Hoppa yfir valmynd
21. júní 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Björg í bú

Það munar um ferðaþjónustuna. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2022 nemur 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna og er áætlað að rúmlega 18 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu í fyrra. Það gefur augaleið að fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa öflugar útflutningsstoðir eins og ferðaþjónustuna. Eftir mikinn samdrátt er ferðaþjónustan aftur orðin sú atvinnugrein sem skapar mestan erlendan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Síðustu fjóra ársfjórðunga skilaði greinin 411 milljörðum króna í útflutningstekjur eða tæpum fjórðungi heildarútflutningstekna þjóðarbúsins. Það gerir greinina að stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins.

Ferðaþjónustan er ein árangursríkasta byggðaaðgerð Íslandssögunnar sjálfsprottin atvinnuuppbygging um allt land. Á árunum 2009-2019 skapaði ferðaþjónusta að jafnaði 500 ný störf á ári á landsbyggðinni. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi þróun tapist ekki. Ferðaþjónustan hefur einnig átt stóran þátt í að auka lífsgæði okkar með ríkulegra mannlífi, nýstárlegu framboði af afþreyingu og góðum mat og gefið Íslendingum tækifæri til að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tekin. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylgir ferðaþjónustunni hefur einnig aukið skilning landsmanna á eigin landi – og varpað ljósi á hversu sérstakt það er fyrir margra hluta sakir. Það er ánægjulegt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim náttúru okkar, sögu og menningu. Það er mikilvægt að ferðaþjónustan fái svigrúm og tækifæri til að vaxa enn frekar en markmiðið er sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu til lengri tíma í sátt við náttúruna og menn, sem áframhaldandi lykilstoð í okkar efnahagslífi. Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar hefur fyrirkomulag gjaldtöku í greininni verið skoðað með það að markmiði breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði, meðal annars fyrirkomulag gistináttagjalds í samvinnu við ferðaþjónustuna og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.

Ýmsir í samfélaginu hafa talið að allt það sem ferðaþjónustan leggur til samfélagslegrar uppbyggingar sé ekki umtalsvert og líta svo á að vasar atvinnugreinarinnar séu óþrjótandi. Þeir hinir sömu eru jafnvel tilbúnir að stíga skref sem ógna samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og átta sig ekki á hinni þjóðhagslegu heildarmynd. Það er útilokað í mínum huga að samþykkja tillögur um aukna gjaldheimtu eins og OECD leggur til í nýrri skýrslu, séu þær þess eðlis að þær stefni í hættu samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta