Húsnæðismál eru hagstjórnarmál
Stærsta verkefni efnahagsstjórnarinnar er að ná niður vöxtum og verðbólgu. Það hefur verið ánægjulegt að sjá aðgerðir til að ná niður verðbólgu skila árangri. Þannig hefur hún lækkað úr 10,2% þegar hún mældist hæst, niður í 5,1%. Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans var jákvætt skref í átt að lægri vöxtum, en lægri vextir eru stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það hefur engum dulist að húsnæðisliðurinn hefur vegið þungt í verðbólgumælingum undanfarin misseri en vísitala neysluverðs án húsnæðis var um 2,8% í síðustu mælingu.
Ýmsu hefur verið komið til leiðar á undanförnum árum í húsnæðismálum. Þannig hefur ríkið til dæmis stutt myndarlega við uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með stofnframlögum sem eru ætluð til að treysta húsnæðisöryggi og tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað tekjulægri heimila. Hlutdeildarlánunum var einnig komið á, sem nýtast til dæmis fyrstu kaupendum. Húsnæðisstuðningur fyrir foreldra í leiguhúsnæði var aukinn. Sérstakur vaxtastuðningur, samtals upp á 5,5 ma. kr., var greiddur út 2024 vegna vaxtagjalda af íbúðalánum 2023, en stuðningurinn náði til 56 þúsund einstaklinga. Heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði voru rýmkaðar verulega. Húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda var aukin með breytingu á húsaleigulögum. Sveitarfélög fengu auknar heimildir til að tímabinda uppbyggingarheimildir til að tryggja að byggingaráform gangi eftir. Rekstrarleyfisskyld gisting í íbúðarhúsnæði var gerð óheimil og eftirlit með heimagistingu aukið.
Þrátt fyrir að mikið hafi verið byggt á undanförnum árum og hlutfall þeirra sem eiga eigið húsnæði aldrei verið hærra, þarf að byggja meira. Þar skiptir höfuðmáli að tryggja nægar byggingarhæfar lóðir í sveitarfélögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ríki og sveitarfélög hafa verið að taka höndum saman með þetta að markmiði. Má þar nefna að Reykjavík reið á vaðið og undirritaði tímamótasamning við ríkið um húsnæðisuppbyggingu um 16.000 íbúða á næstu 10 árum, eða allt að 2.000 íbúða á ári næstu fimm árin. Í borginni hafa húsnæðis- og lóðamál verið sett í forgang með Framsókn í broddi fylkingar, meðal annars með því að ryðja nýtt land. Má til dæmis nefna nýjar lóðir sem unnið er að á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal ásamt Keldnalandinu, sem er í umhverfismati, en um 2.600 íbúðir eru í byggingu í borginni og um 12.000 íbúðir eru á lóðum sem eru í skipulagsferli. Slík skipulagsvinna á hendi sveitarfélaganna verður að ganga smurt fyrir sig enda er verkefnið fram undan að tryggja að uppbyggingaráform raungerist. Hagstæðari fjármögnunarkostnaður sem mun fylgja lækkandi stýrivöxtum skiptir einnig höfuðmáli í því samhengi. Húsnæðismál eru stórt hagstjórnarmál og á húsnæðismarkaði þarf að ríkja heilbrigt jafnvægi. Aukið framboð á húsnæði er lykillinn að auknu jafnvægi á markaðnum í dag.