Hoppa yfir valmynd
30. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Í ágætri bók eftir Nicholas Wapshott, sem ber titilinn „The Sphinx“, er fjallað um baráttuna sem Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, háði gegn einangrunarhyggju í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Einangrunarsinnar voru alfarið á móti því að Bandaríkin sendu herafla til að verja lýðræðisríki í Evrópu. Meðal helstu andstæðinga Roosevelts var vinur hans Joseph P. Kennedy, viðskiptajöfur og sendiherra, ásamt einstaklingum á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Bandaríkin, hið nýja heimsveldi, ætti ekkert erindi í stríðsátök handan Atlantshafsins. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Bandaríkjunum tala fyrir einangrunarhyggju, sem er ekki jákvætt fyrir frið, velsæld og alþjóðaviðskipti.

Blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum

Allt er í heiminum hverfult og tímabil alþjóðavæðingar, eins hún hefur birst eftir seinni heimsstyrjöld, virðist mögulega hafa runnið sitt skeið. Hlutfall vöru- og þjónustuútflutnings á heimsvísu náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá farið lækkandi. Heimshagkerfið hefur séð mikinn vöxt í viðskiptahindrunum síðastliðinn áratug. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt fram á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% á næstunni, ef viðskiptahindranir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á og sporna við til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í veröldinni.

Aukinn ófriður á heimsvísu og meiri skipting viðskipta eftir pólitískri hugmyndafræði hefur leitt af sér mikla fjölgun í viðskiptahindrunum. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru settar alls 3.000 viðskiptahindranir á síðasta ári, sem er þreföldun frá árinu 2019. Saga hagfræðinnar hefur kennt okkur að þegar viðskipti þjóða dragast saman, þá versna lífskjör. Ekkert þjóðríki hefur ávinning af því að skipta hagkerfi heimsins í fylkingar. Þess vegna skiptir samvinna þjóða og alþjóðasamstarf svo miklu máli.

Hagsæld Íslands grundvallast á alþjóðaviðskiptum
Íslendingar stunduðu umfangsmikil viðskipti á sinni gullöld (930-1262), fundu Norður-Ameríku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aserbaísjan. Sagnaritararnir varðveittu germanska menningararfinn og samin voru einstök bókmenntaverk, líkt og Íslendingasögurnar og aðrar bókmenntaperlur. Á þessum tíma ríkti bókmenntaleg hámenning á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skapandi greina í Norður-Atlantshafi. Mikil viðskipti voru við Grænland og þaðan komu dýrgripir a borð við fálka, rostungstennur og náhvalstennur. Þetta blómaskeið leið undir lok á 13. öld þegar innanlandsófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið einangraðist frá Evrópu og á endanum glataði það sjálfstæði sínu. Eftir svartadauða versnuðu lífsskilyrði verulega og náði sú þróun hámarki á 18. öld, þegar hver hungursneyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhræringum. Danskir ráðamenn töldu jafnvel skynsamlegt að flytja alla Íslendinga til Danmerkur. Einangrun landsins hafði gríðarleg áhrif á þessa neikvæðu þróun og eins það, að eignarhald á utanríkisviðskiptum hvarf frá landsmönnum.

Sá mikli kraftur sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hefur verið aflvaki þess að lífskjör hundraða milljóna manna hafa batnað. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum. Um leið og Ísland hóf aftur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og auðsæld. Tæknivæðing samfélagsins lagði sitt af mörkum í þessari samfelldu framfarasögu, skilaði aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi fyrir tæpum fjórum áratugum. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.

Einangrunarsinnar sækja í sig veðrið
Á síðustu öld hafa Bandaríkin verið leiðandi í frjálsum viðskiptum en síðustu misseri hafa stjórnvöld verið að hverfa af þeirri braut. Mikil skautun hefur einkennt alla pólitíska umræðu og óvenjubreið spjót hafa tíðkast milli Demókrata og Repúblikana í umræðunni um ríkisfjármál, jafnréttismál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verkafólk í Bandaríkjunum hefur borið skarðan hlut frá borði vegna hnattvæðingar, sem hefur falist í því að mikið af bandarískum störfum fluttist til ríkja þar sem launakostnaður var mun lægri. Raunlaun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna húsnæðis og menntunar hefur vaxið mikið. Þessi þróun hefur leitt af sér óþol gagnvart vaxandi hnattvæðingu í Bandaríkjunum. Hins vegar er hægt að láta alþjóðaviðskiptin vinna fyrir allt samfélagið, ef viljinn er fyrir hendi. Stjórnmálin hafa því síðustu misseri einbeitt sér að því að flytja störf aftur heim. Mun harðari innflytjendastefna var tekin upp og hefur sett þrýsting á vinnumarkaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hefur verið lævi blandið í samskiptum tveggja stærstu hagkerfa heimsins, Kína og Bandaríkjanna. Stjórnvöld beggja ríkja hafa markvisst unnið að því að gera efnahagskerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hagstæð fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland er. Til að hagsæld aukist áfram á Íslandi er afar mikilvægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort heldur fyrir vörur eða þjónustu.

Í upphafi greinarinnar fór ég aftur í söguna og fjallaði um þá einangrunarhyggju sem einkenndi bandaríska stjórnmálaumræðu á 4. áratugnum. Roosevelt var mikill vandi á höndum, því hann taldi útilokað annað en að styðja við forsætisráðherrann og félaga sinn Winston Churchill og lýðræðisríkin í Evrópu. Öll vitum við í dag að aðkoma Bandaríkjanna og liðsauki þeirra við bandalagsríki sín skipti sköpum í að hafa sigur á Hitler og bandamönnum hans. Umræðan í Bandaríkjunum í dag er keimlík þeirri sem var á 4. áratugnum og munu næstu forsetakosningar ráða miklu um þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Farsæl samvinna ríkja varðar veginn fyrir áframhaldandi velsæld og öryggi á heimsvísu. Sagan sjálf sýnir okkur það líkt og rakið hefur verið hér að ofan.

Páskarnir eru hátíð trúar og birtunnar. Birtuhluti sólarhringsins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími vonar og upprisu. Vonandi fer að birta til í alþjóðamálum. Gleðilega páska!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum