Hoppa yfir valmynd
11. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tæknin sem breytir heiminum

Tæknibreytingarnar sem eru að eiga sér stað í gegnum gervigreind og máltækni eru þær mestu í áratugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinnur, lærir, ferðast, nálgast heilbrigðisþjónustu og hefur samskipti sín á milli.

Eins og flestum er kunnugt hafa miklar breytingar orðið á stöðu tungumála með tilkomu gervigreindar, alþjóðavæðingar og aukinna fólksflutninga. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum sett málefni íslenskunnar í öndvegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslendinga í síðustu viku aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta. Stjórnvöld hafa undanfarin ár einnig fjárfest í máltækni fyrir íslensku með verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 og náð góðum árangri. Markmiðið með henni er skýrt: að gera íslenskuna gildandi í hinum stafræna heimi til framtíðar. Í heimi tækninnar þarf að tala máli íslenskunnar gagnvart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heiminum. Það þarf að minna á mikilvægi minni tungumála og koma á framfæri þeim íslensku máltæknilausnum sem smíðaðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum sem erlend tæknifyrirtæki geta innleitt í vörur sínar með nokkuð greiðum hætti. Það var mikil viðurkenning fyrir vegferð íslenskra stjórnvalda í málefnum íslenskunnar þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI gaf út nýja uppfærslu á gervigreindar-mállíkaninu GPT í fyrra þar sem íslenska var valin fyrst tungumála, utan ensku, í þróunarfasa þess. Var það afrakstur samtala og funda við fulltrúa fyrirtækisins.

Í vikunni leiddi ég sendinefnd til Bandaríkjanna sem fundaði með stórum tæknifyrirtækjum til að ræða stöðu smærri tungumála, sérstaklega íslensku, í stafrænum heimi. Fyrirtækin voru Microsoft, Allen Instittu4e for AI, Anthropic, Google og OpenAI. Er það meðal annars í samræmi við nýja máltækniáætlun þar sem lagt er til að aukinn þungi verði settur í að kynna íslenska máltækni á erlendri grundu. Jafnframt er verið að kanna hug þessara fyrirtækja til að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi fyrir smærri tungumál heims. Skemmst er frá því að segja að okkur var vel tekið og áhugi er fyrir hendi á að auka veg íslenskunnar enn frekar. Microsoft hefur til dæmis hefur sýnt íslensku mikinn áhuga og má nefna að ýmis forrit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota alfarið á íslensku. Eftir heimsókn íslenskrar sendinefndar árið 2022, sem forseti Íslands ásamt mér og fleirum fór í, hefur Microsoft nú þegar innleitt íslenska máltækni í tæknilausnir sínar til að auka gæði íslenskunnar. Meðal þess sem við rætt var við fyrirtækið í þessari umferð var íslenska forritið Copilot, sem vel var tekið í. Það skiptir framtíð íslenskunnar öllu máli að hún sé aðgengileg og nýtileg í tækjum sem við notum. Okkur hefur auðnast að vinna heimavinnuna okkar vel hingað til í þessum efnum svo eftir sé tekið og það er að skila sér. Hins vegar er verkefnið langt í frá klárað og ljóst að frekari árangur kallar á breiða samvinnu með virkri þátttöku almennings, vísindafólks, fræðasamfélagsins, fyrirtækja og frumkvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hagsmunir íslenskunnar víða sem mikilvægt er að huga að.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum