Fögnum lýðveldinu
Lýðveldið er hraust og sprelllifnandi eins og nýafstaðnar forsetakosningar eru til vitnis um. Öflugur hópur frambjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands, fjölmargir sjálfboðaliðar lögðu forsetaframbjóðendum lið með ýmsum hætti og kjörsókn var sú besta í 28 ár. Allt upptalið er mikið styrkleikamerki fyrir lýðræðissamfélag eins og okkar. Því miður er sótt að lýðræði og gildum þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefnilega að rækta og standa vörð um. Þar gegnir virkt þátttaka borgaranna lykilhlutverki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanapistla, baka vöfflur í kosningabaráttu, bera út kosningabæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfélagi.
Mikilvægur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mikilvæga áfanga í sögu þess. Komandi lýðveldisafmæli er einmitt slíkur áfangi en fjölbreytt hátíðardagskrá verður út um allt land í tilefni af 17. júní. Einnig hefur nefnd skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs. Nefndin hefur unnið að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin um allt land á næstu mánuðum.
Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðardeginum vestur á Hrafnseyri, fæðingastað Jóns Sigurðssonar, þar sem verður skemmtileg dagskrá í tilefni lýðveldisafmælisins og einnig 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára afmæli lýðveldisins, enda er það fjöregg okkar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.