Hoppa yfir valmynd
29. júní 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

80 alda lýðveldisafmæli: Efnahagsstefna Jóns Sigurðssonar forseta

Jón Sigurðsson forseti drakk í sig alþjóðastrauma samtímans en var að sama skapi afar framsýnn og einn mesti stjórnmálahugsuður sem Ísland hefur alið af sér. Hann lagði stund á hagfræði og sagnfræði við Kaupmannahafnarskóla. Það er ljóst að hann var vel lesinn og kunni góð skil á helstu klassísku kenningum hagfræðinnar. Leiðarstefið þar var gjarnan hvernig þjóðir gætu aukið hagsæld sína og auðlegð út frá aukinni sérhæfingu. Augljóst er á skrifum Jóns að hugmyndir hinna klassísku hagfræðinga Adams Smiths og Davids Ricardos voru ákveðið leiðarljós í skrifum hans um framtíðarfyrirkomulag íslenska hagkerfisins.

Alþjóðaviðskipti í sókn

Á 19. öldinni verður mikil aukning í alþjóðaviðskiptum. Samhliða því verða umfangsmiklar framfarir í öllum samgöngum og fjarskiptum. Hinn klassíski hagfræðiskóli lagði áherslu á að alþjóðaviðskipti væru grundvöllur fyrir efnahagslegum vexti og nýsköpun. Fleiri störf væru sköpuð, aukin framleiðni, sem stuðlaði að auknum hagvexti og betri lífskjörum fyrir alla þjóðfélagshópa. Þetta tímabil skóp skilyrðin fyrir einu mesta framfaraskeiði á Vesturlöndum sem er kennt við alþjóðavæðingu hina fyrri, sem tímabilið 1860-1914 fangar vel. Jón forseti drakk í sig alla þessa strauma og staðfærði á íslensk skilyrði. Jón var að mínu mati skemmtileg blanda af alþjóða- og þjóðhyggjusinna.

Utanríkisviðskipti Íslands byggð á hlutfallslegum yfirburðum

Jón Sigurðsson forseti gerði sér grein fyrir að alþjóðaviðskipti eru ekki aðeins viðskipti með vörur og þjónustu, heldur einnig mikilvæg brú milli þjóða, menningar og hugmynda. Hann vissi að með því að berjast fyrir verslunarfrelsi og opna Ísland fyrir alþjóðlegum viðskiptum myndum við ekki aðeins auka hagsæld okkar, heldur einnig læra af öðrum þjóðum og deila okkar eigin reynslu og menningu. Jón var sannfærður um að verslunarfrelsi væri grundvöllur fyrir efnahagslegum vexti og velmegun þjóðarinnar. Verslunarfrelsi er ekki aðeins spurning um efnahagslegan ávinning, heldur einnig um sjálfstæði þjóðarinnar og réttinn til að ráða eigin örlögum.
„Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því að þær séu mjög fjölmennar eða hafi mjög mikið um sig. Sérhver þjóð vegnar vel sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík einstökum jörðum; ekkert land hefir alla kosti og ekkert er heldur alls varnað; en það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til að ókostirnir gjöri sem minnst tjón. Einkanlega varðar mjög um þetta í hinum harðbýlari löndum því kostir þeirra eru ógreiðari atgöngu og þarf fylgis og dugnaðar ef þeir eiga að verða að fullum notum.“ Þessi skrif eru einmitt í anda þess hvernig hagkerfið okkar þróaðist síðar meir og segja má að þær efnahagslegu framfarir sem eiga sér stað á 20. öldinni séu einstakar í heimshagsögunni.

Framfarasaga íslenska hagkerfisins

Ísland fer úr því að vera eitt fátækasta ríki í Evrópu í að hafa einar hæstu þjóðartekjur á hvern einstakling. En hver er grunnurinn að þessum efnahagslegu framförum? Þær liggja einmitt í texta Jóns Sigurðssonar og kenningum hinnar klassísku hagfræði, þegar lagt er út frá því að sérhver þjóð þurfi að sjá kosti sína og nýta sér þá.
Framfarasinnað fólk á Íslandi áttaði sig fljótt á því að til að sækja fram fyrir þjóðina þyrfti að nýta sér þennan greiða aðgang að hafinu og nýta landfræðilega stöðu landsins. Með vélvæðingu sjávarútvegsins um aldamótin 1900, sem hófst með innleiðingu véltogara og mótorbáta hófst mikið uppbyggingarskeið, sem hafði sannarlega áhrif um allt land og sérstaklega við sjávarsíðuna. Samhliða tækniþróun jukust utanríkisviðskipti Íslendinga jafnt og þétt og skópu aðgengi að nýjum gjaldeyristekjum. Framfaraskref voru tekin á stjórnmálasviðinu með heimastjórninni 1904 og verulega auknum áhuga fólksins í landinu á að auka sjálfræði þjóðarinnar. Með fullveldinu 1918 fengu Íslendingar langþráð fullveldi löggjafans, dómsvaldsins og yfir fjárreiðum ríkissjóðs. Það er hins vegar ekki fyrr en eftir lýðveldisstofnunina að hinu formlega sambandi við Danmörku er slitið og fullt sjálfstæði þjóðarinnar verður að veruleika. Langþráður draumur afmælisbarnsins og 97% þeirra sem greiddu atkvæði um stofnun lýðveldisins. Þvílíki dagurinn, hann var samt ekki eins sólríkur og hér í dag. Eftir lýðveldisstofnun var farið í að efla nýsköpun í atvinnulífi og allri uppbyggingu, sérstaklega í sjávarútvegi og iðnaði. Á þessum tíma var lögð áhersla á að endurnýja og bæta fiskiskipaflotann með nýjum og betri skipum, sem átti að auka afköst og tekjur sjávarútvegsins. Einnig var unnið að því að efla innviði landsins, svo sem vegakerfi og raforkukerfi. Á sama tíma hélt hin efnahagslega sjálfstæðisbarátta áfram með því að fara í að stækka landhelgina í þeim tilgangi að auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins. Fullnaðarsigur hafðist gegn breska heimsveldinu í þorskastríðunum, sem endaði að lokum með því að 200 mílna efnahagslögsagan varð að veruleika. En eins og við þekkjum þurfti að hafa fyrir þessu og sýna dugnað, eins og afmælisbarnið lagði áherslu á. Óðinn og Þór stóðu í stafni fyrir íslenska þjóð og börðu á breska heimsveldinu. Þessi barátta fyrir efnahagslegu sjálfstæði skilaði íslensku þjóðarbúi miklum gjaldeyristekjum og lagði grunninn að þeirri hagsæld og velferðarkerfi sem við þekkjum í dag og þykir svo vænt um.
Þjóðin staldraði ekki þar við heldur áttaði sig á því að erfitt væri að hafa öll eggin í sömu körfunni þegar kom að gjaldeyrissköpun og leitaði þá aftur í smiðju Jóns og Ricardos og fór að framleiða raforku til útflutnings og þar með minnkaði vægi sjávarútvegs frá því að vera um 90% af gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins í um það bil helming. Þjóðin fjárfesti í Landsvirkjun, sem hefur verið í fararbroddi í orkuöflun landsins ásamt hitaveitum sveitarfélaganna. Fjárfestingar þjóðarfyrirtækisins hafa verið arðbærar og hefur fyrirtækið greitt um 50 milljarða í ríkissjóð á undanförnum þremur árum. Íslenska hagkerfið hefur haldið áfram að vaxa og dafna og hefur ferðaþjónusta sótt verulega í sig veðrið á síðustu tveimur áratugum og nú er svo komið að mestar gjaldeyristekjur koma frá henni, eða um 33%. Náttúra Íslands er þar aðalaðdráttaraflið og ánægja okkar gesta er mikil með Íslandsheimsóknina. Aftur er komið við í hugarsmiðju Jóns og Ricardos, þar sem ferðaþjónustan er að nýta kosti landsins og sækir fram af dugnaði. Hugverkin og skapandi greinar hafa einnig verið í stórsókn og skapað nýjan gjaldeyri og ný störf. Á Ísafirði er eitt slíkt fyrirtæki, líftæknifyrirtækið Kerecis, sem breytir fiskroði í sáraplástra og er að ná undraverðum árangri í að lækna ein erfiðustu brunasár sem einstaklingar bera. Enn og aftur er það dugnaðurinn og kjarkurinn sem drífur einstaklinga áfram í að skapa og búa til velsæld fyrir samfélagið sitt og umheiminn sem nýta sér kosti landsins – sjávarfangið og mannauðinn.

Nýting á kostum lands og þjóðar

Það sem einkennir þessa hagþróun er að þjóðin er að nýta auðlindir sínar, hugvit og framfarir í tækni á öllum sviðum hafa reynst Íslandi vel í því fámenni sem við búum við. Eitt af því sem fram kom iðulega hjá afmælisbarninu er að þrátt fyrir fámenni er hægt að ná árangri.
Þessi hagþróun og verðmætasköpun hefur skipað Íslandi í fremstu röð meðal þjóða er varðar efnahagslega velmegun. Þjóðartekjur eru með þeim hæstu í veröldinni og jöfnuður á meðal þjóðarinnar mikill út frá öllum alþjóðlegum mælikvörðum. Ég er stolt af þessum árangri og tel að við eigum að halda áfram að sækja fram og skapa meiri verðmæti og hagvöxt, sem er sjálfbær. Lykillinn að áframhaldandi velsæld er dugnaður og að byggja á styrkleikum landsins. En að sama skapi hef ég þá staðföstu sýn að auðlindir landsins verði að vera í eigu þjóðarinnar. Landsvirkjun skal áfram vera í þjóðareigu og sala á landi til erlendra aðila er með öllu ósjálfbær til framtíðar. Í framtíðinni verður skortur á landi, hreinu vatni og grænni orku. Þar erum við Íslendingar lánsöm þjóð og eigum að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir, svo þær geti búið við jafn vænan kost og okkur hefur verið búinn. Þetta er alvörumál og er ég sannfærð um að þjóðhyggju- og alþjóðasinninn Jón Sigurðsson væri mér sammála um hversu mikilvægt það er fyrir framtíðarkynslóðir að við setjum skýrar línur um þessi mál. Fjárfestingarrýnifrumvarpið, sem lagt verður fyrir haustþingið, er mikilvægur liður í því að rýna mun betur erlendar fjárfestingar á Íslandi og setja reglur um þær til samræmis við önnur norræn ríki. Þessi lög eru löngu tímabær og mikilvæg vegferð í að halda betur utan um auðlindir Íslands og tryggja þjóðaröryggi landsins. Það eru viðsjárverðir tíma í heimsmálunum. Árásarstríð Rússlands í Úkraínu er enn heyjað af miklu miskunnarleysi og á eftir að hafa áhrif á skipan mála í Evrópu næstu áratugi. Stríðsátökin við botni Miðjarðarhafs eru þyngri en tárum tekur og virðast engan endi ætla að taka. Við megum þó aldrei glata voninni um frið og skipa okkur í sveit með þeim ríkjum sem deila okkar hugsjón um frelsi og lýðræði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta