Neytendavernd viðkvæmra hópa
Neytendamál hafa verið í forgangi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á kjörtímabilinu. Þannig hefur viðskiptabönkunum til að mynda verið veitt aðhald með úttekt á gjaldtöku þeirra og arðsemi, stutt hefur verið við verðlagseftirlit á dagvörumarkaði, niðurstaða úttektar á tryggingamarkaðnum er væntanleg fyrir áramót og nýverið mælti ég fyrir heildstæðri stefnu í neytendamálum til ársins 2030. Ein aðgerðanna í þeirri stefnu snýr að neytendavernd viðkvæmra hópa, en ákveðnir hópar neytenda í tilteknum aðstæðum geta verið viðkvæmir fyrir markaðssetningu og auglýsingum og þurfa því sérstaka vernd, svo sem börn, eldri borgarar og fatlað fólk.
Við höfum m.a. litið til samanburðarríkja í þessum efnum þar sem ýmislegt hefur verið til skoðunar, eins og t.d. endurskoðun á stöðlum fyrir barnavörur, fjármálaráðgjöf til neytenda sem standa höllum fæti fjárhagslega og aukið gagnsæi og ráðgjöf til að nálgast upplýsingar. Á þingmálaskrá minni er m.a. að finna frumvarp til markaðssetningarlaga sem inniheldur ákvæði sem snúa að viðskiptaháttum sem beinast að börnum og unglingum undir 18 ára aldri. Ákvæðið byggist á sambærilegum ákvæðum í dönsku og norsku markaðssetningarlögunum sem byggjast að miklu leyti á siðareglum Alþjóðaviðskiptaráðsins um auglýsingar og markaðssetningu að því er varðar vernd barna og unglinga.
Á Íslandi hafa málefni smálána verið til sérstakrar skoðunar undanfarin ár og hafa stjórnvöld, með Neytendastofu í broddi fylkingar, lagt talsvert kapp á að koma smálánastarfsemi í lögmætt horf. Þannig hefur smálánastarfsemi tekið miklum breytingum í kjölfar eftirlitsaðgerða m.a. með skilgreiningu viðbótarkostnaðar, útgáfu rafbóka, lánastarfsemi frá Danmörku o.s.frv. Eftir nauðsynlegar lagabreytingar hefur ekki borið jafn mikið á ólögmætum smálánum og var fyrir breytinguna. Hins vegar hafa viðskiptahættir tengdir smálánum breyst og tekjulindin virðist hafa færst yfir í löginnheimtu tengda smálánum með tilheyrandi vandamálum fyrir viðkvæma neytendur. Neytendur, og sérstaklega neytendur í viðkvæmri stöðu, leita oft ekki réttar síns þar sem þá skortir fjármagn, tíma og þekkingu, auk þess sem málaferlum fylgir oft óhagræði. Til skoðunar er að innheimtuhættir á þessum markaði verði kortlagðir og að fyrirkomulag eftirlits með frum-, milli- og löginnheimtu verði endurskoðað heildstætt til að unnt sé að taka á óréttmætum innheimtuháttum.
Í neytendamálum líkt og öðrum málum skiptir máli að huga sérstaklega að viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það viljum við gera með aukinni fræðslu, aðhaldi og eftirliti til þess að efla rétt neytenda á breiðum grunni.
Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.