Hoppa yfir valmynd
14. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tónlistarauðlegð Íslands

Ísland státar af öflugu tónlistarlífi sem eftir er tekið á erlendri grundu. Slík þróun gerist ekki á einni nóttu heldur liggur þar að baki afrakstur mikillar vinnu í gegnum áratugina. Það er til að mynda áhugavert að kynna sér sögu Tónlistarfélags Reykjavíkur sem stofnað var árið 1932. Félagið ruddi mikilvægar brautir í menningarlífinu en tilgangur þess var að bæta aðstöðu íslenskra tónlistarmanna bæði til náms og starfs en alls almennings til tónnautnar. Félagið á sér í raun lengri sögu, en undanfarar þess eru Hljómsveit Reykjavíkur, stofnuð 1925, og Tónlistarskólinn í Reykjavík, stofnaður 1930. Saga félagsins veitir innsýn í þann mikla metnað sem ríkti í tónlistarlífinu vel fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, en Tónlistarfélagið kom til dæmis að því að fá eina virtustu tónlistarmenn samtímans til landsins að spila á tónleikum. Með tíð og tíma efldist tónlistarstarf víða um land með stofnun fleiri tónlistarfélaga og tónlistarskóla, má þar nefna Tónlistarskóla Akureyrar sem stofnaður var árið 1946 og Tónlistarskóla Ísafjarðar sem var settur á laggirnar árið 1948. Þannig hefur í áratugi ríkt metnaður fyrir tónlistarnámi, með frábærum kennurum í broddi fylkingar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hefur sköpum fyrir menningarlíf þjóðarinnar.

Á Íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni endurspeglaðist meðal annars sá mikli kraftur sem býr í tónlistarlífinu hér á landi. Við höfum einnig fylgst með glæsilegum árangri íslenskra tónlistarmanna á alþjóðlegum vettvangi undanfarið. Má þar nefna eftirtektarverðan árangur Íslendinga á Grammy-verðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum, þar sem söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir plötu sína Bewitched, og tilnefningu tónlistarmannsins Ólafs Arnalds til verðlauna í sínum flokki. Á fjórum árum hafa Íslendingar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu tilnefningum. Það verður að teljast afbragðsgott fyrir þjóð sem telur tæplega 400.000. Í samhenginu við mannfjöldann má einmitt geta þess að í vikunni bárust fregnir af því lagið Little Talks eftir íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men náði að rjúfa eins milljarðs múrinn í hlustunum á streymisveitunni Spotify.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref til þess að efla umgjörð tónlistarlífsins í landinu enn frekar með nýrri löggjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tónlistarmiðstöð sem og Tónlistarsjóði. Ég er sannfærð um að breytingarnar muni treysta enn frekar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okkar hæfileikaríku tónlistarmenn fái enn meiri byr í seglin með nýjum tækifærum til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum