Íslenskt hugvit um allan heim
Lækningavörur félagsins, sem eru unnar úr íslensku fiskroði vestur á Ísafirði, eru seldar út um allan heim og notaðar til að meðhöndla margs konar vefjaskaða, s.s. þrálát sár, brunasár og til margs konar uppbyggingar á líkamsvefjum. Eftirspurn eftir þessu íslenska hugviti hefur vaxið ört samhliða auknum umsvifum félagsins, en til að mynda eru vörur og tækni fyrirtækisins notaðar af mörgum stærstu spítölum Bandaríkjanna og við bandarískar varnarmálastofnanir.
Ég hef skynjað vel þann sköpunarkraft sem býr í fyrirtækinu í heimsóknum mínum í starfsstöð þess á Ísafirði, og fundið það stolt sem býr í Ísfirðingum vegna þess. Nýverið flutti ég erindi á ráðstefnu fyrirtækisins þar sem var farið yfir þann árangur sem náðst hefur um allan heim með notkun á fiskiroði til lækninga. Sumt af því sem var sýnt er ekki fyrir viðkvæmt fólk eins og mig. Þrátt fyrir það voru þetta þó í raun einar fallegustu myndir sem maður sér, þar sem árangurinn fyrir þá sjúklinga sem hlotið hafa meðhöndlun er vægast sagt stórkostlegur, hvort sem um er að ræða brunasár eða alvarlega sykursýki – allt vegna íslensks hugvits og náttúruafurða.
Það gefur augaleið að árangur sem þessi skiptir lítil og opin hagkerfi eins og okkar miklu máli. Með nýsköpun að vopni hefur fjölbreytni atvinnulífsins aukist og samsetning útflutningstekna okkar breyst og skotið styrkari stoðum undir efnahagslíf landsins. Þessi þróun er vel sýnileg í nýtingu sjávarfangs á Íslandi, en aukaafurðir fiska, líkt og haus, roð og bein, voru að mestu ónýttar hér á árum áður en í dag er þeim umbreytt í verðmætar afurðir líkt og lækningavörur Kerecis.
Það þarf að halda áfram að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun og styðja og hvetja til nýsköpunar í atvinnulífinu, skapa fleiri vel borgandi og áhugaverð störf og tryggja að búsetuskilyrði hér á landi séu samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Ísland hefur náð eftirtektarverðum árangri á ýmsum sviðum og á þeirri braut viljum við halda áfram. Ég óska Guðmundi og hans fólki í Kerecis til hamingju með glæsilegan árangur og óska þeim áframhaldandi velfarnaðar á komandi árum.