Hoppa yfir valmynd
22. maí 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum en ferðamenn sem hingað koma hrífast af menningu okkar og hinni stórbrotnu íslensku náttúru sem er einstök á heimsvísu. Mælingar sýna einmitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinnar mikið og gefa Íslandi afar góða umsögn.

Í liðinni viku tók Alþingi til umfjöllunar tillögu mína til þingsályktunar um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengda. Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi hefur aukist verulega samhliða vexti greinarinnar. Ytri staða þjóðarbúsins stóð oft á tímum tæpt hér á árum áður en straumhvörf urðu á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins fyrir rúmlega tíu árum þegar ferðaþjónustan fór á flug í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Ferðaþjónustan er í dag stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar í landinu.

Það skiptir máli að búa þessari stóru og þjóðhagslega mikilvægu atvinnugrein sterka umgjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamálastefna skipa veigamikinn sess. Vinna við hina nýju ferðamálastefnu hefur verið eitt af forgangsmálum mínum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Sjö starfshópar hafa unnið að ferðamálastefnunni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sérfróðum aðilum. Ferðaþjónustan er fjölbreytt og skemmtileg atvinnugrein, sem endurspeglast einmitt í hópunum en þeir náðu utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.

Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Það skiptir miklu máli að hlúa að ferðaþjónustunni um allt land og skapa þannig skilyrði að hægt sé að lengja ferðamannatímabilið hringinn um landið. Það ríkir mikil alþjóðleg samkeppni í ferðaþjónustu og við verðum ávallt að vera á tánum að tryggja að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu sé eins og best verði á kosið.

Það skiptir nefnilega lítið opið hagkerfi eins og okkar öllu máli að hér séu styrkar útflutningsstoðir eins og ferðaþjónustuna.

Sagan kennir okkur að þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, myndarlegan gjaldeyrisforða sem og innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efnahagslífinu. Þar mun ferðaþjónustan skipta lykilmáli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamálastefnu er metnaðarfullt, verkefnið framundan verður að hrinda því í framkvæmd og sækja fram fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum