Hátíð nýsveina, Ráðhús Reykjavíkur 7. febrúar 2009
Forseti Íslands, borgarstjóri, fundarstjóri, félagar í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur, heiðruðu nýsveinar og aðrir góðir gestir
Ég hef aldrei verið álitin handlagin. Langt í frá. Kannski er það þess vegna sem ég ber mikla virðingu fyrir iðnaðarmönnum sem hafa þróað með sér mikla hæfni til að sinna sinni iðn, hver sem hún er. Þess vegna er ég mjög þakklát Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík fyrir að bjóða mér til þessarar hátíðar nýsveina 2009. Þess vegna er ég mjög ánægð með að eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem Menntamálaráðherra sé að ávarpa hátíð þar sem veitt verða verðlaun þeim nemum sem náð hafa framúrskarandi árangri á sveinsprófum og þá ekki síður hátíð þar sem í fyrsta sinn verður heiðraður iðnaðarmaður ársins – sem ég geri ráð fyrir að sé ekki ég, fyrst ekki er búið að tala við mig.
Það er gott framtak hjá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur að efna til þessarar hátíðar og ber vitni um ræktarsemi við störf iðnaðarmanna og iðnmenntun sem er svo mikilvæg fyrir atvinnulíf okkar og efnahag. Ég er ekki í nokkrum vafa um að margvísleg sóknarfæri liggja í að efla veg og virðingu fjölbreyttrar tækni- og verkþekkingar.
Það fer ekki hjá því að það hafi hvarflað að mörgum á síðustu mánuðum að verðmætasköpun okkar hafi ekki verið nægilega fjölbreytt. Skapandi atvinnuvegir hljóta að verða að byggja á samspili hugar og handar og að því þarf að hlúa í menntakerfinu.
Í nýjum lögum um framhaldsskóla eru ýmis mikilvæg nýmæli er snerta starfsmenntun. Starfsmenntun fær í lögunum hliðstæða stöðu og bóknámið, til dæmis í skipulagi náms til stúdentsprófs. Meiri möguleikar eru á fjölbreyttara og meira framboði starfsmenntunar í samstarfi skóla og atvinnulífs.
Starfsþjálfun á vinnustað eða vinnustaðanám mun samkvæmt lögum fá aukið vægi í menntun. Unnið er að því að semja reglugerðir um vinnustaðanám og aðkomu atvinnulífsins að mótun starfsmenntunar í gegnum starfsgreinaráð. Takist vel til í þessari vinnu verður nánara samspil milli skóla og atvinnulíf í starfsmenntun en verið hefur.
Síðastliðin tvö ár hefur þeim sem taka sveinspróf fjölgað. Árin 2007 og 2008 luku yfir 700 iðnnemar sveinsprófum hvort ár en meðaltal 10 áranna á undan var um 600 sveinspróf á ári. Þróunin er ánægjuleg og vonandi heldur hún áfram. Hluti af aukningunni má rekja til þeirra tækifæra sem hafa opnast fyrir þá sem hafa langa starfsreynslu til að afla sér menntunar til starfsréttinda. Með þróun aðferða viði svokallað raunfærnimat gefst reyndum starfsmönnum kostur á að fá starfsreynslu metna sem hluta af formlegri menntun. Með því að ljúka því sem vantar á í iðnmenntaskóla brautskráist viðkomandi og má þreyta sveinspróf í kjölfarið. Þannig luku 27 sveinsprófi eftir að hafa gengist undir raunfærnimat á vegum Iðunnar, fræðsluseturs, í fyrra. Þetta er áhugaverð þróun, ekki síst í ljósi þess hve stór hluti vinnuafls okkar hefur ekki lokið formlegri menntun til starfa en býr yfir mikilli og verðmætri starfsreynslu.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í mörgum atvinnugreinum er djúp lægð. Bygginga- og mannvirkjagreinar eru engar undantekningar. Samdrátturinn hefur í för með sér færri möguleika til starfsþjálfunar og er brýnt að leita lausna á því. Það er óheppilegt ef efnahagskreppa dagsins í dag hefur afgerandi áhrif á menntun iðnaðarmanna sem við þurfum á að halda innan fárra ára.
Starfsmenntaskólar hafa brugðist við þessum vanda og tóku um áramótin inn fleiri iðnnema, sem sagt hafði verið upp, en áður. Það hjálpaði til en leysir ekki allan þann vanda sem blasir við að óbreyttu. Með einhverju móti verður að halda tækifærum til starfsþjálfunar opnum svo nemendur í iðnnámi geti lokið námi sínu sem næst áætluðum tíma. Þetta er ekki einfalt vandamál og þarf menntakerfið og atvinnulífið að leita lausna saman.
Hátíð nýsveina vekur athygli á iðnmenntun. Vitund fyrir mikilvægi menntunar er að mörgu leyti samofin sögu íslenskra iðnaðarmannafélaga. Upphaf iðnfræðslu hér á landi má einmitt rekja til fræðslustarfs sem félög iðnaðarmanna efndu til á síðari hluta 19. Aldar. Félögin stóðu fyrir bóklegri fræðslu fyrir iðnaðarmenn og fór hún gjarnan fram við frumstæðar aðstæður á mælikvarða okkar tíma.
Um aldir hafði ungt fólk lært iðn með því að líkja eftir störfum hinna eldri. Atvinnuhættir á Íslandi tóku fyrst umtalsverðum breytingum þegar atvinna og menntun tvinnuðust saman.. Lengi vel var menntun iðnaðarmanna ólík því sem nú þekkist og fór að mestu fram á kvöldin. Nemendur komu til náms eftir stranga vinnudaga og greinilega tilbúnir til að leggja mikið á sig fyrir menntun í sínu fagi. Metnaðurinn var snemma mikill.
Þegar litið er yfir það starf sem nú fer fram í iðnmenntaskólum okkar þá er ljóst að stórvirki hefur verið unnið í menntunarmálum iðnaðarmanna. Iðnmenntun er í dag einn af hornsteinum hins almenna skólakerfis. Í skólunum eru vel menntaðir kennarar og aðstaða betri en nokkur gat látið sig dreyma um á upphafsárum iðnfræðslu á Íslandi.
Afrakstur þessarar þróunar má sjá hér í dag þegar glæsilegur hópur nýsveina er heiðraður fyrir góðan árangur í iðn sinni. Menntunn þeirra verður án efa mikilvægt veganesti til starfa eða frekara náms.
Ágætu nýsveinar. Til hamingju með árangurinn. Verið stolt af menntun ykkar og iðn. Við hin erum það líka.