Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lýðræði í verki í yfir heila öld

Á undanförnum árum höfum við ítrekað verið minnt á að það lýðræðissamfélag sem við búum við er langt í frá að vera sjálfsagður hlutur. Víða um heim hefur verið sótt að þeim gildum sem við grundvöllum samfélag okkar á, þannig hefur frelsi, mannréttindi og lýðræðið sjálft átt undir högg að sækja. Um liðna helgi fór fram stórglæsilegt 37. flokksþing Framsóknar þar sem grasrót flokksins, fólk með allskonar bakgrunn, kom saman til þess að stilla saman strengi, rökræða málefni og skerpa á stefnu flokksins í þágu þjóðarinnar. Það er skemmtilegt að finna kraftinn sem ávallt leysist úr læðingi á samkomum sem þessum. Það er mikilvægt að fólk geti tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks, talað fyrir hugsjónum sínum, lagt fram tillögur þeim tengdar og rökrætt þær. Það hefur verið hryggjarstykkið í starfi Framsóknar sem hefur fylgt þjóðinni í yfir 107 ár, lengst allra stjórnmálaflokka.

Frá stofnun flokksins árið 1916 hefur rauði þráðurinn í ályktunum hans verið skýr: Aukin verðmætasköpun er undirstaða velferðar! Þannig komust flokksmenn til að mynda að orði á 7. flokksþingi Framsóknar á lýðveldisárinu 1944: „Flokksþingið telur, að landið ráði yfir nægum auðlindum til þess að veita öllum þeim, er það byggja, fullnægjandi lífsnauðsynjar og lífsþægindi.“ Þetta eru orð að sönnu og ekki þarf að finna upp hjólið í þessum efnum. Grunngildi Framsóknar og stefna hefur staðist tímans tönn í meira en heila öld og verið landinu til heilla. Á þeim grundvelli hefur flokkurinn staðið með borg, bæjum og að sjálfsögðu sveitum landsins, sótt fram í þágu aukinnar verðmætasköpunar og lífskjarasóknar á Íslandi. Saga Íslands frá fullveldisárinu 1918 og lýðveldisárinu 1944 er saga framfara. Þannig hafa lífskjör Íslendinga stórbatnað á tímabilinu og eru með því besta sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Þetta staðfestir nýbirtur lífskjaralisti Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland skipar sér ásamt Sviss og Noregi í þrjú efstu sætin. Slíkt er auðvitað vitnisburður um þann árangur sem hefur náðst.

Þrátt fyrir góðan árangur á heimsvísu má hins vegar alltaf gera betur eins og við þekkjum. Í tímans rás verða ávallt til nýjar og verðugar áskoranir sem þarf að takast á við. Í því felst meðal annars starf stjórnmálaflokka, að móta stefnu til þess að takast á við áskoranir samtímans til þess að bæta samfélagið. Verðbólgan, orkumál og alþjóðlega verndarkerfið voru meðal þeirra málefna sem flokksmenn settu á oddinn. Við, kjörnir fulltrúar flokksins, munum halda áfram að vinna að þeim og ekki skorast undan í þeim efnum – enda á þeirri rúmu öld sem Framsókn hefur fylgt þjóðinni hefur flokkurinn aldrei skorast undan þeirri ábyrgð að stýra landinu af festu og ábyrgð, verið á skóflunni og ráðist í róttækar umbætur í þágu íslenskra hagsmuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta