Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku
Íslenskan, þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi, er eitt af einkennum þjóðar okkar. Íslenskuna telja sennilega margir vera hið eðlilegasta og sjálfsagðasta mál sem fylgt hefur íbúum þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungumálið til dæmis samofið baráttu þjóðarinnar fyrir fullveldi sínu þar sem hún þjónaði sem okkar helsta vopn, en hún var í senn álitin sameiningartákn og réttlæting íslensku þjóðarinnar fyrir sérstöðu sinni; sérstök þjóðtunga, sérstök menning.
Það er engum blöðum um það að fletta í mínum huga að íslenskan stendur á ákveðnum krossgötum. Hraðar og umfangsmiklar þjóðfélagsbreytingar undanfarinna ára hafa framkallað áskoranir af áður óþekktum stærðargráðum fyrir tungumálið okkar. Örar tæknibreytingar hafa gjörbylt því málumhverfi sem börn alast upp í og enskan er nú alltumlykjandi hvert sem litið er.
Við sem þjóðfélag getum ekki horft á tungumálið okkar þynnast út og drabbast niður. Í vikunni kynntu stjórnvöld 19 aðgerðir í þágu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar til hins betra en íslenskan er úti um allt í samfélagi okkar og því tekur það sinn tíma að stilla saman strengi í jafn fjölbreyttu verkefni og raun ber vitni.
Við getum öll gert okkar til þess að efla og þróa tungumálið okkar til framtíðar. Og það þurfa allir að gera – það er verkefni samfélagsins að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni vaxa með viku hverri og við ætlum að tryggja að fullveldissaga þjóðarinnar verði áfram skrifuð á íslensku um ókomna framtíð.