Hoppa yfir valmynd
02. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aðgerðir í neytendamálum

Neytendamál voru einn af þeim málaflokkum sem settir voru í brennidepil við stofnun menningar- og viðskiptaráðuneytisins í febrúar árið 2022. Þannig hefur stuðningur við samtök á sviði neytendamála, eins og Neytendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna, verið aukinn, ráðist var í úttekt gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna til að varpa ljósi á þróunina á þeim markaði, stutt hefur verið við verðlagseftirlit ASÍ í þágu neytenda, í gangi er úttekt á hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum gagnvart neytendum í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv.

Á Alþingi í vor mælti ég einnig fyrir frumvarpi um ný markaðssetningarlög sem marka ákveðin tímamót. Megináherslan í þeim er að efla neytendavernd. Sérákvæði verður um óhæfilega samningsskilmála, sem þýðir til dæmis að ef samningsskilmálar í vöru- og þjónustukaupum eru ósanngjarnir gagnvart neytendum þá getur Neytendastofa gripið til aðgerða. Annað sem skiptir mig miklu máli og tengist íslenskunni er að það er skerpt á þeirri meginreglu að allar auglýsingar skuli vera á íslensku. Þá er ætlunin að draga úr hindrunum í gildandi regluverki en lögin séu einföld, skýr, aðgengileg og tæknihlutlaus og leggi ekki óþarfa byrðar á atvinnulífið. Einnig er lögð áhersla á að tryggja eins og kostur er að ákvæði löggjafar um að þessi mál séu í samræmi við löggjöf í Evrópu. Er þannig stutt við það meginmarkmið í stefnu stjórnvalda að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Í vikunni voru birt í samráðsgátt drög að nýrri heildarstefnu í neytendamálum sem ég stefni á að mæla fyrir á Alþingi nú á vorþingi. Samhliða er sett fram aðgerðaáætlun sem unnið verði eftir til ársins 2030. Um er að ræða níu skilgreindar aðgerðir sem ná yfir frekari uppfærslu og nútímavæðingu löggjafar á sviði neytendamála, aukna áherslu á netviðskipti og stafvæðingu, aukna neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og áherslu á fjármálalæsi, og sérstakar þarfir viðkvæmra hópa neytenda svo dæmi séu tekin. Í því samhengi langar mig sérstaklega að nefna að regluverk um smálán verður tekið til endurskoðunar til að vernda þá sem höllum fæti standa og setja skýrari leikreglur á því sviði. Ýmis skref hafa verið stigin á undanförnum árum í þeim efnum en ljóst að ýmis tækifæri eru til frekari úrbóta á því sviði.

Mikil vinna hefur átt sér stað innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins á undanförnum árum til þess að undirbyggja raunverulegar aðgerðir í þágu neytenda til dagsins í dag og til framtíðar. Ég er sannfærð um að þær aðgerðir sem við munum halda áfram að hrinda í framkvæmd munu bæta samfélagið okkar og neytendavernd í þágu okkar allra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum