Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar
Stjórnvöld hafa sett málefni íslenskrar tungu á oddinn á undanförnum árum með margháttuðum aðgerðum. Það að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er verkefni sem þarf að sinna af kostgæfni og atorku. Í vikunni var ný aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sett í Samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og umsagnar.
Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta, en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda árin 2023-2026 þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins. Hefur meðal annars verið unnið að þeim á vettvangi ráðherranefndar um íslenska tungu sem sett var á laggirnar í nóvember 2022 að tillögu forsætisráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast.
Hin nýja aðgerðaáætlun kallast á við áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem lögð er rík áhersla á að styðja við íslenska tungu. Börn og ungmenni skipa sérstakan sess og stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.
Ýmsar lykilaðgerðir í áætluninni undirstrika þetta en þær eru meðal annars: starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu, aukin gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur, innleiðing rafrænna stöðuprófa í íslensku, sameiginlegt fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli og íslenska handa öllum.
Nýmæli eru að gerðar verði kröfur um að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og hvatar til þess efldir. Ásamt því verður íslenskuhæfni starfsfólks í leik- og grunnskólum og frístundastarfi efld. Að sama skapi verður gerð íslenskuvefgátt fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig, samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með sérstakri áherslu á íslensku sem annað mál, og reglulegar mælingar á viðhorfi til tungumálsins.
Við þurfum mikla viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar. Íslenskan er fjöregg okkar og andleg eign. Tungumálið er ríkur þáttur í sjálfsmynd okkar, tjáningu og söguskilningi. Með nýrri aðgerðaáætlun skerpum við á forgangsröðun í þágu íslenskrar tungu. Ég hvet alla til þess að kynna sér málið í samráðsgáttinni.