Fúsi er kominn til að vera
Fúsi er fatlaður einstaklingur og er saga hans saga þjóðar og hvernig umgjörð samfélagsins var í tengslum við fatlað fólk. Sýningin rifjar upp atvik úr ævi Fúsa og er tvinnað inn í frásögnina tónlist frá systkinunum Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum. Hinar frábæru leikkonur Halldóra Geirharðsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir leika atriði tengd ævi Fúsa og svo er fimmti maðurinn á sviðinu Egill Andrason sem spilar á hljómborð.
Sýningin er, að því er ég best veit, ein sú fyrsta hjá atvinnuleikhúsi þar sem fatlaður einstaklingur er í burðarhlutverki. Leikritið er afar áhrifaríkt og tilkomumikið, þar sem sagan er einlæg og átakanleg en á sama tíma skemmtileg.
Þetta stórmerkilega verk sýnir fram á að fatlaðir einstaklingar þurfa stærra hlutverk í skapandi greinum. Ráðuneyti mitt hefur verið að styðja betur við þennan málaflokk, meðal annars í gegnum hátíðina List án landamæra. List án landamæra dregur þetta meðal annars fram, en allar götur frá stofnun hennar árið 2003 hefur hátíðin lagt áherslu á list fatlaðs fólks og sem slík skapað sér sérstöðu innan menningarlífsins á Íslandi. Hefur hátíðin meðal annars ýtt undir og stuðlað að samstarfi ólíkra hópa í góðu samstarfi við listasöfn, leikhópa og tónlistarlíf – og þannig skapað vettvang og ný tækifæri í menningarlífi þjóðarinnar. Ásamt því vinnur Listasafn Íslands ötullega að því að kynna list fatlaðs fólks á markvissari hátt en áður hefur þekkst. Margt annað áhugavert er á dagskrá hjá ráðuneyti menningar.
Hvernig samfélagið kemur fram við fatlaða einstaklinga er hinn sanni mælikvarði á siðferði þjóða, það er hver umgjörð þeirra er sem og tækifæri. Listir eru ein besta leiðin til þess að varpa ljósi á fjölbreytileika samfélagsins þar sem sköpunarkraftur fólks fær notið sín óháð bakgrunni og stöðu viðkomandi. Það er brýnt að halda áfram að tryggja jöfn tækifæri til listsköpunar með þeim hætti, því allir hafa sögu að segja. Það næmi og einlægni sem kemur fram í leiksýningunni Fúsa á erindi við okkur öll. Þetta er ein af þessum sýningum sem fylgja manni í marga daga og láta mann ekki vera fyrr en maður tekur afstöðu. Hjartans þakkir fyrir mig.