Tónlistarauðlegð Íslands
Á Íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni endurspeglaðist meðal annars sá mikli kraftur sem býr í tónlistarlífinu hér á landi. Við höfum einnig fylgst með glæsilegum árangri íslenskra tónlistarmanna á alþjóðlegum vettvangi undanfarið. Má þar nefna eftirtektarverðan árangur Íslendinga á Grammy-verðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum, þar sem söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir plötu sína Bewitched, og tilnefningu tónlistarmannsins Ólafs Arnalds til verðlauna í sínum flokki. Á fjórum árum hafa Íslendingar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu tilnefningum. Það verður að teljast afbragðsgott fyrir þjóð sem telur tæplega 400.000. Í samhenginu við mannfjöldann má einmitt geta þess að í vikunni bárust fregnir af því lagið Little Talks eftir íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men náði að rjúfa eins milljarðs múrinn í hlustunum á streymisveitunni Spotify.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref til þess að efla umgjörð tónlistarlífsins í landinu enn frekar með nýrri löggjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tónlistarmiðstöð sem og Tónlistarsjóði. Ég er sannfærð um að breytingarnar muni treysta enn frekar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okkar hæfileikaríku tónlistarmenn fái enn meiri byr í seglin með nýjum tækifærum til framtíðar.