Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

11,5 milljarðar komnir í loftið

Fyrr í mánuðinum fór í loftið við frábæra dóma fjórða serían af sjónvarpsþáttunum True Detective sem framleiddir eru af amerísku sjónvarpsstöðinni HBO max, en stöðin er ein af dótturfyrirtækjum einnar stærstu afþreyingarsamsteypu heims, Warner Bros Discovery. Þar með opinberaðist árangur þrotlausrar vinnu hér á landi en þáttaröðin, með Jodie Foster í broddi fylkingar, var að langstærstum hluta framleidd hér á landi af íslenska framleiðslufyrirtækinu True North. Aðstandendur verkefnisins hafa hlaðið Ísland og íslenska kvikmyndagerð miklu lofi í bandarískum fjölmiðlum.

Um er að ræða stærsta kvikmynda- og sjónvarpsverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi og um hreina erlenda fjárfestingu að ræða, en heildarkostnaður verkefnisins nam um 11,5 milljörðum króna. Að meðaltali voru um 600 manns að vinna að verkefninu á degi hverjum en á stærstu dögunum vorum um 1.000 manns á setti. Í heildina fengu um 1.200 manns greitt fyrir aðkomu sína að verkefninu og átti verkefnið í viðskiptum við 2.000 fyrirtæki og einstaklinga á tökutímanum, en tökutímabilið varði í rúmlega hálft ár og fóru tökur fram í kvikmyndaverum í Reykjavík ásamt útitökum á Akureyri, Keflavík, Vogunum, Dalvík, við Stíflisdalsvatn og í Bláfjöllum.

Stærstur hluti þeirra sem störfuðu beint við verkefnið voru Íslendingar í hinum ýmsu störfum. Má þarf nefna kvikmyndatöku- og tæknifólk ýmiskonar, framleiðslustjóra, förðunar-, búninga- og leikmyndarsérfræðinga, aukaleikara og svo lengi mætti áfram telja.

Það er mikil viðurkenning fyrir Ísland sem tökustað að fá verkefni af þessari stærðargráðu hingað og er það bersýnileg staðfesting þess að stefna stjórnvalda í málefnum skapandi greina virkar, en til að mynda hefur kvikmyndastefnu frá árinu 2020 verið hrint skipulega í framkvæmd með fjölmörgum aðgerðum. Einni slíkri var hrint í framkvæmt árið 2022 sem fólst í að hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði í kvikmyndagerð sem til fellur hér á landi var hækkað úr 25% í 35% fyrir verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði hvað varðar stærð, fjölda tökudaga og fjölda starfsfólks. Árangur þeirra breytinga fór strax að skila sér líkt og ofangreint verkefni sannar.

Það er hins vegar mikilvægt að hafa hugfast að grunnurinn að hinum mikla árangri í kvikmyndagerð hér á landi er allt hið magnaða innlenda kvikmyndagerðarfólk sem hefur rutt brautina í gegnum áratugina. Án þess væri Ísland lítilfjörlegur tökustaður í dag, en hróður íslensks kvikmyndagerðarfólks fer víða enda er það þekkt fyrir framúrskarandi fagmennsku, vinnusemi, grænar áherslur og lausnamiðað hugarfar. Ég mun halda áfram að beita mér af fullum krafti til að efla kvikmyndaiðnaðinn hér á landi í góðu samstarfi við greinina. Það er til mikils að vinna að auka verðmætasköpun í hinum skapandi greinum enn frekar og ég er þess fullviss að framtíðin sé björt á þeim vettvangi. Ég óska öllum þeim sem komu að verkefninu True Detective til hamingju með áfangann og hvet ykkur áfram til góðra verka.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta