Verðbólga og neytendavernd
Í riti Seðlabankans Fjármálastöðugleiki 2023/2, sem kom út í vikunni, er staða heimila og fyrirtækja rýnd í samhengi við aukið aðhald peningastefnunnar að undanförnu. Verðbólga og hækkandi vextir hafa þyngt greiðslubyrði heimila og fyrirtækja þó skuldsetning sé lítil í sögulegu samhengi og eiginfjárstaðan góð. Þannig hefur hækkandi vaxtastig dregið úr umsvifum á íbúðamarkaði en verulega hefur dregið úr nýjum lánveitingum til heimila á árinu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði ársins námu aðeins rúmum 58 mö.kr., samanborið við 111 ma.kr. á sama tímabili á síðasta ári.
Nokkur hluti útistandandi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á árunum 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða endurskoðaðir með tilheyrandi hækkun á greiðslubyrði lánanna. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að haldist vaxtastig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyrir að greiðslubyrði heimilanna þyngist verulega. Hagkerfið okkar má ekki verða eitthvert gæfuhjól, þ.e. að gæfan ákvarðist eingöngu út frá því hvenær komið er inn á húsnæðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta velferðarmál samtímans.
Staða stóru viðskiptabankanna er sterk, eiginfjárhlutföll þeirra há og arðsemi af reglulegum rekstri góð. Það er í takt við þróun undanfarinna ára, sem var meðal annars rakin í skýrslu starfshóps sem ég skipaði um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna og kynnt var nýlega. Það er eðlilegt að viðskiptabankarnir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heimili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslubyrði en áður.
Ein af tillögum starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna var að efla þyrfti neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í farveg en hafin er greiningarvinna á vegum míns ráðuneytis í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána til að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu. T.a.m. hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum til neytenda í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands gagnvart lánveitendum við framkvæmd lánveitingar til neytenda og eftir að lán er veitt, þ.m.t. við skilmálabreytingar og vanskil. Þá verður einnig skoðað hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skilvirkustum hætti.
Verðbólga er margslungið fyrirbæri og baráttan við hana krefst samtakamáttar samfélagsins. Þar skiptir stuðningur við heimilin miklu máli og öflug neytendavakt.