Hoppa yfir valmynd
23. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Bókaþjóð fær nýja bókmenntastefnu

Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil.

Páskahátíðin er hafin þar sem við njótum samvista með fjölskyldu og vinum. Passíusálmarnir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meistaraverk bæði frá listrænu og trúarlegu sjónarmiði og ein af mörgum birtingarmyndum þess ríka bókmenntaarfs sem Ísland býr að. Bókmenntir eru samofnar sögu þjóðarinnar eins og við þekkjum. Þannig er bókmenntaarfur Íslendinga okkar merkasta framlag til heimsmenningar en handritasafn Árna Magnússonar er til dæmis á verðveisluskrá UNESCO.

Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til þess að efla umgjörð menningar og skapandi greina á Íslandi. Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan fyrir Ísland leit dagsins ljós árið 2020 og síðan þá hefur myndlistarstefna, tónlistarstefna, stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs verið gefnar út og hrint í framkvæmd. Unnið er að stefnu í málefnum sviðslista og gær samþykkti ríkisstjórn tillögu mína um nýja bókmenntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Nýrri bókmenntastefnu er ætlað að hlúa enn betur að bókmenntamenningu okkar til framtíðar. Í stefnunni er birt framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og jafnframt þrjú meginmarkmið sem aðgerðirnar skulu styðja við. Meginmarkmiðin snúast um fjölbreytta útgáfu á íslensku til að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu; um aukinn og bættan lestur, ekki síst meðal ungra lesenda; og hvatning til bókasamfélagsins um nýsköpun sem taki mið af tækniþróun og örum samfélagsbreytingum.

Aðgerðaáætlunin hefur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Umgjörð og stuðningur; Börn og ungmenni; Menningararfur, rannsóknir og miðlun; og Nýsköpun og sjálfbærni. Aðgerðirnar leggja ekki síst áherslu á börn og ungmenni annars vegar og íslenska tungu hins vegar en víða er komið við.

Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætluninni snýst um endurskoðun á því regluverki og þeirri umgjörð sem hið opinbera hefur komið upp í tengslum við bókmenntir og íslenskt mál. Þar eru undir lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, lög um bókmenntir, lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, bókasafnalög o.fl. Í þeirri endurskoðun er brýnt að hugað verði að breyttu landslagi tungu og bóka vegna tilkomu gervigreindar, máltækni, streymisveitna og annarrar tækni sem er í hraðri þróun þessi misserin.

Bókmenntastefnan er gerð í mikilli samvinnu við hagsmunaaðila sem lögðu til grundvöllinn í stefnunni og aðgerðunum. Það er viðeigandi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bókmenntastefnu sem mun leggja grunninn að enn metnaðarfyllra menningarlífi hér á landi. Ég óska öllum gleðilegra páska.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum