Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sumarkveðja

Í vikunni lagði ég fram frumvarp um stofnun Þjóðaróperu. Um er að ræða tímamótafrumvarp í íslenskri menningarsögu, því loksins bjóðum við óperulistinni varanlegt heimili á Íslandi. Um leið gerum við henni jafn hátt undir höfði og leiklistinni og dansinum, sem um árabil hafa notið lögformlegrar stöðu innan Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins.

Vegleg óperustarfsemi í yfir hálfa öld

Óperan hefur verið nefnd drottning listanna, sú listgrein sem allar hinar lúta og sameinast um að þjóna. Íslenska þjóðin hefur reyndar lengi þekkt þessa drottningu, enda listelsk með afbrigðum. Það var söngurinn sem fann sér leið inn í hjarta þingmanna, því árið 1886, heilum fimm árum áður en Matthías Jochumsson hlaut skáldalaun, veitti Alþingi Guðrúnu Waage styrk tvö ár í röð til að nema sönglist. Alla 20. öldina áttu Íslendingar svo hvern glæsisöngvarann á fætur öðrum, líkt og Pétur A. Jónsson, sem var meðal fremstu hetjutenóra í Þýskalandi millistríðsáranna. Landar Péturs fengu loks að upplifa hann í óperusýningu árið 1937, þegar fyrsta óperan var flutt á Íslandi. Árið 1931 hafði reyndar fyrsta óperettan verið sýnd og þremur árum síðar fyrsta íslenska óperettan. Þegar Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 var ópera á dagskrá strax fyrsta árið og það voru óperurnar sem voru yfirleitt best sóttu sýningar leikhússins næstu áratugina, þótt stopular væru. Árið 1979 tók svo við nýtt tímabil í sögu óperuflutnings á Íslandi þegar Íslenska óperan var stofnuð, og bar hún þennan kyndil til margra ára.

Ávinningur af Þjóðaróperu og hlutverk
Stærsta skrefið fram á við felst í samfelldri starfsemi, en lykillinn að henni er föst stöðugildi. Síðan Guðrún Waage fór í söngnámið fyrir hartnær 140 árum hefur stöðugt bæst í glæstan hóp íslenskra söngvara og hefur hann aldrei verið stærri en nú. En á meðan við höfum menntað þetta fólk upp á hæsta stig og verið stolt þegar það ber hróður Íslands um víðan völl, þá höfum við ekki getað boðið því starfsvettvang á Íslandi. Fyrir flesta hefur spurningin verið: Viltu starfa sem óperusöngvari eða viltu búa á Íslandi? Með stofnun Þjóðaróperu verða til föst stöðugildi fyrir söngvara, jafnt einsöngvara sem kór, og því getum við spurt: Viltu vera óperusöngvari og búa á Íslandi? Þetta er raunhæf spurning þótt hin nýja Þjóðarópera geti auðvitað ekki tryggt öllum óperusöngvurum fullt starf. En með stofnun hennar verður óperustarfið samfellt, og mörgum af atvinnusöngvurum okkar gefst tækifæri til að þroskast og vaxa sem hluti af íslensku menningarlífi, og um leið njótum við öll góðs af listsköpun þeirra. Þannig getum við virkjað þessa miklu hæfileika og þekkingu, þessa vannýttu auðlind, landinu til heilla.

Nútímaleg og betri nýting menningarinnviða
Þjóðarópera verður nútímaleg í rekstrarformi, í takt við tíðaranda sem kveður á um sameiningu og samvinnu. Með þessu frumvarpi er lagt til að nota það sem fyrir er og hefur gefist vel og nýta opinbera fjárfestingu ríkisins. Þjóðarópera verður því stofnuð innan Þjóðleikhússins, en þannig nýtum við og styrkjum þær stoðdeildir og þá innviði sem þar eru þegar til staðar. Aðstaðan og kunnáttan sem Þjóðleikhúsið býr yfir er nauðsynleg öllum sviðslistum og mun óperan því njóta góðs af sambýlinu, fyrst um sinn sem dótturstofnun þessa framvarðar íslenskrar menningar. Við leitumst eftir samlegð í rekstrarlegu tilliti, líkt og bókhaldi, miðasölu, markaðssetningu og mannauðsstjórn, í stoðdeildum líkt og saumastofu, smíðaverkstæði, sviðstækni, búningum og leikgervum, en einnig í listrænni starfsemi. Við ætlum einnig að nýta hið glæsilega tónlistarhús, Hörpu, þar sem Þjóðarópera mun hafa meginaðstöðu sína. Hún verður mun betur nýtt fyrir listafólkið en hingað til: þar sem áður var saumastofa verður nú tónlistarherbergi, þar sem áður var leikmyndageymsla verður nú æfingarými; þögul og lítt notuð rými í tónlistarhöll landsmanna fyllum við nú af söng.

Starfsemi um allt land
Með ráðningu söngvara og samfelldri starfsemi verður einnig hægt að standa fyrir öflugu fræðslustarfi og búa til skólasýningar og samstarfsverkefni sem miða að því að sem flestir fái að kynnast tónlistarleikhúsi sem ekki hafa haft til þess tækifæri. Þjóðarópera mun axla samfélagslega ábyrgð, mynda tengsl við nýja Íslendinga og þá sem ekki vita að óperan hefur verið og getur verið listform alþýðunnar. Hún mun eiga í samstarfi við menntastofnanir á borð við Listaháskólann og tónlistarskóla landsins og kynna starfsvettvang atvinnufólks í sviðslistum fyrir nemendum. En við horfum ekki síður til landsbyggðarinnar, því ætlunin er að Þjóðarópera standi undir nafni með starfsemi utan höfuðborgarinnar. Þar sem þegar er verið að syngja og leika, þar mun Þjóðarópera leita samstarfs, m.a. við sinfóníuhljómsveitir Norður-, Suður- og Austurlands, og við kóra og einsöngvara í öllum landsfjórðungum. Við horfum til Hofs á Akureyri og til öflugs starfs tónlistarskóla, kóra, leikfélaga og menningarstofnana sem við teljum að muni verða öflugar samstarfseiningar Þjóðaróperu eftir margvíslegum leiðum.

Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir að starfsemi Þjóðaróperu hefjist 1. janúar 2025. Við njótum strax góðs af þessari fjárfestingu í mannauði með blómlegra menningarlífi, en um leið vitum við það af stórhug forvera okkar að við sáum nýjum fræjum til framtíðar. Hvað sprettur úr þeim jarðvegi er ekki okkar að segja, en það er víst að sá einn uppsker sem sáir. Gleðilegt sumar!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum