Málþing um íslensku og íslenskukennslu í kennaranámi, 24. febrúar 2009
Ágætu málþingsgestir.
„Það var beðið mig að tala á þessu þingi?“
Já, ýmsar breytingar hafa orðið á íslensku máli og íslensku samfélagi síðustu árin og áratugina. Börnin eru minna inni á heimilum sínum nú en áður. Þau byrja snemma í skóla og eru þar lengi á degi hverjum. Málþroski þeirra mótast því meira af jafnöldrum en áður auk þess sem tölvur og tenging þeirra við hinn yfirþyrmandi enska málheim eru stór hluti af tungumálaumhverfi þeirra. Ofan á allt þetta hefur á undanförnum dregið úr móðurmálskennslu í skólum.
Móðurmál. Þetta er fallegt orð.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að síðustu árin hefur hluti íslensku þjóðarinnar flogið hátt og farið hratt. Í þessu flugi gleymdist oft að líta til jarðar: mikilvæg verðmæti eins og náttúra og menning gleymdust. Ég er sannfærð um að margir hafi á undanförnum mánuðum hugsað um hvað það sé sem raunverulega skipti máli, hverjar skyldur okkar sem nú lifum, séu við þá sem á eftir okkur koma.
Móðurmál okkar er íslenska. Eins og þetta orð, móðurmál, gefur til kynna hefur tungumálið sérstakan sess í hugum okkar – og hjörtum. Tungumálið er það sem bindur okkur saman en líka það sem gerir okkur frábrugðin, sérstök. Það er af þessu móðurmáli sem hugsun okkar og tilvera vex upp af.
Leikskólakennarar gegna mikilvægu hlutverki í máluppeldi barna. Samkvæmt lögum er eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskóla „að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku“. Í Aðalnámsskrá leikskóla frá 1999 er eitt námsviðið málrækt. Undir málrækt fellur „að auka orðaforða, ræða við barn í leik og starfi, hvetja barn til að tjá sig: segja frá, ræða við aðra, lesa fyrir barn, segja því sögur og ævintýri og fara með þulur og kvæði“. Allt eru þetta mikilvæg atriði í örvun málþroska barna.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og leikskólakennarar þar með fyrstu móðurmálskennarar barna. Það er því augljóst að leikskólakennarar þurfa góða kennslu í íslensku máli, málnotkun, máltöku og barnabókmenntum. Því miður fá verðandi leikskólakennarar nú litla íslenskukennslu. Nemar við þá tvo háskóla sem sinna menntun leikskólakennara fá nær enga kennslu um íslenskt mál, hvorki fræðilega umfjöllun um tungumálið né kennslu í málnotkun sem er forsenda þess að þeir styrki sig sem góða málfyrirmynd.
Íslenska er viðamesta námsgrein grunnskólans. Samanburður á lengd kennslu í móðurmáli á Norðurlöndum og Íslandi sýnir þó að Íslendingar verja minni tíma til móðurmálskennslu í grunnskólum en aðrar Norðurlandaþjóðir.
Á síðustu árum hefur verulega dregið úr íslensku í kjarna í þriggja ára kennaranámi. Á sama tíma hefur hlutverk íslenskukennslu í skólakerfinu breyst. Íslenskukennarar þurfa nú bæði að vera færi um að kenna íslensku sem móðurmál og sem annað mál, auk þess sem þeir þurfa að kunna að koma til móts við nemendur sem eru börn íslenskra foreldra en hafa alist upp að mestum hluta í útlöndum.
Þessar breyttu aðstæður kalla á aukna menntun íslenskukennara.
Framhaldsskólar. Í íslenskum framhaldsskólum er móðurmálskennsla minni en í framhaldsskólum annars staðar á Norðurlöndum. Kjarni í íslensku er núna 15 einingar af þeim 140 einingum sem þarf til stúdentsprófs.
Það er reynsla margra kennara að sumir þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi eigi erfitt með að tjá sig á skýran og skipulegan hátt, hvort heldur er í ræðu eða riti. Þá skortir undirstöðukunnáttu í málfræði, þekkja ekki málfræðihugtök og hafa ekki náð nægjanlegri leikni til að beita þeim á íslenskt mál. Málfræðiþekking er þó ekki einkamál íslenskukennara því hún er besti undirbúningurinn fyrir nám í öðrum tungumálum. Lestrarfærni nemenda er heldur ekki eins og hún ætti að vera.
Móðurmálskennslu í framhaldsskóla þarf að efla og þjálfa nemendur betur í ritun, framsögn og málfræði.
Skólakerfið verður að axla þá ábyrgð að efla vöxt og viðgang íslenskunnar. Við verðum að stefna á að íslenskir grunn- og framhaldsskólanemendur standi jafnfætis jafnöldrum sínum annars staðar í Evrópu í móðurmálsfærni. Auka þarf íslenskukennslu í námi leikskólakennara og kennara yngri bekkja í grunnskólum. Íslenskukennarar í grunnskólum þurfa að vera sérmenntaðir í námsgreininni íslensku og menntun móðurmálskennara á öllum skólastigum til að kenna íslensku sem annað mál verður að efla.
Íslenskt samfélag er orðið mun alþjóðlegra en áður var og enn sækir enskan á af auknum þunga. Mikill hraði í samfélaginu og lítil samskipti barna við eldri kynslóðir hafa margs konar áhrif, meðal annars á tungutak ungs fólks. Margt bendir til að íslenskt málskerfi sé nú að breytast hraðar en áður eru dæmi um.
Við Íslendingar eigum ekki marga fjársjóði. Saga okkar er ekki rík af stórkostlegum mannvirkjum frá miðöldum, endurreisnarmálverkum, krúnudjásnum. Okkar dýrmætasta eign er málið og náttúran. Hvort tveggja hefur auðvitað þróast á síðustu öldum. Það reynir á okkur núna að vernda þessi verðmæti. Það er ein af skyldum okkar að ekki verði óafturkræfar breytingar á íslenskri tungu, að málinu okkar verði ekki sökkt.
Þegar ég lít hér yfir salinn sé ég nokkra af helstu baráttumönnum fyrir því að móðurmálið okkar vaxi og dafni. Ég hlýt, sem menntamálaráðherra, að þakka fyrir alla þá vinnu og hugsjón.
Góðar stundir.