Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Frá ferðaritum fortíðar til framtíðar

Það eru ófrýnilegar lýsingar sem ýmsar gamlar ferðaheimildir útlendinga um Ísland höfðu að geyma um reynslu þeirra af landi og þjóð hér fyrr á öldum, sem voru ekki til þess fallnar að kveikja áhuga á Íslandsferðum. Þannig fjallaði þýski kaupmaðurinn Gories Peerse um í rituðum heimildum frá 16. öld að hér sé veðralag ekki upp á marga fiska, bændur töldu Heklu vera innganginn að helvíti sem stanslaus strókur standi upp úr og að jarðskjálftar og eldgos valdi hér hamförum. Þá gaf hann vistarverum grálúsugra landsmanna ekki háa einkunn, sem hann sagði vera að hluta til neðanjarðar.

Það hefur ekki verið til að auka ferðaviljann til Íslands þegar bókin Islandia kom út í Hollandi árið 1607 eftir mann að nafni Ditmar Blefken. Í bókinni greinir hann frá meintri Íslandsferð sinni árið 1563 þar sem lýsingum svipar mjög til þeirra sem Peerse dró upp af landi og þjóð. Bók Blefken var gefin út margsinnis og á hinum ýmsu tungumálum og var ítrekað vísað til hennar allt fram á 18. öld. Má því ætla að hún hafi verið undirstaða vitneskju útlendinga um landið um langa hríð.

Það er áhugavert að renna í gegnum gamlar frásagnir sem þessar. Að sama skapi er hægt að fullyrða að frá því þær voru ritaðar, og fleiri til, hafi vitund umheimsins um Ísland breyst mikið og aðdráttarafl landsins aukist til muna eins og við þekkjum í dag. Á undanförnum rúmum tíu árum hafa átt sér stað straumhvörf á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins, þökk sé sterkri ferðaþjónustu. Það skiptir lítið opið hagkerfi, sem á allt sitt undir styrkum útflutningsstoðum, miklu máli. Umgjörð ferðaþjónustu hefur tekið miklum breytingum en í dag er ferðaþjónusta stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarbúsins. Þannig nam hlutur hennar í landsframleiðslu ársins 2022 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna. Það rann nokkuð snemma upp fyrir fólki hvaða virði gæti verið fólgið í því að fá hingað til lands erlenda gesti sem keyptu vörur og þjónustu. Til dæmis þegar skipið Grosse Kurfürst kom hingað til lands árið 1908 er talið að farþegar þess hafi eytt um 910 þúsundum krónum sem þá var nálægt þriðjungi af tekjum landssjóðs það ár.

Eitt helsta forgangsverkefnið hjá nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Sjö starfshópar, sem hver og einn er skipaður 6-8 sérfróðum aðilum, skila lokatillögum fyrir 15. desember næstkomandi. Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Mikið vatn hefur runnið til sjávar, við ætlum okkur að búa ferðaþjónustunni sterka umgjörð til framtíðar, í þágu okkar allra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta