Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að fyrsta íslenska dægurtónlistin náði inn á alþjóðlega vinsældalista þegar Mezzoforte náði hæst 17. sæti á breska vinsældalistanum. Fram að þeim tíma höfðu verið gerðar margvíslegar tilraunir til að afla vinsælda á erlendri grundu. Á lýðveldistímanum hefur orðið mikil þróun á íslenskri dægurtónlist. Gunnar Hjálmarsson hefur gert þessari sögu ágæt skil í bókum sínum og sjónvarpsþáttum þeim tengdum. Einhverjir íslenskir tónlistarmenn náðu að ferðast um og flytja tónlist sína á Norðurlöndunum og Norður-Evrópu á sjötta og sjöunda áratugnum, þ. á m. Ragnar Bjarnason, Haukur Morthens og KK-sextettinn. Þessi útrás var ekki einungis karllæg, þar sem upp úr miðjum sjötta áratugnum fór lagasmiðurinn og söngkonan Ingibjörg Þorbergs til Bandaríkjanna með lög sín. Aðrar tilraunir til útrásar voru gerðar á sjötta og sjöunda áratugnum og þekktustu dæmi þess líklega Thor's Hammers og Change í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en með djassblendinni tónlist Mezzoforte árið 1983 að íslensk tónlist náði eyrum erlenda hlustenda og sautjánda sætinu á breska vinsældalistanum. Það leið síðan ekki á löngu þar til Sykurmolarnir fylgdu þessu eftir árið 1987 og náðu miklum vinsældum beggja vegna Atlantsála og hin einstaka Björk kom þar síðan í beinu framhaldi.

Við eigum frábæra tónlistarmenn á Íslandi og tónlist þeirra stendur fyrir sínu, en það gleymist stundum að horfa til vinnunnar baksviðs við að koma tónlistinni á framfæri og hafa margir í gegnum tíðina unnið ötullega að því með ágætum árangri. Hið opinbera hefur stutt við útrás íslenskrar tónlistar með margvíslegum hætti frá árinu 1995. Í nýstofnaðri Tónlistarmiðstöð hefur öllum öngum tónlistar verið safnað saman undir einn hatt og er þar meðal annars að finna Útón, sem stutt hefur við kynningu íslenskrar tónlistar á erlendri grund frá árinu 2006.

Frá þeim tíma að Mezzoforte náði inn á vinsældalista erlendis hefur fjöldi íslenskra dægurtónlistarmanna náð fótfestu erlendis og má þar meðal annars nefna Sykurmola, Björk, Emilíönu Torrini, Sigurrós, Gusgus, Jóhann Jóhannsson, OMAM, Kaleo, Hildi Guðnadóttur, ADHD, Víking Heiðar, Ásgeir Trausta, Ólaf Arnalds, Ásdísi, Daða Frey og nú síðast Laufeyju. Það sem vekur athygli er fjölbreytnin í þessum hópi listamanna og segir það til um þá miklu gerjun sem er að finna í tónlistarlífinu á Íslandi. Í þeim efnum ber sérstaklega að minnast á framlag þeirra tónlistarmanna sem kosið hafa að starfa einungis innanlands. Ef litið er til þessa hóps vekur styrkur kvenna jafnframt athygli.

Við tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrr í þessum mánuði kom fram að tveir íslenskir listamenn auk Sinfóníu Nord á Akureyri voru tilnefndir til verðlauna, sem eru auðvitað frábærar fréttir, en þykir í raun ekki lengur mikið tiltökumál þar sem nokkur hópur íslenskra listamanna hefur áður fengið tilnefningar og jafnvel hreppt verðlaun. Það segir jafnframt ýmislegt að ef einungis er horft til streymisveitunnar Spotify nálgast fimm efstu íslensku listamennirnir nærri 40 milljónir mánaðarlegra hlustenda. Það er ekki slæmur árangur á 40 árum fyrir þjóð sem nú telur 400 þúsund manns.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta