Skarpleikur hugsunar
Á Íslandi eru hátt í 50 viðurkennd söfn starfrækt, að sýningum frátöldum sem skipta mörgum tugum. Í ár höfum við verið minnt á það hversu samgróin safnamenning er íslensku þjóðinni, en fyrr á árinu var haldið upp á 160 ára afmæli Þjóðminjasafns Íslands en safnið telst stofnað 24. febrúar 1863 og hefur í fyllingu tímans vaxið með þjóðinni og tekið breytingum. Þjóðminjasafnið gegnir lykilhlutverki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar, með því að annast söfnun, skrásetningu, varðveislu og rannsóknir á menningararfi þjóðarinnar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önnur minjasöfn.
Um liðna helgi náði annað safn merkisáfanga, þegar Listasafn Einars Jónssonar fagnaði því að 100 ár voru frá opnun þess, en það var fyrsta listasafnið sem opnað var almenningi hér á landi. Allar götur síðan hefur það sett mark sitt á borgarbraginn og hleypt gestum inn í undraveröld Einars.
Söfn eru minni þjóða þar sem nútíminn getur speglað sig í fortíðinni og stuðlað þannig að fræðslu, skilningi og vitund um menningar- og náttúruarfinn. Þannig leggja söfn sitt af mörkum til samfélagslegrar umræðu en sterk tengsl safna, safnkosts of samfélags fela í sér drifkraft og verðmætasköpun. Það er mikilvægt að tryggja gott aðgengi fólks að söfnum og stuðla að því að miðla sögunni til komandi kynslóða með skilmerkilegum hætti. Á þetta er meðal annars lögð áhersla í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar þar sem fram kemur að aðgengi að menningu óháð búsetu sé lykilatriði og undirstrikað að hlutverk stjórnvalda sé að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs.
Sem mikilvægir innviðir hafa söfn einnig stutt við ferðaþjónustuna og aukið þá afþreyingu sem er í boði fyrir alla þá erlendu gesti sem heimsækja landið okkar – og miðlað þannig sögu okkar og menningu út fyrir landsteinana. Það skiptir máli fyrir okkur sem þjóð.
Stjórnvöld eru staðráðin í að halda áfram að stuðla að sterkari umgjörð safnastarfs í landinu, meðal annars með því að fylgja eftir stefnumörkun um safnastarf.
Ég hvet landsmenn til að kíkja við á söfnunum okkar í sumar og njóta þannig þeirrar merkilegu menningar sem þau hafa að geyma.