Hoppa yfir valmynd
05. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vor á Vestfjörðum

Það var fallegt að fljúga inn til lendingar á Ísafirði í gær þar sem ég varði deginum í að funda með Vestfirðingum um hin ýmsu mál. Það er engum blöðum um það að fletta að mikil breyting hefur orðið til batnaðar á Vestfjörðum á undanförnum árum; kraftmikil uppbygging hefur átt sér stað í atvinnulífinu á svæðinu, fjárfesting hefur verið í betri vegasamgöngum og aukin bjartsýni og tiltrú á framtíð svæðisins er tilfinnanleg.

Ferðaþjónusta hefur vaxið á Vestfjörðum líkt og annars staðar á landinu. Það var mikil viðurkenning fyrir landshlutann þegar alþjóðlegi ferðabókaútgefandinn Lonely Planet valdi Vestfirði sem besta áfangastað í heimi árið 2022. Slíkt varð til þess að beina hinu alþjóðlega ferðakastljósi að svæðinu með jákvæðum áhrifum enda hefur svæðið upp á margt að bjóða. Hefur þetta meðal annars birst í mikilli ásókn í að heimsækja Vestfirði undanfarin sumur og hefur gisting selst upp í fjórðungnum.

Brýnasta áskorunin í ferðaþjónustu í landsfjórðungnum er hins vegar að lengja ferðatímabilið, en markmiðið er að heilsársferðaþjónusta verði starfrækt á svæðinu. Lögð hefur verið áhersla á að draga úr árstíðasveiflu í öllum landshlutum undanfarinn áratug með þónokkrum árangri, þó við getum gert talsvert betur í þeim efnum. Lenging ferðatímabilsins stuðlar að betri nýtingu innviða, eins og hótela og veitingastaða, og skapar betri skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu í ferðaþjónustu.

Á opnum fundum mínum að undanförnu um nýja ferðaþjónustustefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengda, sem farið hafa fram um allt land, hefur átt sér stað gagnlegt samtal við haghafa í greininni. Þar hafa fyrrnefnd sjónarmið meðal annars verið reifuð sem mikilvægt er að hlýða á og nýta í því verkefni að styrkja umgjörð ferðaþjónustunnar. Þannig hafa Vestfirðingar til dæmis sammælst um að vinna að og kynna hina svokölluðu Vestfjarðaleið, 950 kílómetra langa ferðamannaleið um Vestfirði og Dalina sem opnaðist með tilkomu Dýrafjarðarganga í október 2020. Á leiðinni er að finna marga af fallegustu áfangastöðum Vestfjarða sem gaman er að heimsækja.

Stjórnvöld munu leggja sín lóð á vogarskálarnar til að styðja heimamenn í því að klára verkefnið með sóma en metnaðarfull vinna liggur að baki verkefninu sem verður til þess að vekja aukinn áhuga á að heimsækja Vestfirði.

Vestfirðingar hafa einnig lagt kapp á að hlúa að tungumálinu og aðgengi að því í gegnum verkefni Gefum íslensku séns. Með því er leitast við að virkja fólk í nærsamfélaginu sem er tilbúið að veita fólki af erlendum uppruna hjálp við að tileinka sér íslensku í samvinnu við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Það skiptir meðal annars atvinnulífið miklu máli sem og samfélagið allt.

Tækifærin eru sannarlega til staðar vestur á fjörðum sem og út um allt land, nú er bara að vinna saman að því að nýta þau til hagsbóta fyrir samfélagið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum