1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag
Sá mikli gjaldeyrisstraumur sem ferðaþjónustan skapar skiptir lítið, opið hagkerfi eins og okkar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krónunnar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem öryggissjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem haft geta neikvæð áhrif á gjaldeyrisöflun. Umturnun varð á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins með tilkomu og vexti ferðaþjónustunnar, sem skapar stöðugan straum gjaldeyristekna, vel á annan milljarð króna á degi hverjum. Það má meðal annars greina í stöðu gjaldeyrisvarðaforða Seðlabankans og vaxandi eignum lífeyrissjóða á erlendri grundu.
Ferðaþjónustan hefur að sama skapi bætt búsetuskilyrði í landinu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Hærra atvinnustig hringinn um landið sem og stóraukið framboð af þjónustu í afþreyingu, gistingu, mat og drykk eða aðgengi að náttúruperlum er eitthvað sem íbúar landsins jafnt sem erlendir gestir njóta góðs af. Vissulega hafa fylgt vaxtarverkir þeim öra vexti sem var á fyrri árum í komu erlendra ferðamanna til landsins. Hins vegar hefur mjög margt áunnist á síðustu árum í að byggja upp nauðsynlega innviði til að taka á móti þessum aukna fjölda.
Fjölmörg sóknartækifæri eru til staðar til þess að gera enn betur í þessum efnum til að stuðla að sjálfbærum vexti. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu er unnið af fullum krafti að gerð nýrrar ferðaþjónustustefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaáætlun. Meginstefið í henni er að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð. Við viljum styrkja umgjörð ferðaþjónustunnar og skapa henni betri skilyrði til að vaxa og dafna í takt við fyrrnefnda framtíðarsýn. Ferðaþjónustuvikan er einmitt góður vitnisburður um þann árangur, kraft og viðnámsþrótt sem einkennir íslenska ferðaþjónustu. Ég óska greininni til hamingju með vikuna og hlakka til að kynna mér alla þá fjölbreytni sem ferðaþjónustan hefur að geyma á Mannamóti ferðaþjónustunnar sem fram fer í Kórnum í Kópavogi í dag.