Hoppa yfir valmynd
26. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Pólskar rætur á Íslandi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Gerard Pokruszyński

Um liðna helgi var opnuð sýningin Pólskar rætur og daglegt líf á Íslandi á Þjóðminjasafni Íslands. Sýningin er hluti af samstarfsverkefni Íslands og Póllands á sviði menningarmála sem unnið hefur verið að á undanförnum árum, meðal annars með aðkomu borgarsögusafns Varsjár. Með sýningunni er skyggst inn í upplifun Pólverja af veru sinni á Íslandi en inntak hennar byggist á svörum og ljósmyndum sem borist hafa Þjóðminjasafninu í þjóðháttarannsókn sem nú stendur yfir.

Mikilvægt samband Íslands og Póllands
Samband Íslands og Póllands er sterkt og hafa tvíhliðasamskipti ríkjanna aukist á undanförnum árum, sérstaklega á sviði mennta- og menningarmála. Árið 2020 var til dæmis undirrituð samstarfsyfirlýsing milli íslenskra og pólskra menntamálayfirvalda um að efla frekara samstarf landanna á sviði menntamála. Með yfirlýsingunni var lögð áhersla á að nemendur af pólskum uppruna hefðu aðgang að menntun á móðurmáli sínu, hvatt var til aukins samstarfs menntastofnana og samskipta ungmenna, kennara og skólastarfsfólks. Samhliða undirrituninni var tilkynnt að pólsk yfirvöld hygðust opna pólskuskóla á Íslandi, þar sem m.a. mun fara fram móðurmálskennsla fyrir pólsk-íslenska nemendur um helgar. Á undanförnum árum hafa þrír pólskir háskólar í borgunum Kraká, Gdansk og Katowice hafið kennslu í íslenskri tungu og fræðum og kennsla í pólskum fræðum hefur hafist við Háskóla Íslands. Þá markaði opnun stofnunar íslensks sendiráðs í Varsjá árið 2022 ákveðin tímamót í samskiptum landanna, en sendiráð Póllands hefur verið starfrækt á Íslandi frá árinu 2013.

Pólverjar eru fjölmennastir innflytjenda
Á síðustu áratugum hefur fólki af pólskum uppruna á Íslandi fjölgað talsvert og eru Pólverjar nú stærsti hópur innflytjenda á Íslandi. Þannig eru rúmlega þrjátíu þúsund einstaklingar af pólskum uppruna eða með pólskan ríkisborgararétt hér á landi, sem er um 8% af íbúafjölda Íslands. Íslendingar af pólskum uppruna eru fyrsti stóri hópur innflytjenda. Það er mjög ánægjulegt að horfa til þess að fólk af pólskum uppruna hefur náð að koma sér afar vel í íslensku þjóðlífi um allt land og þannig sett svip sinn á samfélagið með ýmsum hætti, til að mynda með virkri þátttöku á vinnumarkaði og í íþrótta-, mennta- og menningarlífi þjóðarinnar. Þá er víða að finna pólskar matvöruverslanir sem bjóða upp á það helsta úr pólskri matargerð, þar á meðal súkkulaðið Prins Póló sem hefur verið samofið íslensku sælgætisáti um margra áratuga skeið.

Það er fegurð í því fólgin hvernig Ísland og Pólland hafa deilt menningu sinni hvort með öðru. Í því eru fólgin auðæfi sem treysta vinabönd þjóðanna til langrar framtíðar. Þar skiptir tungumálið og aðgengi að því höfuðmáli, enda er tungumál sannkallaður lykill að samfélagi hverju. Sýningin Pólskar rætur og daglegt líf á Íslandi varpar meðal annars ljósi á það en við hvetjum sem flesta til þess að koma við á Þjóðminjasafninu og skoða sýninguna, sem er ein af mörgum og jákvæðum birtingarmyndum góðrar vináttu Íslands og Póllands.

Höfundar eru menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar og sendiherra lýðveldisins Póllands á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta