Stöðugleikakjarasamningar í þágu þjóðar
Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar mældist hagvöxtur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þessar tölur voru talsvert hærri en jafnvel nýjustu spár gerðu ráð fyrir og hefur hagvöxtur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkjum.
Ísland var fljótt að jafna sig eftir heimsfaraldurinn vegna þess þróttar sem er í íslensku efnahagslífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórnvalda vel, eða eins og efnahagsleg loftbrú. Nýlegar leiðréttingar Hagstofunnar á mannfjöldatölum sýna jafnframt að hagvöxtur á mann hefur verið mikill og meiri en fyrstu tölur gerðu ráð fyrir, eða um 5,9% á árinu 2022 og 2,1% á árinu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hagvöxtur á mann væri lítill áttu sér ekki stoð í raun. Hagkerfið hefur því í raun verið mun heitara en búist var við.
Nýlegar hagtölur benda hins vegar til þess að jafnvægi sé að nást, en samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands var afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd eftir nokkurra ára hlé og hagkerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einkaneyslu. Aukinn þjónustuútflutningur, sem skýrist aðallega af framlagi ferðaþjónustu, hélt uppi hagvexti á síðasta ári. Á síðustu vikum og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögulega sé að hægja á starfsemi ferðaþjónustu og má einkum rekja það til áhrifa af eldsumbrotunum a Reykjanesi. Þrátt fyrir þetta eru verðbólga og verðbólguvæntingar áfram þrálátar. Það er ljóst að það mun hægjast á hagvexti á komandi misserum eins og víða í nágrannalöndunum. Til að byggja undir almenna hagsæld er nauðsynlegt að fara í aðgerðir sem snúa að hagvexti til framtíðar og orkuskiptunum. Hagkerfið býr yfir mun meiri fjölbreytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggjuefni þótt dragi tímabundið saman í hagvexti. Hins vegar til að byggja undir almenna hagsæld fer að verða tímabært að hefja samtal um að huga að aðgerðum sem snúa að hagvexti til framtíðar.
Langtíma kjarasamningar í höfn
Nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru til fjögurra ára skipta hagkerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bættum lífskjörum, en stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum, sem mun skila sér í auknum kaupmætti fólks. Eina raunhæfa leiðin til þess að ná því markmiði er samstillt átak hins opinbera, vinnumarkaðarins og peningastefnunnar í landinu. Það er jákvætt að samkomulag hafi náðst til fjögurra ára en tímalengd samninganna stuðlar að auknum fyrirsjáanleika á vinnumarkaði. Aðgerðir sem stjórnvöld kynntu til að greiða fyrir gerð kjarasamninganna eru margþættar og er markmið þeirra að stuðla að vaxandi velsæld í landinu. Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem nema allt að 80 milljörðum króna á samningstímanum. Þannig hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um að forgangsraða fjármunum ríkisins með skýrum hætti í þágu stöðugleika á vinnumarkaði næstu árin. Á sama tíma er mikilvægt að ríkið rýni í eigin rekstur, til dæmis með því að nýta fjármuni betur, stuðla að aukinni hagkvæmni hjá hinu opinbera og tryggja samkeppnishæfa umgjörð um atvinnulífið til þess að standa undir verðmætasköpun fyrir samfélagið.
Verulegur stuðningur á húsnæðismarkaði
Aðgerðir stjórnvalda snerta lífskjör fólks með beinum hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna um að allt 500 þúsund krónur á ári. Þannig verður sjö milljörðum varið í ár í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán til að koma til móts við aukinn vaxtakostnað, en stuðningurinn kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda með hærri húsnæðisbótum en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% þann 1. júní næstkomandi og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að 6 heimilismenn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Að sama skapi verður húsnæðisöryggi leigjenda aukið og skýrari rammi settur um ákvörðun og fyrirsjáanleika leigufjárhæðar með breytingum á húsaleigulögum auk bættrar ráðgjafar og upplýsinga til leigjenda. Að sama skapi verður settur enn meiri kraftur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á samningstímanum með stofnframlögum og hlutdeildarlánum til uppbyggingu 1.000 íbúða á ári. Sveitarfélögin munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf og lífeyrissjóðum verða veittar rýmri heimildir til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.
Stutt við barnafjölskyldur
Ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til þess að styðja betur við barnafjölskyldur á samningstímanum. Þannig verða barnabætur hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum, sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða króna á samningstímanum. Þá verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. Það er um tímabæra breytingu að ræða sem mun ýta undir auknar samvistir barna með báðum foreldrum. Ráðist verður í samhent átak til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með það að markmiði að tryggja öllum börnum pláss á leikskólum. Þá verða skólamáltíðir grunnskólabarna gerðar gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans.
Samfélag er samvinnuverkefni
Heimsókn nóbelsverðlaunahafans Jósefs Stiglitz í síðustu viku minnti okkur á hvað sú efnahagsskipan sem við búum við á Íslandi hefur reynst gæfurík. Þó að okkur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efnahagsmála og skiptingu gæða höfum við sem þjóðfélag náð samstöðu um fjárfestingu í almannagæðum, menntun, sjúkratryggingum og félagslega kerfinu og með samvinnu náð að skapa grundvöll fyrir framsækið markaðshagkerfi þar sem frelsi einstaklingsins er í forgrunni.