Hoppa yfir valmynd
10. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skýr skilaboð í ríkisfjármálum

Al­var­leg­ur heims­far­ald­ur er að baki, en hag­kerfið á Íslandi náði að rétta út kútn­um á skemmri tíma en nokk­ur þorði að vona og það er áfram góður gang­ur í efna­hags­kerf­inu. Hér er mik­ill hag­vöxt­ur og hátt at­vinnu­stig, en hins veg­ar lædd­ist inn óvel­kom­inn gest­ur í formi verðbólgu. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná tök­um á henni. Þetta er verk­efni núm­er eitt, tvö og þrjú. Mestu máli skipt­ir fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar að verðbólg­an lækki.

Sögu­lega skaðleg áhrif verðbólgu

Áhrif mik­ill­ar verðbólgu eru nei­kvæð, kaup­mátt­ur launa dvín­ar og verðskyn dofn­ar. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita langt aft­ur í tím­ann til að rifja upp af­leiðing­ar þess að þjóðfé­lagið missti tök á verðbólg­unni. Fyr­ir fjöru­tíu árum mæld­ist verðbólga á 12 mánaða tíma­bili um 100% með til­heyr­andi geng­is­fell­ing­um og óróa í sam­fé­lag­inu. Tveim­ur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjald­miðils­skipti þar sem verðgildi krón­unn­ar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sög­unn­ar. Á þess­um tíma horfði al­menn­ing­ur upp á virði þess­ar­ar nýju mynt­ar hverfa hratt. Ég get full­yrt að eng­inn sem man þá tíma vill hverfa þangað aft­ur. Sama ástand er ekki upp á ten­ingn­um núna, en við verðum hins veg­ar að taka á verðbólgu­vænt­ing­um til að vernda heim­il­in. Verðbólg­an mæld­ist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sann­færð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórn­valda muni draga úr verðbólg­unni. Pen­inga­mál­in og fjár­mál hins op­in­bera eru far­in að vinna bet­ur sam­an. Það styður einnig við þessi mark­mið að rík­is­fjár­mál­in eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálf­virkri sveiflu­jöfn­un og grípa þenn­an mikla hag­vöxt eins og sjá má í aukn­um tekj­um rík­is­sjóðs og vinna þannig á móti hagsveifl­unni og styðja við bar­átt­una við verðbólg­una. Útflutn­ings­at­vinnu­veg­irn­ir hafa staðið sig vel og krón­an hef­ur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu er­lend­is ætti að nást jafn­vægi og við get­um smám sam­an kvatt þenn­an óvel­komna gest.

Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar styðja við lækk­un verðbólgu

Eitt helsta mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að auka vel­sæld og ná tök­um á verðbólg­unni. Þess vegna hef­ur verið lagt fram frum­varp þar sem lagt er til að lög­um verði breytt þannig að laun þjóðkjör­inna full­trúa og æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu emb­ætt­is­manna skapi ekki auk­inn verðbólguþrýst­ing, enda miðar breyt­ing­in við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans. Þessi aðgerð er mjög mik­il­væg til að vinna gegn háum verðbólgu­vænt­ing­um. Til að treysta enn frek­ar sjálf­bær­ar verðbólgu­vænt­ing­ar hef­ur verið ákveðið að flýta gildis­töku fjár­mála­regl­unn­ar, sem þýðir að há­mark skulda rík­is­sjóðs get­ur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera já­kvæður heild­ar­jöfnuður á hverju fimm ára tíma­bili. Skuld­astaða rík­is­sjóðs Íslands hef­ur verið að þró­ast í rétta átt, skuld­ir rík­is­sjóðs eru ekki mikl­ar í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir og er það mik­il­vægt fyr­ir láns­hæfið að svo verði áfram.

Auk þessa er verið að bæta af­komu rík­is­sjóðs um 36,2 millj­arða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri rík­is­ins, þar með talið niður­skurði í ferðakostnaði, frest­un fram­kvæmda, nýj­um tekj­um og með því að draga úr þenslu­hvetj­andi skattaí­viln­un­um. Tekj­ur rík­is­sjóðs eru einnig rúm­lega 90 millj­örðum meiri en fyrri áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Vegna þessa tekju­auka er aðhalds­stigið að aukast. Í þessu felst meðal ann­ars að fram­kvæmd­um fyr­ir um 3,6 millj­arða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sök­um skaðlegra áhrifa mik­ill­ar verðbólgu á okk­ar viðkvæm­ustu hópa ákvað rík­is­stjórn­in að verja kaup­mátt ör­orku- og elli­líf­eyr­isþega og því hef­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga verið hækkaður um tæp 10% frá upp­hafi árs. Einnig hef­ur frí­tekju­mark hús­næðis­bóta leigj­enda verið hækkað um 10%. Þess­ar aðgerðir eru afar mik­il­væg­ar til að verja kaup­mátt þeirra sem standa verst.

Mik­il­vægi rík­is­fjár­mála í vænt­inga­stjórn­un

Eitt það markverðasta sem fram hef­ur komið á vett­vangi hag­fræðinn­ar á þessu ári er bók hag­fræðings­ins Johns F. Cochra­nes, en í ný­út­gef­inni bók sinni Rík­is­fjár­mála­kenn­ing­in og verðlag (e. Fiscal Theory and the Price Level) bein­ir hann spjót­um sín­um að verðbólgu­vænt­ing­um á sviði rík­is­fjár­mála. Kjarni rík­is­fjár­mála­kenn­ing­ar­inn­ar er að verðlag ráðist af stefnu stjórn­valda í op­in­ber­um fjár­mál­um. Sam­kvæmt þess­ari kenn­ingu hef­ur rík­is­fjár­mála­stefna, þar með talið út­gjalda- og skatta­stefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á rík­is­rekstri ætti að leiða til lægra raun­vaxta­stigs sem ætti síðan að ýta und­ir meiri fjár­fest­ing­ar. Þar með verða til aukn­ar fjár­magn­s­tekj­ur, sem mynd­ast við meiri fjár­fest­ingu, sem er ein helsta upp­spretta fram­leiðni vinnu­afls. Þetta skap­ar svo grunn­inn að hærri raun­laun­um og þannig má segja að minni fjár­laga­halli sé óbein leið til að auka raun­laun og bæta lífs­kjör. Staðreynd­in er sú að ef rík­is­sjóður er rek­inn með halla, þá þarf hann að fjár­magna þann halla með út­gáfu nýrra skulda­bréfa. Þannig eykst fram­boð rík­is­skulda­bréfa á markaði, sem aft­ur lækk­ar verð þeirra og leiðir til þess að vext­ir hækka. Eitt skýr­asta dæmið um að til­tekt í rík­is­fjár­mál­um og trú­verðug stefna hafi skilað vaxta­lækk­un var að finna í for­setatíð Bills Cl­int­ons, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í rík­is­fjár­mál­um und­an­farna mánuði vinna ein­mitt að því að styðja við lækk­un vaxta og hef­ur ávöxt­un rík­is­skulda­bréfa verið á niður­leið.

Fram­boðshlið hag­kerf­is­ins

Ég hef áður ritað um að meira þurfi að gera á fram­boðshliðinni í hag­kerf­inu til að koma til móts við eft­ir­spurn­ina til að milda högg aðhaldsaðgerða og leysa úr læðingi krafta í hag­kerf­inu. Það má gera með aðgerðum í hús­næðismál­um og aðgerðum á at­vinnu­markaðnum, t.d. gera auðveldra að fá sér­fræðinga til lands­ins og með því að hækka ald­ur þeirra sem vilja vinna. Það má einnig liðka til frek­ar í al­manna­trygg­inga­kerf­inu til að fá fólk frek­ar út á at­vinnu­markaðinn, en rík­is­stjórn­in hef­ur verið að fram­kvæma ým­is­legt í þessa veru á und­an­förn­um mánuðum.

Já­kvæð teikn á lofti í bar­átt­unni gegn verðbólgu

Hag­vöxt­ur árið 2022 mæld­ist 6,4% og hef­ur ekki verið meiri en síðan 2007 og Seðlabank­inn spá­ir nærri 5% hag­vexti á þessu ári. Þessi mik­il þrótt­ur í hag­kerf­inu er já­kvæður en verðbólg­an er enn of há. Hag­vöxt­ur­inn var knú­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar en hún óx á síðasta ári um 8,6%. Allt bend­ir til þess að það hæg­ist á vexti einka­neyslu, meðal ann­ars vegna versn­andi aðgeng­is heim­ila og fyr­ir­tækja að láns­fé. Teikn eru á lofti um að það sé að raun­ger­ast, þar sem einka­neysla jókst hóf­lega á fyrsta árs­fjórðungi eða um 2,5%. Að sama skapi hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist sam­an um 14%. Að lok­um má nefna að korta­velta hef­ur dreg­ist sam­an að raun­v­irði og er það í fyrsta sinn í lang­an tíma. Það er jafn­framt mik­il­vægt að halda því til haga að gengi krón­unn­ar hef­ur verið stöðugt og held­ur að styrkj­ast. Það er meðal ann­ars vegna öfl­ugra út­flutn­ings­greina og ekki síst vegna ferðaþjón­ust­unn­ar. Af þeim sök­um ætti hjöðnun verðbólgu á er­lend­um mörkuðum að skila sér beint inn í ís­lenska hag­kerfið. Mik­il­vægt er að all­ir taki hönd­um sam­an um að svo verði.

Loka­orð

Verðbólg­an er mesti vand­inn sem stjórn­völd standa frammi fyr­ir og mik­il­vægt er að ná niður verðbólgu­vænt­ing­um. Ólíkt því sem áður gerðist er Ísland hins veg­ar ekki ey­land þegar kem­ur að verðbólgu um þess­ar mund­ir. Verðbólg­an í Evr­ópu er á bil­inu 3-24%, en það eru ákveðin merki um að verðbólga fari hjaðnandi er­lend­is þótt langt sé í að ástandið verði aft­ur ásætt­an­legt. Það sem skil­ur Ísland frá öðrum þróaðri hag­kerf­um er þessi mikli þrótt­ur sem er í hag­kerf­inu og ger­ir hann hag­stjórn að sumu leyti flókn­ari. Rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn hafa tekið hönd­um sam­an um að taka á þess­um vanda með þeim tækj­um sem þau ráða yfir. Einn liður í því að er vext­ir end­ur­spegli verðbólg­una. Það er ljóst að Seðlabanki Íslands hef­ur farið mjög bratt í hækk­un vaxta og var m.a. fyrsti bank­inn til að hækka vexti á Vest­ur­lönd­um. Það má færa rök fyr­ir því að seðlabank­ar beggja vegna Atlantsála hafi haldið vöxt­um of lág­um of lengi. Christ­ine Lag­ar­de lýsti því yfir við síðustu vaxta­hækk­un hjá ECB að bank­inn væri hvergi nærri hætt­ur vaxta­hækk­un­um. Í Banda­ríkj­un­um hafa vext­ir náð verðbólg­unni. Hér er það sama að ger­ast og eru vext­ir Seðlabank­ans mjög nærri verðbólg­unni. Með því hef­ur ákveðnum tíma­mót­um verið náð. Það er sann­fær­ing mín að aðgerðir í rík­is­fjár­mál­um muni leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar í bar­átt­unni við verðbólg­una.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta