126 milljarða tekjur í menningu
Með myndlistarstefnunni er sett framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning, að stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt, að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein og að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Lagðar eru til markvissar aðgerðir til að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist.
Ný tónlistarstefna og heildarlöggjöf um tónlist er af sama meiði; að efla umgjörð tónlistarlífsins á Íslandi. Með lögunum hillir undir nýja Tónlistarmiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna uppbyggingu og stuðningi við hvers konar tónlistarstarfsemi sem og útflutningsverkefni allra tónlistargreina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skráningu, umsýslu og miðlun íslenskra tónverka. Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan. Nýr og stærri Tónlistarsjóður verður einnig að veruleika. Mun hann sameina þrjá sjóði sem fyrir eru á sviði tónlistar. Lykilhlutverk hans verður að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í tónlistariðnaði. Með tilkomu sjóðsins verður styrkjaumhverfi tónlistar einfaldað til muna og skilvirkni og slagkraftur aukin verulega!
Í lögunum er sömuleiðis að finna ákvæði um sérstakt tónlistarráð sem verður stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni tónlistar. Tónlistarráði er ætlað að vera öflugur samráðsvettvangur milli stjórnvalda, Tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans enda felst í því mikill styrkur að ólík og fjölbreytt sjónarmið komi fram við alla stefnumótunarvinnu á sviði tónlistar.
Ofangreint mun skipta miklu máli til að styðja enn frekar við menningu og skapandi greinar á landinu og styðja vöxt þeirra sem atvinnugreina. Til marks um umfang þeirra þá birti Hagstofan nýverið uppfærða Menningarvísa í annað sinn. Samkvæmt þeim voru rekstrartekjur í menningu og skapandi greinum rúmlega 126 milljarðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 einstaklingar á aldrinum 16-74 við menningu, eða um 7,3% af heildarfjölda starfandi, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar.
Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja undirstöður þessara greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraftmikla hópi fólks úr grasrótinni sem kom að fyrrnefndri stefnumótun, framlag þess skipti verulegu máli.