhæfni ungs fólks. Aukin áhersla á þessa þætti náms mun vera lykilatriði í því hvernig gervigreindin er nýtt. Mikilvægi ritstýrða fjölmiðla er einnig að aukast vegna þessarar þróunar og því brýnt að fjölmiðlastefna stjórnvalda nái fram að ganga á haustþingi. Að lokum hefur því verið velt upp hvort gervigreindin sé hreinlega að taka yfir og við séum komin í vísindaskáldskap líkt og hefur birst okkur í sjónvarpsefni á borð við Matrix og Black Mirror.Tækni er best þegar hún sameinar fólk
Sam Altman, stofnandi og forstjóri Open AI, lagði áherslu á mikilvægi þess að taka þyrfti yfirvegaða umræðu um gervigreind og reglusetningu henni tengda fyrir bandarískri þingnefnd nú í vikunni. Þar er ég sammála honum enda eru ýmis álitaefni sem stjórnvöld um heim allan þurfa að ávarpa í sameiningu og snúa meðal annars að áhyggjum af hlutdrægni, friðhelgi einkalífs og hugverkaréttindum. Gervigreindin verður meðal annars eitt af aðalfundarefnum á leiðtogafundi G7-ríkjanna, helstu iðnríkja heims, sem fram fer um helgina og mun skipta máli um framhaldið. Þar má búast við ákalli um einhverja reglusetningu á gervigreind, til dæmis í líkingu við takmarkanir varðandi kjarnorkumál. Það ber þó að hafa í huga að erfitt verður að koma böndum á þróun á þessu sviði og ef Vesturlönd setja takmarkanir hjá sér er ekkert því til fyrirstöðu að aðrir og misvandaðir þjóðhöfðingjar sæki fram á þessu sviði enda eru litlar aðgangshindranir að tækninni.Forskot fyrir íslenskuna
Íslensk stjórnvöld eru meðvituð um mikilvægi þess að huga að umgjörð gervigreindar í víðum skilningi, sem birtist meðal annars í stefnu Íslands um gervigreind sem kynnt var árið 2021. Stefnan er ekki síður mikilvægt innlegg til að stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál en þar er meðal annars fjallað um gervigreind í allra þágu, siðferðislegar áskoranir, samkeppnishæft atvinnulíf og menntun í takt við þarfirnar. Ég tel mikilvægt að Ísland sé þátttakandi og gerandi í þróun tækninnar en það skiptir öllu máli fyrir íslenska hagsmuni að svo sé. Með þetta í huga fór ég ásamt forseta Íslands til Bandaríkjanna í fyrra til fundar við helstu tæknifyrirtæki heims til þess að tala máli tungumálsins okkar, íslenskunnar, og vinna að því að hún yrði gerð gjaldgeng í snjalltækjum. Afrakstur þeirrar ferðar hefur verið vonum framar en fyrr á þessu ári tilkynnti einmitt Open AI að íslenska hefði verið valin fyrst tungumála, utan ensku, í nýjustu útgáfu af gervigreindar-mállíkaninu GPT-4. Forsenda þess voru þeir tæknilegu innviðir sem íslensk stjórnvöld hafa fjárfest í og smíðað á grundvelli máltækniáætlunar stjórnvalda, sem er einkar framsýn.
Það er alveg ljóst í mínum huga að þróun gervigreindarinnar og hvernig henni mun vinda fram er eitt stærsta verkefni okkar kynslóða til að leysa á farsælan hátt. Á þeirri vegferð er mikilvægt að hafa í huga að mannkynið stjórni tækninni en ekki öfugt og að hún verði nýtt til þess að vinna samfélögum gagn fremur en ógagn. Í því eru endalaus tækifæri fólgin til að bæta lífskjör fólks í heiminum.