Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð
Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er fjölbreytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf. Með tilkomu miðstöðvarinnar mun tónlistarlífið eignast sína eigin kynningarmiðstöð líkt og aðrar listgreinar.
Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.
Stofnun Tónlistarmiðstöðvar var ein af tillögum starfshóps sem ég skipaði á degi íslenskrar tónlistar, hinn 1. desember 2020. Hlutverk hópsins var að rýna umhverfi tónlistargeirans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tónlistar yrði best skipulagt, vinna drög að tónlistarstefnu og skilgreina hlutverk og ramma Tónlistarmiðstöðvar. Það er óneitanlega skemmtilegt að sjá þann mikla árangur sem náðst hefur fyrir tónlistarlífið í landinu frá 1. desember 2020. Síðastliðið vor var þingsályktunartillaga um tónlistarstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heildarlögunum um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tónlistarmiðstöð sem stofnuð var í gær.
Ég vil þakka starfshópnum fyrir sína frábæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir.
Ég legg á það þunga áherslu að styrkja umgjörð menningar í landinu og stuðla að auknum atvinnutækifærum og verðmætasköpun henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum 2023-2025 til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.
Við fyllumst öll stolti þegar samlöndum okkar vegnar vel á þessu sviði og ná langt meðal annars á erlendri grundu. Þeir nýju tónar sem við sláum nú fyrir tónlistarlífið í landinu munu skila sér margfalt til baka. Ég óska tónlistarfólkinu okkar innilega til hamingju með þennan áfanga, og hlakka til að hlusta á afraksturinn í framtíðinni.