Fastir liðir í tilverunni
Bæjarhátíðir eru af öllum stærðum og gerðum og má segja að þær séu eitt af bakbeinum íslenskrar menningar, enda eru þær hinn fullkomni vettvangur fyrir unga jafnt sem aldna til að njóta okkar hæfileikaríka listafólks sem ferðast um landið til þess að stíga á stokk. Hvort sem þema hátíðarinnar kunni að vera franskt, danskt, írskt eða heiti hennar kennt við kótelettur, trillur, töðugjöld eða þjóðhátíð, þá geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Tónlistarfólk, leikhópar, uppistandarar, myndlistafólk, hagyrðingar og fjölmargt annað hæfileikafólk kemur fram á viðburðum sem þessum til þess að gleðja okkur hin.
Bæjarhátíðir eru birtingarmynd samvinnu og samkenndar, þar sem íbúar taka höndum saman í sjálfboðastarfi til þess að láta þær raungerast. Allt það fólk sem tekur þátt með óeigingjörnu vinnuframlagi við að skipuleggja og standa að bæjarhátíðum á mikið hrós skilið. Það er ómetanlegt að skapa vettvanga sem þessa þar sem heimamenn, brottfluttir og aðrir gestir geta komið saman til þess að eiga eftirminnilegar stundir á fallegum íslenskum sumardögum.
Það er mikilvægt fyrir hvert einasta samfélag að huga að menningarmálum með þessum hætti. Íslensk menning er rík og rótgróin og hefur lagt sitt af mörkum til menningarsögu heimsins um aldabil. Með hverju árinu sem líður hjá mér í embætti menningarmálaráðherra verður það augljósara; þessi fámenna þjóð á ótrúlega mikið af hæfileikaríku listafólki á heimsmælikvarða. Slíkt gerist ekki að sjálfu sér, það skiptir miklu máli að skapa menningarlífinu í landinu hagfelld skilyrði til vaxtar. Sú vegferð hefst strax í skólakerfinu með því að tryggja nægjanlegt framboð af listnámi sem og jafnan aðgang að því.
Á undanförnum árum hafa einnig verið stigin stór skref í að sækja fram fyrir íslenska menningu með raunverulegum aðgerðum til skapa henni sterkari umgjörð. Unnið hefur verið eftir nýjum tímamótastefnum í bókmenntum, kvikmyndum, tónlist, myndlist og hönnun og arkitektúr sem miða allar að því sama; að efla íslenska menningu um allt land.
Ein af birtingamyndum þess krafts sem ríkir í íslenskri menningu eru einmitt bæjarhátíðarnar okkar, þar sem fjölbreytnin og metnaðurinn er allsráðandi. Margar frábærar hátíðir eru nú þegar afstaðnar í ár en margar eru jafnframt á næstu grösum. Ég hvet sem flesta til þess að taka þátt og kynna sér þær fjölbreyttu hátíðir sem eru í boði og skemmta sér vel það sem eftir er sumars.